Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Gripurinn

Jæja, þá er gripurinn kominn út. Mér skilst að forlagið (Skrudda) sé að dreifa bókinni í búðir núna um helgina. Hér til hliðar má sjá mynd af bókarkápunni. Opið land

Stefán Einarsson hannaði kápuna.

Kynningin á bókinni er einhvern vegin svona:

Í bókinni eru tengsl Íslands við umheiminn skoðuð út frá víðu sjónarhorni.  Fjallað er um  meginþræði í utanríkisstefnu Íslands, meðal annars um tengslin yfir Atlantshafið
og stöðu Íslands í Evrópusamrunanum.
Einnig er rætt um afstöðuna til hnattvæðingar, innflytjenda, búfjötra og stöðu tungunnar svo nokkur svið samfélagsins séu nefnd.

Í bókinni er spurt um afstöðu Íslendinga til erlends samstarfs:
Hvar á Ísland heima?
Hver er staða landsins í samfélagi þjóðanna?
Hvers vegna hafa Íslendingar verið tregir í taumi í evrópskri samvinnu?
Hafa tengslin við Bandaríkin rofnað eftir að herinn fór?
Af hverju óttumst við hnattvæðingu, innflytjendur, erlendar tungur og innflutt matvæli?


Yfirlýsingaflóðið

Ég veit ekki alveg hvað mér á að finnast um allt þetta yfirlýsingaflóð sem flæðir einhvern vegin út um allt í kringum Baugsmálaferlin. Saklausum blaðalesendum er drekkt í þessu nánast á hverjum degi. Samt skilur enginn neitt í neinu. Nema að þessu fólki líkar ekkert sérstaklega vel við hvert annað. En nýjasta yfirlýsingin, Ku, er svo skemmtilega afundin að maður getur eiginlega ekki annað en glott út í annað.


mbl.is Yfirlýsing frá Davíð Oddssyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Múgmennið

Má til með að benda á feikilega áhugverða grein í miðopnu Morgunblaðsins. Í greininni fjallar Elvira Méndez Pinedo, doktor í Evrópurétti, um endlok múgmennisins. Hún heldur því fram að gagnrýnið hugsandi fólk sé að taka við tuttugustu og fyrstu öldinni af fávísum gráðugum múgnum sem ráðið hafi lögum og lofum á tuttugustu öldinni. Greinin er raunar skrifuð sem einhvers konar stuðningsyfirlýsing við Íslandshreyfingu Ómars, en inntak hennar er svo sem ekkert verra fyrir það.

Búmerang Obama

Neikvæðar auglýsingar í stjórnmálum geta haft öfug áhrif. Myndbandið afdrifaríka er hér.
mbl.is Skuggi fellur á framboð Obamas vegna auglýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opið land

Glöggir lesendur Fréttablaðsins hafa ef til vill tekið eftir mola í blaðinu í dag þar sem segir að ég sé að leggja lokahönd á nýja bók. Raunar eru nokkrar vikur síðan bókin, sem heitir Opið land, fór í lokavinnslu hjá útgefanda mínum, Skruddu útgáfu. Þeir Skruddumenn láta prenta bækur sínar í Finnlandi og mér skilst að skipið með upplagi bókarinnar sé þegar þetta er skrifað að sigla inn í höfnina í Reykjavík. Bókin átti upprunalega að koma út í fyrradag, 20. mars, á fjögurra ára afmæli innrásarinnar í Írak. En vegna seinkunnar í hafi af völdum óveðurs mun hún úr þessu ekki koma út fyrr en á fimmtíu ára afmæli Rómarsáttmála Evrópusambandsins, sem er núna á sunnudaginn, 25. mars. En í bókinni er bæði fjallað um þátt Íslands í Íraksstríðinu og þátttökuleysi í Evrópusambandinu. Einning er rætt um afstöðu okkar Íslendinga til innflytjenda, hnattvæðingar, erlendra matvæla og samkruls íslenskunnar við erlendar tungur. Að grunni til er þessi bók einhvers konar tilraun til að skýra stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna og varfærna afstöðu okkar Íslendinga til umheimsins. Bókin ætti allavega að vera komin í búðir á mánudag. Segi kannski meira frá henni síðar.


Faðir krónprinsessunnar er látinn

Aftenposten segir frá því að faðir Mette-Marit, norsku krónprinsessunnar, Sven O. Høiby, er látinn. Þegar ég bjó í Noregi fyrir nokkrum árum flutti ég vikulega pistla í morgunsjónvarpi Stöðvar 2 og þurfti nokkrum sinnum að greina frá samskiptavandræðum þeirra feðgina. Eftir að Mette-Marit giftist inn í norsku konungsfjölskyldunna gerðist faðir hennar, vandræðagemsi og drykkjuhrútur, helsti heimildarmaður slúðurpressunnar og lak ýmsu misjöfnu um einkahagi prinsessunnar. Var meðal annars á launum við þetta hjá Séð og Heyrt þeirra Norðmanna um tíma. Sven var ansi litríkur karakter og hélt því alltaf fram að fjölmiðlar hefðu fyrst og fremst áhuga á honum sem persónu en ekki sem föður krónprinsessunnar. Það var auðvitað fráleitt en sjálfum þótti mér hann mun áhugaverðari karakter heldur en þetta kóngaslekti allt saman. Frómt frá sagt er það upp til hópa leiðindapakk. Sven gaf lífinu í Noregi lit. Blessuð sé minnig hans.

Sjá frétt Aftenposten: http://www.aftenposten.no/nyheter/iriks/article1701202.ece


Hin feiga skepna

Kláraði Hina feigu skepnu eftir Philip Roth í gær. Bókin fjallar um óforbetranlegan kvennabósa á sjötugsaldri sem getur ekki látið pils ungra stúlkna í friði. Að þessu leyti fjallar bókin um eina helstu bannhelgi okkar tíma. Þetta er lipurlega skrifuð saga, eins og Roth er von og vísa, og heldur manni svosem ágætlega. Einnig kostur hvað hún er stutt. Ég er nú samt ekki jafnhrifinn og margir aðrir. Finnst hún svo sem fín, en ekkert mikið meira en það. Sagt er að Roth beri höfuð og herðar yfir aðra samtímahöfunda í Bandaríkjunum. Af þessari bók að dæma læt ég það nú alveg vera. En hann er í það minnsta áhugaverður, það má hann eiga. Þess vegna ætla ég að halda mig við Roth aðeins lengur. Eftir að ég kláraði Hina feigu skepnu í gærkvöldi teygði ég mig eftir annarri bók eftir hann sem ég átti uppi í hillu. Það er stórvirkið stórvirkið The plot against America. Meira um hana síðar.


Börkur í Bagdat

Börkur Gunnarsson, félagi minn, er í hádegisviðtalinu á Stöð 2 að segja frá reynslu sinni þegar hann var upplýsingafulltrúi hjá NATO í Bagdat. (Já, ég er enni foreldraorlofi og hef því tíma til að horfa á hádegissjónvarpið). Tilefnið er að fjögur ár eru nú frá innrás Bandaríkjanna í Írak. Eins og Börkur getur manna best lýst er allt í kalda kolum í landinu í dag. Hroðalegt ástand og miklu verra heldur þegar fanturinn hann Saddam var við völd. Í upphafi skyldi endinn skoða.

Þetta er svona.


Vonandi aldrei hér

Vonandi getur svona lagað ekki komið fyrir hér á landi. En ef stjórnmálamennirnir fengju að ráða akademískum stofnunum hér á landi væri auðvitað sama hætta á að ófriðlegir fræðimenn myndu fá að fjúka hér. Fjölmargir liðsmenn stjórnarliðsins hafa til að mynda kvartað hástöfum undan skrifum prófessoranna Stefáns Ólafssonar og Þorvaldar Gylfasonar. Baldur Þórhallsson hefur líka fengið á baukinn frá stjórnmálamönnum. Áfram mætti lengi telja. Og áfram eftir það. En sem betur fer er nú líklega óhugsandi að þeir myndu nokkurn tíman beita sér með beinum aðgerðum gegn gagnrýnum fræðimönnum. Eða hvað?
mbl.is Deildarforseti í kínverskum háskóla rekinn eftir reiðilestur á bloggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirsjáanlegt

Þessi niðurstaða er í öllum aðalatriðum í samræmi við það sem ég spáði í grein í ritinu Rannsóknir í félagsvísindum VII, sem kom út í tengslum við ráðstefnuna Þjóðarspegillinn í Háskóla Íslansds, í október í haust. Greinin heitir Ísland greiðir fyrir stækkun ESB.

http://www.bifrost.is/kennarar/2006/default.asp?sid_id=28309&tId=1


mbl.is Senn samið um EES
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband