Leita í fréttum mbl.is

Opið frjálslynt lýðræði

Það eru að koma kosningar. Því er ekki úr vegi að velta fyrir sér hvert hlutverk hins opinbera á að vera. Fyrst þarf að greina hvað eiga að vera sameiginleg viðfangsefni samfélagins og svo að svara hvernig hið opinbera á að takast á við þessi viðfangsefni. Þegar því hefur verið svarað gerist tvennt; ríkið innheimtir skatt af borgurunum og endurdreifir svo út til samfélagsins eftir sínum fyrirfram skilgreindu stjórnmálalegu áherslum. Tekist er á um hver eigi að fá hvað, hvenær, hvar og með hvaða hætti. Þetta eru viðfangsefni stjórnmálanna í sinni nöktustu mynd.

Frelsi, velferð, velsæld
Þetta er mitt svar: Frelsi, velferð og velsæld eru þau þrjú lykilorð sem opið frjálslynt lýðræðisþjóðfélag getur notað sem leiðarhnoð í átt að betra þjóðskipulagi. Í viðleitni til að vefa þessa þætti saman má skipta hlutverki hins opinbera í tvennt. Á tekjuhliðinni þarf að hafa frelsi og frjálslyndi að leiðarljósi. Borgararnir eiga að ráða því sjálfir hvernig þeir afla sinna tekna og haga sínu lífi að öðru leyti. En þegar kemur að gjaldahliðinni á hið opinbera hins vegar að hafa velferð allra að leiðarljósi, stuðla að því að borgararnir hafi jöfn tækifæri til starfa, heilsu og menntunar og tryggja að enginn þurfi að líða skort. Ríkisvaldið á semsé að virða frelsi manna en tryggja um leið velferð allra. En það á ekki að skipta sér að siðferðislegum álitaefnum, um það getur hið borgaralega samfélag séð. Í raun er þetta kenningakerfi ósköp einfallt; með því er markaðsöflum beitt óhindrað til auðsöfnunar en um leið tryggt að velferð og jöfn tækifæri skili sér til allra. Þetta er kannski kjarni opinnar frjálslyndrar velferðarstefnu sem byggir á lýðræðislegum grunni.

Meira frelsi ...
En ríkisvaldið á ekki aðeins að virða frelsi manna og tryggja velferð heldur á það líka að stuðla að almennri efnahagslegri velsæld og treysta hinn efnahagslega grunn sem þjóðfélagið hvílir á. Hér skiptir mestu að búa til stöðugan ramma utan um atvinnulifið þannig að borgararnir hafi fullt frelsi til auðsöfnunar. En eftir því sem auðsöfnun almennra borgara er auðveldari og umhverfið einfaldara því meiri tekjur fær ríkisvaldið í sínar hendur til endurdreifingar eftir samfélagslegum forgangsatriðum og stjórnmálalegum áherslum. Með skynsamri efnahagsstjórn og með því að afnema höft á athafnafrelsi manna á nú að vera hægt að lækka skatta og aðrar álögur hér á landi. Háir skattar duga nefnilega ekki einir og sér til að tryggja velferðina ef frelsið skortir.

... aukin velferð
Þrátt fyrir mörg mikilvæg skref í frelsisátt, bæði í gegnum EES-samninginn og með viðamikilli einkavæðingu ríkisfyrirtækja, hefur heildarskattheimta hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu eigi að síður aukist undanfarin ár, samkvæmt gögnum OECD, sem Stefán Ólafsson prófessor hefur tekið saman. Og enn eru sum svið samfélagsins rígbundin á klafa óhagkvæmra hafta, til að mynda í landbúnaði. Einnig má nefna jafn ólík svið og höft á fjárfestingum í sjávarútvegi, sérleyfi á sumum flutningaleiðum og jafnvel verslun með áfengi. Að mínu viti er meginverkefnið framundan þó að lækka útgjöld almennings og auka þannig ráðstöfunartekjur fólksins. Það verður aðeins gert með því að koma böndum á verðbólgu, ná niður vöxtum og snarlækka matvælaverð.

Þessi grein birtist í Blaðinu í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband