Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Opið frjálslynt lýðræði

Það eru að koma kosningar. Því er ekki úr vegi að velta fyrir sér hvert hlutverk hins opinbera á að vera. Fyrst þarf að greina hvað eiga að vera sameiginleg viðfangsefni samfélagins og svo að svara hvernig hið opinbera á að takast á við þessi viðfangsefni. Þegar því hefur verið svarað gerist tvennt; ríkið innheimtir skatt af borgurunum og endurdreifir svo út til samfélagsins eftir sínum fyrirfram skilgreindu stjórnmálalegu áherslum. Tekist er á um hver eigi að fá hvað, hvenær, hvar og með hvaða hætti. Þetta eru viðfangsefni stjórnmálanna í sinni nöktustu mynd.

Frelsi, velferð, velsæld
Þetta er mitt svar: Frelsi, velferð og velsæld eru þau þrjú lykilorð sem opið frjálslynt lýðræðisþjóðfélag getur notað sem leiðarhnoð í átt að betra þjóðskipulagi. Í viðleitni til að vefa þessa þætti saman má skipta hlutverki hins opinbera í tvennt. Á tekjuhliðinni þarf að hafa frelsi og frjálslyndi að leiðarljósi. Borgararnir eiga að ráða því sjálfir hvernig þeir afla sinna tekna og haga sínu lífi að öðru leyti. En þegar kemur að gjaldahliðinni á hið opinbera hins vegar að hafa velferð allra að leiðarljósi, stuðla að því að borgararnir hafi jöfn tækifæri til starfa, heilsu og menntunar og tryggja að enginn þurfi að líða skort. Ríkisvaldið á semsé að virða frelsi manna en tryggja um leið velferð allra. En það á ekki að skipta sér að siðferðislegum álitaefnum, um það getur hið borgaralega samfélag séð. Í raun er þetta kenningakerfi ósköp einfallt; með því er markaðsöflum beitt óhindrað til auðsöfnunar en um leið tryggt að velferð og jöfn tækifæri skili sér til allra. Þetta er kannski kjarni opinnar frjálslyndrar velferðarstefnu sem byggir á lýðræðislegum grunni.

Meira frelsi ...
En ríkisvaldið á ekki aðeins að virða frelsi manna og tryggja velferð heldur á það líka að stuðla að almennri efnahagslegri velsæld og treysta hinn efnahagslega grunn sem þjóðfélagið hvílir á. Hér skiptir mestu að búa til stöðugan ramma utan um atvinnulifið þannig að borgararnir hafi fullt frelsi til auðsöfnunar. En eftir því sem auðsöfnun almennra borgara er auðveldari og umhverfið einfaldara því meiri tekjur fær ríkisvaldið í sínar hendur til endurdreifingar eftir samfélagslegum forgangsatriðum og stjórnmálalegum áherslum. Með skynsamri efnahagsstjórn og með því að afnema höft á athafnafrelsi manna á nú að vera hægt að lækka skatta og aðrar álögur hér á landi. Háir skattar duga nefnilega ekki einir og sér til að tryggja velferðina ef frelsið skortir.

... aukin velferð
Þrátt fyrir mörg mikilvæg skref í frelsisátt, bæði í gegnum EES-samninginn og með viðamikilli einkavæðingu ríkisfyrirtækja, hefur heildarskattheimta hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu eigi að síður aukist undanfarin ár, samkvæmt gögnum OECD, sem Stefán Ólafsson prófessor hefur tekið saman. Og enn eru sum svið samfélagsins rígbundin á klafa óhagkvæmra hafta, til að mynda í landbúnaði. Einnig má nefna jafn ólík svið og höft á fjárfestingum í sjávarútvegi, sérleyfi á sumum flutningaleiðum og jafnvel verslun með áfengi. Að mínu viti er meginverkefnið framundan þó að lækka útgjöld almennings og auka þannig ráðstöfunartekjur fólksins. Það verður aðeins gert með því að koma böndum á verðbólgu, ná niður vöxtum og snarlækka matvælaverð.

Þessi grein birtist í Blaðinu í dag.


Blessuð sértu borgin mín

Má til með að benda á áhugaverðan fund á laugardag. Íbúasamtök í höfuðborginni ætla þá að fjalla um íbúalýðræði. Fundurinn fer fram í Tjarnarsal Ráðhússins kl.13:00. Meðal fyrirlesara er faðir minn, Einar Eiríksson, sem mun fjalla um íbúalýðræði og borgarskipulag. Á eftir honum mun Bryndís Schram fjalla um manninn og maskínuna. Pallborð fylgir á eftir. Fyrst munu borgarfulltrúar sitja fyrir svörum og síðan þingmenn Reykvíkinga ásamt samgöngumálaráðherra.


Geir og ég

Eitt eðli blaðamennsku er að draga fram ólík sjónarmið og stilla fram sem andstæðum. Þetta eðili blaðamennskunnar hefur augljósa kosti en einnig galla. Blaðið hefur bæði í gær og í dag gert einum þræði úr bók minni, Opið land, góð skil. Er ég blaðinu þakklátur fyrir það.

Á einum stað í bókinni velti ég fyrir mér hvort persónuleg óvild milli Davíðs Oddssonar og Jóns Baldvins í ríkisstjórn hafi hert Davíð í andstöðunni við aðild að ESB þegar Jón Baldvin fór að tala fyrir að ESB-aðild í aðdraganda þingkosninganna 1995. Þetta er raunar útúrdúr í bókinni, hún fjallar að mestu leyti um allt aðra hluti. En semsé, árið 1990 talaði Davíð fyrir aðild að Evrópubandalaginu (Sjá viðtal Hannesar Hómsteins við Davíð í bókinni Island - Arvet fran Thingvellir sem kom út hjá Timbro útgáfunni í Svíþjóð 1990) en þegar Jón tók upp þá stefnu að sækja beri um ESB-aðild, eftir að EES-samningurinn hafði gengið í gildi árið 1994, var Davíð semsé kominn á aðra skoðun. Var þá á móti ESB-aðild og ósammála Jóni. Síðar átti Davíð eftir að herðast enn í andstöðunni við ESB. Árið 2002 kallaði hann ESB "eitthvert ólýðræðislegasta skriffinnskubákn, sem menn hafa fundið upp." Ég held því fram að þessi harða andstaða við evrópskt samstarf sé að einhverju leyti í mótsögn við hefð Sjálfstæðisflokkins sem lengi var alþjóðasinnaðastur íslenskra stjórnmálaflokka.

Í Blaðinu í gær var ég spurður hvort greina mætti stefnubreytingu hjá Sjálfstæðisflokknum nú eftir að skipt hefur verið um forystu. Ég svaraði því til að núverandi forysta flokksins talaði allavega með mildilegri hætti heldur en Davíð og hans menn.

Þessi ummæli mín eru borin undir Geir H. Haarde í Blaðinu í dag en lögð fyrir hann með meira afgerandi hætti en ég hefði kosið. Enda er það eðli blaðamennskunnar að skerpa á andstæðunum. Geir vildi nú ekki kannast við stefnubreytingu í málinu en segir svo að hann sjái heldur enga ástæðu til að munnhöggvast við mig um það. Ég er á sama sinnis. Ég sé enga ástæðu til að munnhöggvast við Geir um þetta atriði. Sannleikurinn er nefnilega sá að mér líkar afskaplega vel við Geir og ber fyrir honum djúpstæða virðingu, bæði sem manni og stjórnmálamanni. Við erum ekki alltaf sammála en staðreyndin er eigi að síður sú að fáir menn eru jafn vel  að því komnir að sitja í stóli forsætisráðherra. Ég hef líka lítillega fengið að kynnast Geir persónulega. Þau kynni hafa sannfært mig um að þar fer gegnheill maður og góður leiðtogi fyrir sitt lið.

Þetta er svona.


Ég varð óléttur fyrr í kvöld

Fór að spjalla við fólkið í Íslandi í dag á Stöð 2, fyrir fréttirnar í kvöld. Steingrímur Ólafsson (Denni) tók á móti mér í gerfi þungaðrar konu sem komin er sex mánuði á leið. Var í vesti sem líkir eftir því, ríflega sex kíló framan á honum. Ég kunni ágætlega við hann óléttan en hann var eitthvað kvarta undan að bumban tæki í bakið. Ég fékk að prófa. Ég var semsé vanfær í um það bil eina mínútu fyrr í kvöld. Það dugði mér alveg. Þetta eru óskapleg byrði að bera framan á sér. Hvað þá í heila níu mánuði.

Þetta er svona.


Ekki bara Evrópa

Af fréttaflutningi af nýju bókinni minni, Opið land, að dæma, gætu menn haldið að hún fjallaði einkum um stöðu Íslands í evrópsku samstarfi. Svo er ekki. Bókin fjallar um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna í víðu tilliti. Þeir sem vilja kynna sér efni hennar geta séð sýnishorn hér, efnisyfirlit og upphafskafla. Afstaðan til Evrópu er aðeins eitt þema af mörgum öðrum, svo sem ótta við innflytjendur, hnattvæðingu, stöðu tungunnar og innflutt matvæli.

Hugaður prófessor

Hann er hugaður þessi. Frank Aarebrot, norskur prófessor í stjórnmálafræði, heldur því fram í nýlegri blaðagrein að óhæfar konur krefjist að komast í stjórnunarstöður í stórfyrirtækjum en nenni ekki að vinna skítverkin. Og nenni ekki heldur að vinna fyrir stöðunum. Heimti bara helming af öllum toppstöðum í krafti kynferðisins eins. Hann segir þetta skaðlegt fyrir fyrirtækin. Sjálf greinin er hér. Kvennahreyfingin í Noregi er að vonum ósátt við prófessorinn eins og sjá má hér.

Leiðinlegt sjónvarp

Af hverju er aldrei neitt í sjónvarpinu á mánudagskvöldum? Mánudagskvöld ættu að vera bestu sjónvarpskvöld vikunnar. Ekkert um að vera í skemmtana- og menningarlífinu og allir heima. Er að reyna að horfa á þáttinn Heros á Skjá einum. Þetta eru bara ekki nógu áhugaverðir þættir til að ég nái að festa hugann við hann. Kveikti þess í stað á tölvunni og röfla í ykkur.

Þetta er svona.


Útgáfudagurinn

Einhverjir hafa verið að biðja um upplýsingar um bókina mína Opið land, sem formlega kemur út í dag. Skrudda hefur sett upp upplýsingasíðu um bókina hér.

Var annars að fatta það að ég hef sent frá mér bók annað hvert ár það sem af lifir öldinni. Haustið 2001 kom út bókin Ísland í Evrópu, sem var einskonar greining á mögulegum samningsmarkmiðum Íslands í aðildarviðræðum við ESB. Ég ritstýrði bókinn en tólf aðrir höfundar áttu efni í henni ásamt mér. Fyrsta bókin sem ég skrifaði sjálfur kom út hjá Háskólaútgáfunni haustið 2003. Það var bókin Evrópusamruninn og Ísland, leiðavísir um samrunaþróun Evrópu og stöðu Íslands í evrópsku samstarfi. Haustið 2005 kom svo út eftir mig skáldsagan Glapræði hjá Skruddu forlagi. (Ég bloggaði um þá bók um daginn í þessari færslu hér.) Í dag kemur svo út bókin Opið land - staða Íslands í samfélagið þjóðanna, einnig hjá Skruddu.

Þetta er svona.


Sitji guðs englar

Fórum öll fjölskyldan á leikritið Sitji guðs englar í Þjóðleikhúsinu núna seinni partinn í dag. Leikritið er einskonar yfirlit úr verkum Guðrúnar Helgadóttur og bregður upp áhugaverðri mynd af lífinu á Íslandi á stríðsárunum. Sýningin höfðaði jafnt til yngstu og elstu meðlima fjölskyldunnar. En verkið sýnir þó fyrst og fremst að Guðrún Helgadóttir er snillingur, og ómetanleg menningarverðmæti fyrir þjóðina.

Afmæli Evrópu

Ein nördaleg athugasemd. Í dag er hálf öld síðan Rómarsáttmáli Evrópusambandsins var undirritaður. Mikil hátíðahöld eru af þessu tilefni. Raunar er réttara að tala um Rómarsáttmálann í fleirtölu því sáttmálarnir eru tveir. Annars vegar sáttmálinn um Efnahagsbandalag Evrópu og hins vegar veigaminni sáttmáli um stofnun Kjarnorkubandalags Evrópu. Í sumum fjölmiðlum hefur verið sagt að Rómarsáttmálarnir marki upphaf þess Evrópusambands sem við þekkjum í dag. Það er ekki alveg rétt. Árið 1952 tók Parísarsáttmálinn um Kola- og stálbandalag Evrópu gildi. Sömu sex ríki á meginlandi Evrópu sem undirrituðu Rómarsáttmálann fyrir hálfri öld stóðu að honum. Evrópusambandið er því ekki 50 ára, heldur 55 ára.

Þetta er svona.


Næsta síða »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband