Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Alþjóðasamfélagið í Arnarfirði

Rútan klifraði upp heiðina og brátt blasti Arnarfjörðurinn við í allri sinni dýrð. Bílstjórinn hikaði hvergi og steypti bílnum beinustu leið fram af fjallinu og rendi honum famannlega niður eftir hlykkjóttum veginum. Ég fékk fiðring í magann. Fegurðin var mögnuð og vegaspennan hafði líka sitt að segja. Þrátt fyrir þverhnípi eru engin vegrið á örmjóum fjallveginum, bara möl og svo ekkert. Erlendu gestirnir reyndu að láta á engu bera. Þetta var vissulega spennandi en þeim stóð heldur ekki á sama.

Þjóð og hnattvæðing á Hrafnseyri
Við vorum á leið á alþjóðlega ráðstefnu um þjóð og hnattvæðngu. Ráðstefnan var haldin á Hrafnseyri við Arnarfjörð í tilefni af þjóðhátíðardegi Íslendinga. Með í för voru nokkrir af fremstu fræðimönnum vesturlanda á sviði alþjóðastjórnmála. Það þótti vel við hæfi að fjalla um þjóð og hnattvæðingu svona langt í burtu frá skarkala veraldarinnar. Á Hrafnseyri eru þrjú hús, staðurinn er afskekktur og erfitt að komast þangað. Hrafnseyri við Arnarfjörð er eiginlega handan hins byggilega heims eins og einn skipuleggjanda ráðstefnunnar orðaði það. Maður finnur ekki mikið fyrir hnattvæðingunni á svoleiðis stað. Samt var lítið mál að fá þessa eftirsóttu fræðimenn til að mæta. Það er alltaf verið að bjóða þessu fólki á ráðstefnur, í London, New York og í Tokyo. Eða bara í Kaupmannahöfn. En fólk fær sjaldan boð til Vestfjarða.

Þegar þessi pistill birtist lesendum er ég staddur í Berlín á ráðstefnu. Berlín er í alfaraleið og þangað er auðvelt komast úr öllum áttum. Menn eru alltaf að fara til Berlínar. En það er samt ekkert auðvelda að fá áhugaverða fyrirlesara til Berlínar en til Vestfjarða. Það er nefnilega miklu meira spennadi að fara á ráðstefnu á Hrafnseyri heldur en í Berlín. Svona virkar hnattvæðingin líka.

Þekkingarsköpun til Vestfjarða
Í vikunni hefur verið mikil umræða um yfirvofandi niðurskurð aflaheimilda. Menn óttast áhrifin á sjávarbyggðirnar á Vestfjörðum. Kallað er á stjórnvöld að standa fyrir mótvægisaðgerðum, færa opinber störf út á land, koma með byggðakvóta eða eitthvað álíka. Ég veit það svo sem ekki, en það læðist óneitanlega að manni sá grunur að það sé kannski einmitt þessi ofuráhersla á sjávarútveginn og opinbera stjórnun sem haldi þessum byggðum í heljargreipum. Getur verið að fiskurinn sé orðinn dragbítur á framþróun þessara byggða?

Ráðstefnan sem Háskólasetur Vestfjarða og Safn Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri héldu um Þjóð og hnattvæðingu sannfærði mig í það minnsta um að það er einmitt slík starfsemi sem þarf að fá að blómstra. Það er ekkert erfiðara að stunda þekkingarstörf á Vestfjörðum heldur en í Berlín. Þetta er hin raunverulega auðlind Vestfjarða. Vandinn er hins vegar sá að ofuráherslan á sjávarútveg hefur orðið til þess að nauðsynlegir innviðir fyrir þekkingastarfsemi hafa ekki verið lagðir á Vestjörðum. Þetta þarf að laga. Vissulega skiptir sjávarútvegurinn enn máli en vægi hans fer sífellt minnkandi.

Alveg eins og þegar sjávarútvegur tók við af landbúnaði sem grunnstoð efnahagslífs á Ísland um miðja síðustu öld er nú svo komið að hlutur þekkinarfyrirtækja eins og fjármálastofnanna er orðinn meiri í landsframleiðslunni heldur en sjávarútvegs. Það blasir við að hvorki landbúnaður, sjávarútvegur né önnur frumframleiðsla getur dugað sem grundvöllur efnahagslífs á nýrri öld. Nú er kominn tími til að framleiða þekkingu. Líka á Vestfjörðum.

Þessi grein birtist í Blaðinu í dag.


Sumarið er tíminn

Sumarið er sannarlega ekki tími bloggsins. Á morgun fer ég til Berlínar og verð í nokkra daga. Veit ekki hvort nokkuð verði bloggað á meðan, sjáum til.  Mér er boðið á ráðstefnu um drögin að nýja sáttmála Evrópusambandsins sem leiðtogar ESB samþykktu um daginn. Þýskaland lætur af formennsku í ESB núna um mánaðarmótin og þess vegna er ráðstefnan haldin í Berlín. Það er hásumar og því þolir maður nú ekki lengi við á svona ráðstefnum. Ég ætla því einnig að fá að njóta sumarsins í Berlin og skoða mig kannski aðeins um í menningarlífunu, en nú um stundir er óvíða að finna blómlegra menningarlíf en einmitt í Berlín.

Úti í garði

Lesendur þessarar síðu hafa væntanlega tekið eftir að tíðni færslna hefur minnkað verulega eftir því sem sólin hefur hækkað á lofti. Nú sit ég úti í garði með tölvuna á hnjánum og dettur ekki í hug að skipta mér af þjóðmálaþrasinu. Langar þó að benda á tvennt. Í fyrsta lagi stórgott viðtal við Össur Skarphéðinsson í Morgunblaðinu en af því fá lesendur að sjá hvers vegna þessi pólitíski vígamaður hefur vaxið svo mjög eftir átökin um formannsembættið í Samfylkingunni. Dr. Össur er á háu flugi og á greinilega mikið inni enn. Hitt sem ég vildi benda á er nýr vefur þeirra Andrésar Jónssonar og Péturs Gunnarssonar, eyjan.is. Eyjan er frábær viðbót við fjölmiðlaflóru landsins. Ég vona að þetta eigi eftir að ganga hjá þeim félögum.

Eftirlaunaósóminn

Blaðið er með mikla úttekt í dag um eftirlaunaósóma stjórnmálamannanna. 37 ráðherrrar hafa rétt á eftirlaunum, líka þeir sem eru í fullu starfsfjöri. Og þetta er afturvirkt, fyrrverandi ráðherrar geta rukkað ríkissjóð afturvirkt þegar þeir láta af öðrum störfum og geta þá átt uppsafnaðar milljónir og milljónatugi. Stjórnmálamennirnir settu sjálfir þessi lög. Þetta er líklega eitt svakalegasta dæmið um siðleysi í íslenskum stjónmálum í seinni tíð. Ég tek ekkert mark á þessari ríkisstjórn fyrr en eftirlauaósóminn hefur verið afturkallaður.

Alþjóðlegur dagur flóttamanna

Í dag er alþjóðlegur dagur flóttamanna. Í dag íhugum við stöðu allra þeirra sem eru neyddir til að dvelja fjarri heimkynnum sínum. Oft við hörmulegar aðstæður. Í gær var baráttudagur kvenna á Íslandi. Fjölmiðlarnir voru réttilega fullir af fréttum um stöðu kvenna og margir töluðu um nauðsyn þess að bæta hlutfall kvenna í stjórnum einkafyrirtækja. Ég hef hins vegar ekki séð eina einustu frétt í íslenskum miðlum um skelfilega stöðu flóttamanna á þessum alþjóðlega baráttudegi flóttamanna. Því miður býður mér í grun að dagurinn muni líða án þess að nokkur fjölmiðlungur sjái nokkra ástæðu til að segja frá degi flóttamanna eða stöðu þeirra yfirleitt. Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér.

Þjóð og hnattvæðing á Hrafnseyri

Um helgina, 16. og 17. júní, tók ég þátt í stórfróðlegu málþingi um þjóð og hnattvæðingu sem haldið var við safn Jóns Sigurssonar á Hrafnseyri. Meðal fyrirlesara voru margir fremstu fræðimenn á sviði alþjóðastjórnmála og þjóðernishugmynda, þau Lene Hansen  og Ole Wæver við Kaupmannahafnarháskóla og fræðastjarnan Liah Greenfeld við Boston háskóla. Það kom í minn hlut að takast á við eftirfarandi spurningu: Why does Iceland accept real transfer of decision making to Brussels through the EEA but not full membership in the EU?


Háskólarnir í prófi

Háskólarnir eru nýkomnir úr prófum. Nemendur luku sínum prófum fyrir nokkru en nú var semsé komið að háskólunum sjálfum. Einkunnirnar voru að koma í hús. Ríkisendurskoðun birti í vikunni skýrslu um kostnað, skilvirkni og gæði háskólakennslu. Alveg eins og nemendur sem bíða í nagandi óvissu eftir vitnisburði um frammistöðu sína höfum við sem störfum í umræddum háskólum beðið spennt eftir einkunn Ríkisendurskoðunar. Að vísu voru aðeins þrjár námsdeildir metnar að þessu sinni, viðskiptafræði, lögfræði og tölvunarfræði. Sjálfur starfa ég í félagsvísindadeild við Háskólann á Bifröst svo þessi úttekt nær nú ekki til mín. Samt var ég orðinn ansi spenntur.

Sem kennari er ég vanur því að nemendur kvarti yfir einkunnum, reyni að toga þær upp með allskonar afsökunum og tuði, jafvel hótunum í einstaka tilvikum. Það hefur aldrei gengið. Á sama hátt hafa stjórnendur háskólanna reynt að hífa upp einkunn sína í samtölum við fjölmiðla undanfarna daga. Það er svo sem eðlilegt. En alveg sama hvað menn spinna í fjölmiðlum þá er erfitt að breiða yfir þá einkunn Ríkisendurskoðunnar að háskólarnir á Íslandi standa sambærilegum erlendum háskólum nokkuð að baki. Fjárframlög til þeirra eru einfaldlega of lítil. Þetta þurfum við að laga.

Akademískt ágæti
Fjölmiðlar slógu því upp að Háskóli Íslands hafi fengið hæstu einkunn í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það er vissulega rétt að ákveðnu leyti, en ekki öllu. Margir af reyndustu og virtustu fræðimönnum landsins starfa við þennan elsta og stærsta háskóla landsins. Háskóli Íslansds er sannarlega flaggskip háskólaflórunnar á Íslandi og hefur í gegnum tíðina staðið sína plikt vel, - komið þessari þjóð til mennta. Ríkisendurkoðun gaf skólanum hins vegar falleinkunn á ýmsum öðrum sviðum en því sem snýr að akademísku ágæti. Til að mynda eru þar allt of margir nemendur á hvern kennara, aðstaða er léleg og allt of margir hrökklast úr námi. Laun eru líka svo lág að margir kennarar neyðast til að verja hluta af starfsorku sinni fyrir utan skólann til að eiga fyrir salti í grautinn.

Ánægja í einkaskólunum
Þrátt fyrir að einkareknu skólarnir, Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Bifröst, fái lægri einkunn en HÍ þegar kemur að akademískri stöðu þá eru nemendur við þessa skóla ánægðari með námið sitt og telja þjónustu kennara og annars starfsfólks betri. Fyrir okkur á Bifröst er margt jákvætt í skýrslu Ríkisendurskoðunnar en þar eru einnig ábendingar um margt sem þarf að laga. Til að mynda er hlutfall kennara með doktorspróf ekki nógu hátt en á móti kemur að rannsóknarafköst kennara á Bifröst er með hæsta móti, enda eru þar starfrækt ýmis fræðasetur. Háskólinn á Bifröst er dýrastur og starsmannakostnaður á hvern fullskráðan nemanda hæstur. Það kemur til af þeirri stefnu skólans að kenna í litlum hópum. Á Bifröst eru fæstir nemendur á hvert akademískt stöðugildi. Hver kennari hefur því meiri tíma fyrir hvern nemenda í Bifröst heldur en í öðrum háskólum á Íslandi.

Fræðin eru víða
Lengi vel var fræðastarf á Íslandi svo til allt unnið innan veggja HÍ. Undanfarin ár hefur fræðasamfélagið hins vegar sprengt utan af sér veggina og fræðimenn farnir að starfa út um allar trissur. Vöxtur einkaskólanna hefur verið með hreinum ólíkindum og fræðasamfélög verið mynduð víða. Til að mynda starfa tugir fræðimanna innan vébanda Reykjavíkurakadeíunnar. Í lokin má til gamans nefna að Háskólasetur Vestfjarða stendur nú um helgina, ásamt fleirum, fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um þjóð og hnattvæðingu á Hrafnseyri við Arnarfjörð. Fræðin eru nú komin víðar og fjölbreytnin blessunarlega miklu meiri en áður.

Þessi grein birtist í blaðinu í dag.


Veður

Ég tók eftir því að einn nágranni minn bölvaði veðrinu í sand og ösku þegar við vorum samtíða til vinnu í morgun. Hann var verulega ósáttur við náttúröflin og steytti hnefann til himins áður en hann tók um frakkann og flúði gegnblautur inn í bíl. Sjálfur hef ég fínan húmor fyrir rigningunni, rokinu og kuldanum. Læt það ekkert á mig fá, setti bara upp sólgleraugun og spígsporaði glaður út í daginn.

Ástæðulaust að atast í Agli

Ekki skil ég hvað stjórnendum 365 miðla gengur til með þessum málarekstri gegn Agli Helgasyni. Ef menn vilja frekar vinna annarsstaðar þá er voðalega vitlaust að þvinga þá til að vera áfram, þar sem þeir vilja ekki lengur vera. Það er vont fyrir alla. Jafnvont fyrir fyrirtækið og starsmanninn.

Þess fyrir utan þá sé ég ekki að Stöð 2 eigi mikið í Silfri Egils. Þátturinn hóf göngu sína á Skjá einum, á meðan sú stöð sýndi lítið annað en gamla Dallasþætti. Undanfarin ár hefur þátturinn svo verið vistaður hjá Stöð 2. Allir vita hins vegar að það er Egill sjálfur sem á þennan þátt, með húð og hári. Hann verður að fá að ráða því sjálfur hvar best er fyrir hann að hafa þáttinn. Vistarbönd virka illa í nútíma samfélagi, líka í sjónvarpi.


mbl.is Deila um hvort Egill hafi verið búinn að semja við 365
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grásleppukarlar fyrr og nú

Eftir því sem sólin hækkar á lofti minnkar áhugi minn á stjórnmálum. Ég er viss um að það eigi við fleiri. Ég ætla því ekki þreyta lesendur með enn einu rausinu um stjórnmálaástandið, nóg var víst um slíkt í aðdraganda kosninga. Ætli það séu ekki ansi margir farnir að þrá stjórnmálafrítt sumar, nokkra góða daga án pólitíkusa. Að vísu hjó ég eftir því að ríkisstjórnin ætlar víst að fresta frjálsri för launafólks frá Rúmeníu og Búlgaríu fram til 2009. Það er auðvitað eins vitlaust og nokkur hlutur. Fjöldi erlends starfsfólks á Íslandi ræðst nefnilega af eftirspurn í atvinnulífinu, ekki af boðum og bönnum. En látum það samt vera.

Sumarið er semsé um það bil að koma, þrátt fyrir einstaka haglélsskot í aðdragandanum. En fyrst maður kýs á annað borð að búa á Íslandi verður nú maður bara að sætta sig við svoleiðis. Kuldakastið um daginn hafði því engin áhrif á sumarið sem hefur verið að vaxa innan í mér undanfarnar vikur. Meðal fastra vorverka er að koma hjólaflota fjölskyldunnar í lag, það þarf að pumpa, stilla, smyrja og strjúka ryk vetrarins af með rökum klút. Ég er nú ekki handlaginn maður, eiginlga óttalegur aulabárður í höndunum, en samt tókst okkur að koma hjólunum í stand. Um daginn lögðum við svo af stað eftir Ægisíðunni í fyrsta hjólatúr sumarsins. Fólkið var komið út úr húsunum, sumir á línuskautum aðrir á skokki, virðulegir eldri borgarar á gangi. Við á hjóli. Á svona dögum er vesturbærinn eiginlega eins og lítið þorp við sjávarsíðuna, nokkurn vegin eins og þegar hverfið var að byggjast fyrir um hálfri öld. Að vísu eru grásleppukarlarnir farnir en kofarnir sem enn standa við göngustíginn minna á þá tíð þegar róið var út frá Ægisíðunni. Nú eru hins vegar komnir nýir grásleppukarlar. Þessir nýju eiga ekki annað sameiginlegt með gömlu grásleppukörlunum en að jakkafötin þeirra eru svolítið eins og grásleppa á litin.

Við búum þannig að á leiðinni í bæinn förum við jafnan eftir endilangri Ægisíðunni. Vorverkin voru greinilega hafin hjá nýju grásleppukörlunum. Þetta gerist alltaf eins. Fyrst birtast stórir hálfopnir gámar fyrir framan húsið. Síðan koma stórvirkar vinnuvélar sem tæta upp garðinn og fjarlægja allan gróður áður en skipt er um jarðveg. Svo er húsið brotið og bramlað að innan, skipt um gólf, glugga og leiðslur rifnar úr veggjum. Að því loknu eru gömlu rósetturnar teknar úr loftinu og allskonar skynjarar settir í staðin. Að lokum er gengið í að fræsa burt öllu sem minnir á upprunalegt útlit hússins. Þegar aðeins skélin af húsinu stendur eftir er það endurbyggt frá grunni í nýríkum útrásarstíl. Og nýtískulegur landslagsarkitekt látinn útbúa glænýjan garð með útigrilli á stærð við meðal skólaeldhús. Um það bil þegar verið er að planta síðustu sumarblómunum renna nýju eigendurnir í hlað, faðirinn á svörtum Range Rover, konan á gráum Benz. Alltaf svona, alltaf eins. Við létum þessar framkvæmdir ekkert á okkur fá þegar við hjóluðum framhjá um daginn. Þetta er víst nútíminn. Hann er bara svona. Ég er ekki viss, en hugsanlega eru tvö til þrjú hús eftir við Ægisíðuna sem enn bíða örlaga sinna. Það eru því enn tækifæri fyrir metnaðarfulla bísnessmenn sem vilja vera eins og hinir, eins og þeir allir.

Ég les í Guardian, í grein eftir þá glöggskyggnu konu Kathryn Hughes, að það er víst mikill skortur á góðum butlerum í Bretlandi. Ég velti fyrir mér hvort lagt sé í að sú stétt manna fari að sjást á Ægissíðunni? Það væru sko almennilegir grásleppukarlar.

Þessi grein birtist í Blaðinu í dag.


Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband