Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Hliðarspor

Fékk tvær nýjar bækur hjá Skruddumönnum um daginn, Hliðarspor eftir Ágúst Borgþór Sverrisson og Velkomin til Bagdat eftir Davíð Loga Sigurðsson. Las Hliðarspor í striklotu og hafði bara nokkuð gaman af þessari stuttu Reykjavíkursögu. Þetta er lágstemmd frásögn af miðaldra karlmönnum í krísu. Umfjöllunarefnið er vændi og annað framhjáhald. Að vissu leyti er þetta banal efni í nútímanum og Ágúst dansar á línunni. Einhverjir gætu haft þá skoðun að bókin falli handan viðurkennds velsæmis en mér fannst hún á endanum ganga ágætlega upp. Segi frá bók Davíðs Loga síðar.


Fyrst á topp 500

Það er göfugt að setja sér háleit markmið. Háskóli Ísland hefur sett sér það markmið að verða einn af hundrað bestu háskólum heims. Mörgum hefur þótt þetta markmið rektors HÍ heldur óraunhæft miðað við núrverandi stöðu, enda hafði HÍ, né aðrir íslenskir háskólar, ekki mælst á Shanghai listanum yfir 500 bestu háskóla heims, en Shanghai listinn er sá sem menn miða almennt við þegar staða háskóla er borin saman. Nú segir rektor HÍ að vel hafi miðað á síðustu árum og að HÍ hafi á liðnum tveimur árum færst nær marki sínu, að skólinn verði kominn í hóp 100 bestu fyrr en áformað var. Samt er HÍ ekki enn komið á topp 500. Til að komast á topp 100 þarf fyrst að komast á topp 500.

Góð tímasetning

Fogh telur sig greinilega í sterkri stöðu. Ég er nú ekki alveg viss um það en er allavega ánægður með tímasetninguna, verð einmitt í Kaupmannahöfn þegar kosningarnar fara fram. Það verður í það minnsta um nóg að tala á kaffistofunni í stjórnmálafræðideildinni í Kaupmannahafnarháskóla, þar sem ég verð við rannsóknir og kennslu allan nóvember. Eitthvað við að vera.
mbl.is Danir að kjörborðinu 13. nóvember
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fuss og svei

Vandi dálkahöfunda sem skrifa fasta pistla í blöð er ekki síst sá að finna viðeigandi umfjöllunarefni hverju sinni. Þetta er í sjálfu sér ekki flókin iðja, maður þarf bara að fylgjast sæmilega með þjóðfélagsumræðunni og velja svo eitthvað áhugavert efni úr til að fjalla um. Flestir pistlahöfundar lenda þó einhverntíman í því að verða uppskroppa með efni, þegar lítið er um að vera í þjóðfélaginu. Núna er ástandið hins vegar þveröfugt. Frá því að síðasti pistill minn birtist lesendum á þessum stað fyrir tveimur vikum hefur allt farið á annan endann í þjóðfélaginu. Meira að segja sjálft Blaðið er horfið og 24 stundir komnar í staðin. Stundum er sagt að vika sé langur tími í pólitík, hvað þá tvær vikur. Hálf eilífð? Vandinn nú er miklu heldur að vinsa úr öllu því sem hægt væri að fjalla um á þessum vettvangi akkúrat núna.

Fyrir tveimur vikum andskotaðist ég á þessum stað út í þáverandi meirihluta í Reykjavíkurborg fyrir dugleysi í dagvistunar- og samgöngumálum. Tveimur vikum síðar er meirihlutinn gufaður upp og Dagur B. Eggertsson orðinn borgarstjóri. Atburðarásin hefur verið með slíkum ólíkindum að leita þarf alla leið til Ítalíu og þar aftur á áttunda áratuginn til að finna hliðstæðu að öðru eins ráðleysi. Með einhverju ævintýralegasta klúðri sem þekkst hefur í íslenskri stjórnmálasögu - fyrr og síðar - glopraði Sjálfstæðisflokkurinn borginni í hendur endurnýjaðs Reykjavíkurlista. Einhvern vegin svona:

Fyrst gómaði Svandís Svavarsdóttir fulltrúa meirihlutaflokkanna í stjórn REI og Orkuveitunni með lúkuna á kafi ofan í sælgætiskrúsinni. Þvínæst tók borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins til við að grafa undan eigin leiðtoga, sjálfum borgarstjóranum. Gröftur sexmenninganna leiddi í ljós að Vilhjálmur stóð nú ekki á föstu undirlagi, virtist gjörsamlega úti á þekju í öllu málinu. Að því loknu stilltu sexmenningarnir samstarfsmanni sínum, Birni Inga Hrafnssyni, frammi fyrir svo ómögulegum afarkostum að ætla mætti að Sjálfstæðisflokkurinn samanstæði af eintómum viðvaningum. Þannig færði Gísli Marteinn Baldursson erkifjanda sínum, Degi Eggertssyni, sjálfan borgarstjórastólinn á vel fægðu silfurfati.

En silfurföt duga skammt í pólitík. Dagur og félagar sitja ekki aðeins uppi með sprungið vegakerfi og manneklurembihnút í leikskólunum heldur sitja þau einnig uppi með Björn Inga og vinnubrögð hans í REI málinu. Meginásökun Svandísar Svavarsdóttur og gamla minnihlutans í REI málinu var í upphafi sú að þar væru stjórnmálamenn að drullumalla með vafasama kaupréttasamninga sem að sögn áttu að færa fjárhagsleg gæði í hendur trúnaðarmanna þeirra. Svoleiðis hegðun er sjálftaka á opinberu fé og heitir á íslensku spilling, - eiginlega bullandi spilling. Í því dæmi þótti Svandísi þáttur Björns Inga svakalegastur, enda var það hann og félagar hans í stórn REI sem voru að makka með þennan subbulega kaupréttarlista. Vilhjálmur var ekki í stjórn REI. Þau ásökuðu Björn Inga um margt fleira, til að mynda fyrir að hafa þrefaldað borgarfulltrúalaunin sín með því að smyrja sjálfan sig inn í þær nefndir og ráð sem best borga í borginni. Sögðu fuss og svei þegar hann ætlaði til viðbótar að þrefalda eigin stjórnarlaun í REI. Ég veit auðvitað ekki hvort þessar ásakanir eru réttar en fyrir rétt tæpum tveimur vikum var Svandís Svarsdóttir ekki í minnsta vafa um það.

En skjótt skipast veður í lofti í íslenskum stjórnmálum. Nú situr Björn Ingi Hrafnsson í glænýjum meirihluta í hlýju skjóli Svandísar og Dags og Sjálfstæðisflokkurinn gagnrýnir allt sem hann sjálfur gerði fyrir aðeins tveimur örstuttum vikum. 

24. stundir. 19. október 2007.


Gestur í gini ljónsins

Í færslu hér að neðan sagði ég frá nýrri rannsókn sem sýnir að í Evrópu er einna verst fyrir innflytjendur að búa í Danmörku. Sjálfur var ég innflytjandi í Danmörku um nokkurra ára skeið fyrir um áratug. Það var í alla staði ánægjuleg dvöl. Átök innflytjenda og innfæddra voru ekki komin upp á yfirborðið á þeim tíma.

Nú bregður hins vegar svo við að ég fæ tækifæri til að reyna það sjálfur hvort þessi staða hafi breyst eins svakalega og rannsóknin segir til um. Kaupmannahafnarháskóli hefur nefnilega boðið mér stöðu gestafræðimanns við stjórnmálafræðiskor skólans, þar sem ég var einu sinni námsmaður. Ég mun því næsta misserið dvelja með annan fótinn í Kaupmannahöfn við rannsóknir á íslensku þjóðerni og áhrifum þess á stefnu Íslands í utanríkismálum, sérstaklega hvað viðkemur tengslunum við Evrópu. Eitthvað mun ég lika þurfa að kenna.

Það er fleira sem hefur breyst á þeim áratug sem liðinn er síðan ég flutti heim frá Kaupmannahöfn. Í þá tíð voru Íslendingar helst í fréttum fyrir að liggja sem mara á danska velferðarkerfinu en nú eru landar vorir í hópi umsvifamestu viðskiptamanna landsins. Ég á enn ágæta kunningja frá námsárunum í Danmörku sem furða sig á þessari breytingu. Ekki síst þess vegna verður sérstaklega gaman að endurnýja kynnin af lífinu í Kaupmannahöfn.


Ítalir sjónvarpa Íslandi

Lengst af var Ísland utan sjóndeildarhrings alþjóðasamfélagsins. En í seinni tíð hef ég orðið var við að erlendir fjölmiðlar eru farnir að sýna landinu síaukinn áhuga. Líkast til vegna þess að fræðasvið mitt liggur í tengslum Íslands og umheimsins er ég oft fenginn til að tala við erlenda fjölmiðla. Þessum heimsóknum hefur snarfjölgað undanfarin misseri. Í dag kom á skrifstofuna til mín vösk sveit ítalskra sjónavarpsmanna sem eru að gera viðamikla heimildarmynd um Ísland og Íslendinga. Þeir voru ansi imponerarir yfir íslensku þjóðfélagi og heimtuðu að vita leyndarmálið á bak við velgengnina. Ég veit ekki hvort það er vegna þess að mér hafi ekki tekist að útskýra það nægjanlega vel, en Ítalirnir hleyptu mér ekki úr stólnum fyrr en eftir ríflega klukkutíma langa yfirheyrslu.

Einna verst að vera innflytjandi í Danmörku

Í viðamikilli nýrri rannsókn sem British Council hefur framkvæmt kemur í ljós að í Evrópu er einna verst fyrir innflytjendur að búa í Danmörku. Best er hins vegar búið að málum innflytjenda í Svíþjóð. Noregur og Finnland eru einnig á topp tíu. Af 28 Evrópuríkjum er Danmörk í 21. sæti þegar kemur að því að aðlaga innflytjendur að samfélaginu.

Meðal þess sem kemur fram í rannsókninni er að innflytendalöggjöfin í Danmörku er sérlega fjandsamleg og að innflytjendur eiga einkar erfitt með að komast inn á danska vinnumarkaðinn. Þá eru atburðir og árekstrar sem tengjast fordómum í garð innflytjenda tíð í Danmörku. Þetta og fleira kemur í veg fyrir að innflytjendur geti aðlagast dönsku samfélagi. 

Þessi niðurstaða kemur ekki svo mjög á óvart. Eins og ég benti til að mynda á í bók minni Opið land sem kom út fyrr á þessu ári er unnið eftir markvissri samlögunarstefnu í Svíþjóð en dönsk stjórnvöld hafa hins vegar frekar gripið til þess ráðs að þrengja að innflytjendum. Munurinn á stefnum þessara landa kemur nú fram í þessari rannsókn.

Ísland er því miður ekki með í rannsókninni en íslenska innflytjendalöggjöfin er að miklu leyti byggð á þeirri dönsku.

Rannsóknaniðurstöður British Council eru birtar hér. Sjá einnig frétt Politiken um málið hér.


Móðurlaus Brooklyn

Á leðinni til útlanda um daginn kom ég við í bókabúðinni í Leifstöð og greip ég með mér bók Jonathan Lethem, Móðurlaus Brooklyn, en bókin hafði fengið frábæra dóma í íslenskum fjölmiðlum. Ég las bókina í samgöngutækjum þriggja landa og reyndist það ágætis vettvangur fyrir þessa sögu. Bókin segir frá Lionel Essrog og félögum hans sem starfa við vafasama iðju í Brooklyn hverfinu í New York. Í aðra röndina er þetta óskup venjulegur krimmi en Lethem tekst að snúa svo rækilega upp á formið að sagan verður í raun mun stærri og merkilegri. Aðalsöguhetjan þjáist af tourette heilkenninu sem setur ansi sérstakan og kómískan blæ yfir söguna. Í flesta staði er þetta bráðskemmtileg lesning en það er samt eitthvað í flæði sögunnar sem truflaði mig eilítið við lesturinn. Niðurstaðan er því þrjár stjörnur, en stutt í þá fjórðu.

Reykjavíkurlistinn til valda á ný

Þrátt fyrir að þurfa að kyngja vinnubrögðum Björns Inga í REI málinu er ekki annað hægt að segja en að Dagur Eggertsson hafi heldur betur styrkt stöðu sína. Orðinn borgarstjóri nýs Reykjavíkurlista. Það er ekki lítill árangur miðað við allt það sem á undan er gengið. Nýji meirihlutinn gæti svo skorað feit stig hjá borgarbúum með því að leysa daggæsluvandann sem safnast hefur upp í tíð Sjáflstæðisflokksins í borginni. Við fylgjumst spennt með.

Svandís, Dagur og Bingi í eina sæng

Það voru Björn Ingi Hrafnsson og félagar hans í stjórn Reykjavik Energy Invest sem véluðu um þessa kaupréttarsamninga og sömdu hinn alræmda lista. Í öllu fjaðrafokinu sem síðan hefur orðið hefur einmitt sá gjörningur verið harðast gagnrýndur af minnihlutanum. Því hlýtur það að teljast dálitið furðulegt, svo ekki sé meira sagt, að Samfylking og VG ætli nú að mynda nýjan meirihluta með þeim sama Birni Inga og stóð að þessum ólukkusamningum. Meirihlutasamstarf við Framsóknarflokkinn undir þessum kringumstæðum felur í sér ákveðna viðurkenningu á vinnubrögðum flokksins í málinu, - allavega ekki vantraust. Líklega eru fleiri en ég sem undrast að Dagur B. Eggertsson og Svandís Svavarsdóttir séu með þessum hætti tilbúin að bera ábyrgð á Birni Inga og pótintátum hans í borgarstjórn Reykjavíkur.


Næsta síða »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband