Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Opið hús á Bifröst

Í dag, sumardaginn fyrsta, er opið hús á Bifröst. Mæli með skreppitúr í sveitina fyrir alla þá sem eru að íhuga háskólanám í sumar eða haust, mæli sérstaklega með Evrópufræðinni fyrir þá sem vilja fara í framhaldsnám. Í nýja skipulaginu er lögð sérstök áhersla á samfélög Austur-Evrópu.

Eldur

Við Hrafnhildur röltum í bæinn seinni partinn í dag, eins og svo oft. Þegar við komum niður í bæ sáum við að það var kviknað í nokkrum sögufrægustu húsunum við horn Lækjargötu og Austurstrætis. Þetta var hryllileg sjón. Ég vona að húsin verði endurbyggð í sömu mynd svo Hrafnhildur fái notið þeirra þegar hún vex úr grasi. Við gengum áfram upp Bankastrætið og hittum þar Villa naglbít, kunningja minn. Ég óskaði honum til hamingju með útgáfu á nýju hljómplötunni hans, en hann ætlaði að halda útgáfutónleika í kvöld, sem ég ætlaði einmitt að kíkja á. Hann minnti mig á að tónleikarnir áttu að vera í Rósenberg, á stað sem nú er semsé brunninn. Tónleikarnir verða því að bíða betri tíma.

Bruðl

Í nýrri skýrslu samráðshóps um framtíð Reykjavíkurflugvallar kemur skýrt fram að flugvöllurinn mun fara úr Vatnsmýrinni á næstu árum. Í stjórnmálaályktun um samgöngumál á nýloknum landsfundi Sjálfstæðisflokksins segir hins vegar:

"Mikilvægt er að hraða uppbyggingu samgöngumiðstöðvar við Reykjavíkurflugvöll en núverandi flugstöð er úrelt og hamlar aðstöðuleysi þar  m.a. samkeppni í innanlandsflugi."

Því er ekki úr vegi að spyrja; fyrst flugvöllurinn mun fara úr Vatnsmýri, hvers vegna á þá að eyða þrem milljörðum úr sameiginlegum sjóð almennings í nýja flugstöð?


Eilíf hamingja

Fórum á leikrit þeirra félaga Þorleifs Arnars og Andra Snæs, Eilíf hamingja, í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi. Þetta er þrælfín skemmtun og góð ádeila á plebbaskapinn í fyrirtækjamenningu samtímans. Í miðri sýningu sprettur fram breskur kynlegur kvistur og fer að tala við áhorfendur um eðli leikhússins, líkast til gert til að brjóta sýninguna aðeins upp. Það var svosem ágætlega fyndið, en spurning hvort þetta uppbrot hafi átt nokkuð erindi. Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um það. Kannski var bara verið að gefa leikaranum tækifæritil að sýna getu sína, sem er svosem líka allt í lagi. Annars þekkti ég engann af þessum leikurum fyrir. Sem gamall framkvæmdastjóri í leikhúsi veit ég að það er alltaf áhætta að bjóða upp á sýningu með lítt þekktum leikurum. Það hefur þó gengið upp í þetta skipti. Öll stóðu þau sig með prýði.


Aþena og rauðbröndótti högninn

Læðan á heimilinu, hún Aþena (6 mánaða), er heldur ræfilssleg hérna í sófanum hjá mér. Var núna rétt áðan að koma úr ófrjósemisaðgerð frá Dagfinni dýralækni á Skólavörðustígnum. Er enn heldur vönkuð eftir aðgerðina og liggur eins og slitti við hliðina á mér. Við þorðum ekki öðru en að fara með hana í þessa aðgerð því einhver risastór og drulluskítugur rauðbröndóttur högni var farinn að sverma alltof mikið fyrir henni. Dóttir mín, hún Hrafnhildur (9 mánaða), er sofandi uppi. Ég hef smá áhyggjur af því þegar hún vaknar, að hún leyfi Aþenu ekki að fá þann frið sem hún þarf til að jafna sig. Þær eru nefnilega orðnar ansi fjörlegir leikfélagar.


Mikilvæg viðbót

Al Jazeera er frábær viðbót við þær alþjóðlegu fréttastöðvar sem fyrir voru á Skjá Símans. Hinar stöðvarnar, CNN, BBC, CNBC og Sky, eru allar engilsaxneskar, sem gefur okkur sjónvarpsáhorfendum auðvitað nokkuð afmarkaða sín á veröldina. Þessu til viðbótar virðast íslenskir fjölmiðlar nánast eingöngu notast við engilsaxneska miðla sem uppsprettu erlendra frétta, stundum raunar norræna líka, í einstaka tilvikum þýska, afar sjaldan franska. Í þessu ljósi er Al Jazeera mikilvæg viðbót, en mun því miður duga skammt til að rétta af nokkuð skekkta heimsmynd okkar.
mbl.is Mikið áhorf á Al-Jazeera í Evrópu og Asíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirsjáanleg niðurstaða, samt merkileg

Ný könnun sýnir að meirihluti þjóðarinnar vill að settar verði strangari reglur um möguleika útlendinga til að flytjast til landsins. Þetta kom fram í frétt Sjónvarpsins í kvöld. Ég get ekki sagt að þessi niðurstaða komi á óvart. Niðurstaðan er hins vegar merkileg í ljósi þess að á Íslandi er nú þegar strangasta innflytjendalöggjöf sem þekkist í hinum vestræna lýðfrjálsa heimi. Eins og lesa má um í þessari bók.

Alvöru blaðamennska

Umfjöllun Davíðs Loga um Íraka á flótta í Morgunblaðinu í dag er í einu orði sögð frábær. Davíð Logi veitir íslenskum blaðalesendum einstaka innsýn í hörmuleg örlög írasks almennings. Umfjöllun af þessu tagi er ástæðan fyrir því að ég er enn áskrifandi að Morgunblaðinul. 
mbl.is Tvær milljónir Íraka hafa flúið land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um hvað verður kosið?

Eins og búast mátti við var páskahelgin vart liðin áður en kosningabaráttan fyrir Alþingiskosningarnar 12. maí fór á fullt skrið. Núna um helgina halda svo tveir stærstu stjórnmálaflokkar landsins, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking, landsfundi sína. Flokkarnir hafa undanfarið verið að ydda og meitla boðskap sinn og finna hinn réttan tón. Við ættum því að geta áttað okkur betur á því nú, hvað þessar kosningar munu snúast um.

Þá daga sem liðnir eru frá páskum hefur umæðan hægt en örugglega verið að setjast í sömu brautir og ávallt þegar svo skammt er í kosningar. Nú tala allir um budduna, með einum eða öðrum hætti. Önnur mál, svo sem umhverfismál, sem verið hafa ofarlega í umræðunni undanfarið, eru smám saman að víkja fyrir auknum áherslum á efnahags- og atvinnumálum. Eins og alltaf.

Buddan ræður
Undanfarna viku höfum við til að mynda séð hvernig Framsóknarflokkurinn hefur hafið sókn frá hinni hlið náttúruverndarmálsins og hafnar afdráttarlaust öllu tali um stóriðjustopp. Flokkurinn ætlar sér þvert á móti að vinna sér inn atkvæði á frekari atvinnuuppbyggingu sem byggir á orkufrekum iðnaði.
Þessi breytta staða í umræðunni setur Íslandshreyfinguna og Vinstri græna í ákveðinn vanda. Takist þessum flokkum ekki að klæða náttúruverndarstefnu sína í búning efnahagslegra framfara er ansi hætt við að málflutningur þeirra muni eiga erfiðar uppdráttar nú heldur en fyrir páska, áður en kosnigabaráttan fór í fullan gang.

Áherslan á budduna veldur einnig því að Frjálslyndi flokkurinn vill gjarnan klæða ógeðfelda andstöðu sína við innflytjendur í þann búning að þeir séu ógn við launamenn í landinu. Nýlegar rannsóknir Kaupþings og Landsbankans sína hins vegar svart á hvítu að hver fjölskylda í landinu hefur þvert á móti grætt hundruð þúsunda á hingaðkomu erlends starfsfólks sem tekið hafa að sér láglaunastörf, sem innfæddir Íslendingar vilja ekki sinna.

Tækifæri og ógnir
Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við völd sleitulaust í sextán ár. Í kosningunum í vor þarf flokkurinn því fyrst og síðast að treysta á að kjósendur séu sáttir við árangur í efnahagsstjórn undanfarin ár. Sú staða felur bæði í sér tækifæri og ógn. Valdastaða Sjálfstæðisflokksins er augljós styrkur að því leyti að íslenska þjóðarbúinu hefur gengið býsna vel undanfarin ár. Um leið felur löng valdaseta Sjálfstæðisflokksins í sér veruleg tækifæri fyrir stjórnarandstöðuna, því þrátt fyrir almenna velgengni hafa einnig komið í ljós alvarlegir brestir í efnahagsstjórninni.

Framan af kosningabaráttunni virtist Samfylkinginn ætla að há kosningabaráttu sína á heimavelli andstæðingsins. Flokkurinn var svo upptekinn við að ræða kvenfrelsis- og umhverfismál, þar sem VG er á heimavelli, að hann virtist gleyma að tala fyrir eigin stefnu í efnahags- og velferðarmálum. Strax eftir páskana kvað hins vegar við allt annan tón þegar flokkurinn kynnti viðamikla og vandaða úttekt á ástandi efnahagsmálanna sem unnin var undir forystu Jóns Sigurðssonar, hagfræðings. Í skýrslunni er efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar harðlega gagnrýnd. Sýnt er fram á hvernig aðgerðir í ríkisfjármálum hafa beinlínis gengið gegn markmiðum peningstefnunnar og þannig hleypt verðbólgudraugnum á stökk sem aftur hefur neytt Seðlabankann til að hækka stýrivexti í himinhæðir, með tilheyrandi kostnaði fyrir bæði almenning og fyrirtæki. Þessu til viðbótar má benda á allt of hátt verðlag á matvælum, óþarflega hátt skatthlutfall og aukinn ójöfnuð. Ég spái því að hér eftir verði meginþungi kosningabáráttunnar á þessa þætti.

Þessi pistill birtist í Blaðinu í dag.


Fallinn leiðtogi

Þetta er ástæðan fyrir því að Tony Blair er rúinn trausti og mun þurfa að hrökklast frá völdum í sumar. Framan af ferlinum var Blair einhver ástsælasti stjórnmálamaður sem komið hefur fram í Bretlandi. Mistökin i Írak voru dýr.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband