Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Umhverfið út, buddan inn

Kosningabaráttan er að setjast í sömu brautir og alltaf á þessum tíma fyrir kosningar. Nú leggja allir flokkar áherslu á budduna, með einum eða öðrum hætti. Ég spái því að hér eftir verði lítið minnst á mál sem falla fyrir utan veskið, svo sem umhverfisvernd, nú þegar kosningabaráttan er komin á fullt skrið.

Ummæli þeirra "frjálslyndu"

Það er merkilegt hvað fulltrúar Frjálslynda flokksins eiga oft erfitt með að kannast við eigin stefnu í innflytjendamálum þegar þeir þurfa að svara fyrir harða mótstöðu sína gegn innflytjendum. Til að hjálpa þeim að átta sig á eigin stefnu eru hér rifjuð upp fáein ummæli af handahófi.

Jón Magnússon, oddviti í Reykjavík. Blaðið. 1. nóvember 2006
“Ég vil ekki fá hingað fólk úr bræðralagi múhameðs.”
“Við erum svo lítið sandkorn í þjóðahafinu að mesta ógn sem sjálfstæð íslensk þjóð og íslensk menning hefur nokkru sinni staðið frammi fyrir er núna. Það er okkar hlutverk að velja leiðina áfram. Fyrir Ísland og Íslendinga.”

Magnús Þór Hafsteinsson, varafomaður. Alþingi 7.nóvember 2006
“svartur dagur í sögu þjóðarinnar”
(þegar Pólverjar og aðrir ESB-borgarar frá ríkjum Austur-Evrópu fengu atvinnuréttindi á Íslandi í maí 2006)

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður. Setningarræða á landsfundi 27. janúar 2007
“Heilbrigðisyfirvöld þurfa að vera á varðbergi varðandi smitsjúkdóma eins og berkla.”
kanna “hugsanlega sakaferla,” og “meta menntun”

Viðar Helgi Guðjohnsen, 5. sæti í Reykjavík Suður.) Blog.is 29. mars 2007
“Hingað til Íslands streyma nú þúsundir innflytjenda árlega.“
“Laun eru að lækka hratt.”
“Berklar”
“Eiturlyfjasala.”
“Mansal.”
“Nauðungarvinna.”
“Skipulagðar nauðganir.”

Kristinn Snæland, flokksmaður. Á fundi Frjálslynda flokksins 3. apríl 2007.
“Ég get sagt ykkur það. Ég fann ekki að ég væri, ef ég segi minni gömlu Málmey. Þarna voru Tyrkir og svertingajar og múslimar að selja Kebab og pizzur og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta var óhuggulegt.”
(Um reynslu sína frá Svíþjóð).

 


Enginn ætlar að losa um búfjötrana

Fulltrúar flokkanna eru að ræða landbúnaðarmál í Ríkissjónvarpinu. Ég tek eftir að enginn stjórnmálaflokkur í landinu vill losa um þá óhemju miklu búfjötra sem búið er að koma íslenskum landbúnaði í. Þessir fjötrar hafa hvort tveggja í senn haldið bændum við fátækramörk og leitt til þess að hér er hæsta matvælaverð á byggðu bóli. Þessa vitlausu stefnu vilja allir stjórnmálaflokkar í landinu semsé vernda.

Þetta er svona.


Umfjöllun um umfjöllun

Jón Baldvin Hannibalsson ritar heilmikinn ritdóm, heila opnu, um bókina mína, Opið land, í Morgunblaðið í dag. Fyrir utan almenna og heldur jákvæða umfjöllun um bókina er hann fyrst og fremst að ræða Evrópupólitík Sjálfstæðisflokksins og samskipti sín við Davíð Oddson í ríkisstjórn árin 1991 til 1995.

Margt ansi áhugvert kemur fram í grein Jóns. Jón er ekki sammála mér að öllu leyti, sem er auðvitað bara betra. Hann er til að mynda ekki sammála þeirri greiningu minni að erfiðleikar í samskiptum Jóns og Davíðs hafi orðið til þess að Davíð hafi brugðist illa við þegar utanríkisráðherrann hóf að tala fyrir ESB-aðild án þess að hafa borið það undir forsætisráðherrann. En í bókinni leiði ég líkur að því að hörð andstaða Davíðs við ESB (Davíð hafði áður talað fyrir inngöngu Íslands í ESB) hafi að einhverju leyti verið viðbragð við frumkvæði Alþýðuflokksins í málinu. Eftir því sem umræðan um þennan litla þátt í bókinni (bókin fjallar að mestu um allt aðra hluti) hefur orðið meiri er ég þó jafnvel sannfærðari en áður um að erfiðleikar í samskiptum leiðtoganna tveggja, sem á þessum tíma voru svo gott sem hættir að tala saman, hafi haft sín áhrif á framgang málsins. Hvort það hafi haft úrslitaáhrif skal ósagt látið.

Jón er heldur ekki sammála mér um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi að grunni til verið alþjóðasinnaður flokkur og fylgjandi fjölþjóðlegu samstarfi. Jón heldur því þvert á móti fram að Sjáflstæðisflokkurinn hafi alltaf verið einangrunarsinnaður hagsmunagæsluflokkur. Eigi að síður er það svo að það var Sjálfstæðisflokkurinn sem barðist fyrir þátttöku Íslands í samstarfi vestrænna ríkja í NATO og það var Sjáflstæðisflokkurinn sem vann ötullega að aðild Íslands að EFTA á sínum tíma. Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti einnig EES-samninginn þótt það hafi vissulega verið Alþýðuflokkurinn sem dreif málið áfram. Ég stend því við þá ályktun mína að óhemju hörð andstaða Davíðs gegn ESB hafi að einhverju leyti gengið gegn hefð flokksins þegar kemur að vestrænu samstarfi.

Hins vegar er það svo að Sjálfstæðisflokkurinn er auðvitað margþættur og hefur ansi margar vistarverur og því er kannski örðugt að alhæfa mikið út frá einstaka málum. Kannski eru svona vangaveltur því bara einhvers konar samkvæmisleikur. Sem er svo sem heldur ekkert verra.

Þetta er svona.


Húmorsleysi?

Einhverjir, til að mynda þessi og þessi, eru ósáttir við satírugrein bandarísks prófessors í stjórnmálafræði sem í öfugmælavísu leggur til að Bandaríkjaher bombi frekar Ísland en Íran. Sjálfum finnst mér greinin bráðfindin auk þess sem hún opinberar vel það öngstræti sem utanríkisstefna Bush í Mið-Austurlödum er komin í.
mbl.is Nær að sprengja Ísland en Íran
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stund milli stríða

Kominn heim úr sveitinni. Páskarnir eru dásamlegur tími. Bara frí, ekkert vesen, ekkert stress. Hámuðum í okkur súkkulaði og hlustuðum á spurningakeppni fjölmiðlanna á Rás 2. Ævar Örn hefur einstaklega skemmtilega nærveru sem spyrill, hvort sem það er í útvarpi eða á Pub quz keppninni á Grand Rokk.

Það er vonandi að pólitíkusarnir hafi notað páskana vel til að slappa af. Nú fer allt á fullt fyrir kosningar 12. maí. Formlegt upphaf kosningabaráttunnar verður kvöld, þegar leiðtogarnir mætast í fyrstu kappræðunum í sjónvarpssal. Héðan af verða engin grið gefin.

Þetta er svona.


Skrýtnar skoðanakannanir

Það er eitthvað furðulegt að gerast í skoðanakönnunum þessa dagana. Landshlutakannanir sem Félagsvísindastofnun hefur gert fyrir Stöð 2 sýnir allt aðra niðurstöðu heldur en aðrar kannanir.

Dæmi: Í Morgunblaðinu í dag er birt könnun Gallup sem mælir Samfylkinguna í 19,5 prósentum á landsvísu. Sem sé á sama róli og í öðrum könnunum. Sama könnun Gallup mælir Samfylkinguna með 18.7 í Norð austur kjördæmi. Landshlutakönnun Félagsvísindastofnunar mælir Samfylkinguna hins vegar mun hærri í Norð austur kjördæmi, 25,2 prósent, sem er heldur meira en kjörfylgið 2003. Svipaður munur var uppi á teningnum þegar Félagsvísindastofnun mældi fylgi flokkanna í Norð vestri fyrir nokkru.

Annað dæmi: Félagsvísindastofnun mælir Framsóknaflokkinn með 12,3 prósent í Norð austri á meðan Gallup mælir flokkinn í 19,6 prósentum.

Munurinn á könnunum er sá að Félagsvísindastofnun mælir sérstaklega í Norð austri, úr 800 manna úrtaki. Í tilfelli Gallup er hins vegar verið að brjóta niður könnun á landsvísu, úr ríflega 1.600 manna úrtaki. Það eru því mun fleiri svarendur bak við könnun Félagsvísindstofnunar í Norð austri heldur en þegar búið er að brjóta könnun Gallup niður. Eigi að síður er þetta athyglisverður munur sem ekki hefur verið skýrður til hlítar.

Þetta er svona


"Grænt í gegn", Vinstri grænt og kommúnistarflokkar í Evrópu

Unnar Ingvarsson, sagnfræðingur, hefur ásamt öðrum verið að vinna greiningu á stöðu vinstri flokka í Evrópu, rekja rætur þeirra og þróun á síðari árum. Ég fékk leyfi til að birta þessa grein, sem hann er að vinna að með öðrum fræðimönnum, hér á síðunni. Í greininni eru Vinstri grænir á Íslandi settir í samhengi við vinstri flokka í Evrópu: Sjá hér.


Páskaleiðindin

Þegar ég var að alast upp á síðari hluta síðustu aldar var föstudagurinn langi leiðinlegasti dagur sem hugsast gat. Það mátti ekkert gera, annað en að sitja í sparifötunum og hugleiða guð. Allt var lokað og allir heilagir í framan. Maður gat í besta falli farið í fótbolta á spariskónum. Sem betur fer hefur okkur tekist að brjótast út úr þessum hrollkalda háheilagleika.

Nú les ég að úrslit einhverrar uppistandskeppni, Fyndnasti maður Íslands, eigi nú að fara fram á föstudaginn langa. Uppistandið gengur, að mér skilst, aðalega út á að keppast um hver sé duglegastur að klæmast. Kannski er það orðið einum of.


mbl.is „Fáránlegt“ að úrslitakvöld Fyndnasta manns Íslands sé á föstudeginum langa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pelosi ögrar Bush

Það er augljóst að leiðtogar demókrata á Bandaríkjaþingi hafa endanlega gefist upp á einhyggjustefnu Bush í utanríkismálum. Þar til Bush komst til valda höfðu Bandaríkin til skamms tíma lagt áherslu á alþjólðlegt samstarf í utanríkismálum. Bush innleiddi hins vegar nýja stefnu sem fólst í einhliða aðgerðum á alþjóðavettvangi. Þessi ferð til Sýrlands bendir til að Bandaríkjaþing vilji nú brjótast út úr einangruninni. Væntanlega eigum við eftir að sjá valdabaráttu þingsins og forsetans magnast á næstu mánuðum.


mbl.is Bush gagnrýnir ferð Pelosi til Sýrlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband