Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Bréf til Maríu

Lauk nýverið við bók Einars Más Jónssonar, Bréf til Maríu, sem kom úr í vor. Einar ritar bréf sitt í latínuhverfinu í París og sendir þaðan heim til Íslands. Bréf Einars er að mörgu leyti bráðskemmtileg lesning og margt í því er vissulega íhugunar virði. Og vel það. Í bréfi sínu æðir Einar um víðan völl en meginstef þess er andstaða við frjálshyggjuna og alþjóðavæðingu. Bók Einar er einskonar viðbragð við hnattvæðingu frjálshyggjunnar sem hann segir að einkenni nútímann. Einar vill standa vörð um velferðarkerfið, þjóðríkið, tunguna og klassíska menntun. Þrátt fyrir að skrifin séu vissulega áhugaverð verður málflutningurinn ekkert sérstaklega sannfærandi. Honum er nefnilega svo uppsigað við nútímann að það verður stundum erfitt að taka gagnrýni hans fyllilega alvarlega, til að mynda segist hann forðast að nota nútímatól á borð við tölvu, sjónvarp og bíla. Þá er sjónarhornið úr menntamannahverfinu í París tekið svo þröngt að það verður lítið rúm fyrir annað en nokkuð klassískan franskan elítisma.

Hvað kosta Þingvellir?

Við vorum að velta því fyrir okkur yfir kornfleksinu í gærmorgun hvort við ættum kannski bara að skella okkur á Þingvelli. Við vorum þarna í sumar og leist alveg ágætlega á svæðið. Gaman að spóka sig um við Lögberg og dúlla sér í gilinu. Húsin þarna eru víst í lélegu ástandi svo þetta ætti nú ekki að verða svo dýrt. Það hlýtur því að vera hægt að fá vellina fyrir sanngjarnt verð. Okkur datt þetta bara sísona í hug þegar við sáum í Morgnunblaðinu að Karl og Ingunn Wernersbörn eru búin að kaupa Galtalækjarskóg og gamla Borgarbókarsafnið að auki. Við hljótum því að mega kaupa Þingvelli, annað væri ekki sanngjarnt. Best að hringja í Össur eftir hádegið og spyrja hvað Þingvallanefndin vill fá fyrir pleisið.

Að vísu gæti verið einn hængur á þessu máli, við gleymdum nefnilega að kaupa hlutabréf í Actavis á sínum tíma og því getur verið að við eigum alls ekki fyrir þessu eins og sakir standa. Við tökum þá bara lán.

Áætlun um umbætur í almannþjónustu (AUM)

Þetta er ágætis fyrirkomulag. Kannski við ættum því að hrinda af stað nýju einkavæðingarátaki; Áætlun um umbætur í almannaþjónustu (AUM). Fyrir utan Galtalækjarskóg og Þingvelli sem nú eru fráteknir gætum við séð fyrir okkur ýmsa spennandi fjárfestingakosti fyrir unga og efnilega auðmenn. Þjóðarbókhlaðan hefur til að mynda ekki náð að byggja upp nauðsynlegan bókakost sökum fjárskorts. Því liggur beinast við að láta Jón Ásgeir kaupa hlöðuna og fylla hana af bókum um smásöluverslun.

Kaupþing er stærsti banki á Íslandi og skilaði methagnaði í vikunni. Því dugir ekkert minna en Vatnajökull fyrir Hreiðar Má og félaga. Hrafn Gunnlaugsson getur svo fengið Hljómskálagarð í sárabætur fyrir að hann og vinir hans fá engu að ráða lengur.

Við vitum líka öll að ríkið er lönguhætt að reyna að reka Þjóðleikhúsið af nokkru viti. Húsið er að hruni komið og ekkert er lengur fært upp á svið án þess að Landsbankinn styrki það. Því blasir við að Björgólfur Guðmundsson fái bara húsið og stöðu Þjóðleikhússtjóra upp í þá skuld sem menningarlífið skuldar honum nú þegar. Enda ræður hann nú orðið meiru um menningarstarf í landinu heldur en sjálfur menntamálaráðherrann. Björgólfur Thor getur svo fengið Landsspítalann undir tilraunastarfsemi fyrir Actavis.

Fyrirtækjaræði

Auðvitað er Ísland í dag ekki orðið svona. Blessunarlega. Það hefur verið frábært að fylgjast með velgengni íslenskra viðskiptamanna undanfarið, bæði hérna heima og ekki síður erlendis. Á örfáum árum hefur orðið gjörbreyting á þjóðfélagsháttum á Íslandi og peningar bókstaflega flætt inn í landið. En um leið hefur orðið til ný stétt auðmanna sem ræður yfir meira fjármagni en sjálft ríkisvaldið, (hvað þá að almenn félagasamtök eins og bindindishreyfingin sem rekið hefur Galtalækjarskóg undanfarið ráði nokkuð við útrásarvíkingana þegar þeir mæta með töskur fullar af peningum).

Þessi þróun er í flesta staði jákvæð en um leið skapast sú hætta að ríkisvaldið í okkar litla landi ráði ekkert við hin voldugu öfl í atvinnulífinu og að hér á landi þróist einskonar fyrirtækjaræði, þar sem stjórnendur í atvinnulífi ráða meiru um samfélagsleg forgangsatriði, eins og tækjakaup á sjúkrahúsum og fjárframlög til menningarmála, heldur en lýðræðislega kjörin stjórnvöld. Stjórnendur þessara fyrirtækja eru almennt hæfileikaríkir og vel meinandi menn en það hefur enginn kosið þá til valda. Fyrirtækin lúta ekki lýðræðislegu aðhaldi. Því hefur líklega aldrei verið mikilvægara heldur en nú að styrkja stoðir ríkisvaldsins og móta skýrar reglur um þau svið sem viljum halda í höndum lýðræðislegra stjórnvalda, sem við getum svo kosið út ef okkur sýnist sem svo.

Þessi grein birtist í Blaðinu í dag.


Hryðjuverkaríkið

Ferð utanríkisráðherra til Mið-Austurlanda hefur blessunarlega orðið til þess að Íslendingar eru loks að átta sig á að alþjóðasamfélagið (les: við líka) getur ekki bara litið í hina áttina þegar deila Ísraela og Palestínumanna er annars vegar. Alþjóðasamfélagið verður að skerast í leikinn með einhverjum hætti. Í lítilli bók eftir mig sem kom út fyrr á árinu, Opið land, fjalla ég stuttlega um deiluna. Þar lagði ég til að í stað þeirrar aðskilanaðarstefnu sem nú er rekin milli Ísraela og Palestínumanna verði þess í stað reynt að koma á sambandsríki á svæðinu sem næði til allra deiluaðila. Ég sé ekki betur en þessi skrif eigi jafnvel við núna. Læt kaflan hér fljóta með.

Hryðjuverkaríkið

Skömmu eftir árásirnar í Bandaríkjunum 2001 kom George W. Bush, Bandaríkjaforseti, fram með þá yfrirlýsingu að annað hvort stæðu þjóðir heims með Bandaríkjunum í stríðinu gegn hryðjverkamönnum eða þær stæðu gegn þeim. Bush-kenningin svokallaða var þar með komin fram.
Stefna Bandaríkjanna um fyrirbyggjandi stríð hefur raunar verið prófuð fyrir botni Miðjarðarhafs um árabil. Ísrael er nokkurskonar skjólstæðingsríki Bandaríkjanna og ríkisstjórn Ísraels hefur um langa hríð fylgt þessari stefnu í Palestínudeilunni, að því er virðist með velþókknun Bandaríkjastjórnar.

Lýðræðislega kjörin ríkisstjórn Ísraels bregst nefnilega við hryðjuverkastarfsemi palestínskra skæruliðasamtaka með enn magnaðari aðgerðum, sem ekki er hægt að kalla annað en hryðjuverk, - það er að segja: ríkishryðjuverk. Glæpir palestínskra hryðjuverkamannanna eru ekki rannsakaðir og hinir seku eru ekki leiddir fyrir rétt, heldur sendir ríkisstjórnin drápsveitir sínar út af örkinni sem fella jafnt saklausa sem seka Palestínumenn í grimmilegum hefndaraðgerðum.    

Hersveitir Ísraelstjórnar hafa í gegnum áratugina sölsað undir sig sífellt stærra landsvæði Palestínumanna með ólögmætum hætti og um leið hrakið Palestínumenn á örvæntingarfullan flótta. Allri andspyrnu við innrásarherinn er svo mætt með takmarkalausri og grimmilegri hörku. Drengjum sem kasta steinum í hernámsliðið er svarað með vélbyssum og jafnvel amerískum Apache árásarþyrlum ef svo ber undir. Geltið í vélbyssunum og þyturinn í þyrluspöðunum eru orðin hversdagsleg umhverfishljóð sem ungu drengirnir, sem nú malla sér mólótovkokteil í sundurskotnum kjallara á Vesturbakkanum hafa alist upp við frá blautu barnsbeini.

Ljóst er að heiminum öllum stendur ógn af hryðjuverkum öfgatrúarmanna, hvaða sið sem þeir kunna að fylgja. Um það er ekki deilt. En jafnljóst má vera að enginn árangur mun nást í baráttunni gegn hryðjuverkum íslamskra voðaverkahópa fyrr en lausn finnst í deilum Ísraela og Palestínumanna. Um leið er flestum er nú orðið ljóst að forsenda farsællar lausnar er að Ísraelar láti af ólögmætu hernámi sínu á landsvæðum Palestínumanna. Eins og sakir standa bendir ekkert til að það muni gerast án utanaðkomandi þrýstings. Slíkt er aðeins á færi Bandaríkjamanna. Bandaríkjastjórn styður nefnilega leynt og ljóst við ríkishryðjuverk Ísraela gegn Palestínumönnum sem eru framin með bandarískum vígtólum og niðurgreidd með bandarískum dollurum. Án fjárhagsaðstoðar Bandaríkjamanna væri Ísrael gjaldþrota ríki. Bandaríkjamenn hafa því í hendi sér að stöðva voðalegt framferði Ísraela. Þeir geta einfaldlega skrúfað fyrir frekari fjárveitingar og látið af blindum stuðningi sínum.

Hingað til hafa menn helst litið til þess að koma á tveimur ríkjum á svæðinu, ríki Ísraela og ríki Palestínu, sem geti lifað hlið við hlið. Það hefur ekki gengið, aðallega vegna þess að menn koma sér ekki saman um landamærin. En ef við leggjum ískalt mat á málið, þá er líklega vænlegri lausn á deilunni til langframa að koma heldur á fjölþjóðlegu sambandsríki á svæðinu, sem rúmar bæði gyðinga og araba, - og raunar alla þá sem vilja búa í landinu helga. Sennilega eru margir tilbúnir til að blása slíkri hugmynd út af borðinu eins og hverri annarri fjarstæðu. Einhverjir munu halda því fram að átökin á svæðinu lýsi því einfaldlega að það sé útilokað fyrir þetta fólk að búa saman í einu ríki. En bíðum aðeins við. Það vill nefnilega svo til að slíkt hefur gerst áður víðs vegar um jarðarkringluna. Til að mynda má að hluta til rekja tilurð Bandaríkjanna til borgarstyrjaldar þar í landi, þótt aðstæður hafi svo sem verið aðrar og í Bosníu hefur verið gerð tilraun með svipaða hugmyndafræði. Evrópusambandið, sem vissulega er ekki sambandsríki heldur ríkjabandalag, varð ennfremur til við nokkuð svipaðar aðstæður

Um miðbik liðinnar aldar var Evrópa orðin rjúkandi rúst eftir tvö gjöreyðingarstríð sem háð voru af rótum skefjalausrar þjóðernishyggju ýmissa smákónga álfunnar sem skýldu sér bak við einangrun landa sinna og tortryggni í garð annarra þjóða. Á rústum þeirra hörmunga varð til sú hugmynd að aukin samvinna og samruni ríkja álfunnar væri eina leiðin til að tryggja frið og framfarir í hinni stríðshrjáðu Evrópu. Hugmyndin var að gera ríkin svo innbyrðis háð að árás eins ríkis á annað væri í raun árás gegn eigin hagsmunum. Tilraunin tókst og nú rúmri hálfri öld síðar búa íbúar Evrópusambandsins á einum friðsælasta og farsælasta bletti jarðarkringlunnar.

Hugmyndafræði Evrópusamvinnunar var í raun afar einföld. Yfirþjóðleg samvinna manna á milli; yfir mæri þjóða, trúabragða, tungumála og menningar er mun skynsamlegra þjóðfélagsskipulag heldur en hólfaskipting sem ýtir undir átök. Í stað þess að skilja þjóðirnar fyrir botni Miðjarðarhafs að í mis vænlegum hólfum, eins og nú er gert, þarf að koma á fjölþjóðlegu þjóðskipulagi með sameinuðu athafnasvæði og jöfnum réttindum. Um leið þarf að tryggja að allir hóparnir á svæðinu hafi jafna aðkomu að stjórn sambandsríkisins eða þess ríkjabandalagsins sem þar yrði myndað. Hið sameiginlega miðlæga vald þarf svo að fá ótvírætt ákvarðanatökuvald í sameiginlegum málefnum, sem varða grundvallaratriði ríkja, eins og samgöngur, veitumál, öryggismál, löggæslu, skattheimtu, peningamálastjórnun og meginatriði í ríkisfjármálum svo fáein svið séu nefnd. En jafnframt þarf að færa nærþjónustu á borð við almenna heilsugæslu, menntun, borgarskipulag og menningarmál út til aðildafylkja ríkjasambandsins.

Úr bókinni Opið land - staða Íslands í samfélagi þjóðanna.


Flugdrekahlauparinn

Áfram með bókaumfjallanir. Fyrr í sumar lauk ég við bókina Flugdrekahlauparinn eftir Khaled Hosseini. Bókin hefur trónað á toppi vinsældalista um allan heim enda hreint út sagt ansi mögnuð lesning. Bókin sem er lipurlega skrifuð veitir einstaka innsýn í lífið í Afganistan, bæði áður og eftir að Talíbanar náðu þar völdum. Um leið er þetta átakanleg þroskasaga, skrifuð af athyglisverðri einlægni og virðingu fyrir viðfangseninu.

Þessa stundina er ég með allt annars konar bók milli handana, hef setið í sólinni undanfarna daga og lesið bréf Einars Más Jónssonar sem hann ritaði til Maríu fyrr á árinu. Meira um þá ritsmíð síðar.


Verslunarþjóðfélagið

Arðránið á sjávarauðlindinni er loksins farið að segja til sín. Við höfum gengið svo svakalega á matarkistuna að það er allt að verða búið í sjónum, höfum skrapað botninn of lengi og dregið allt of mikinn fisk að landi. Þvert ofan í ráðleggingar vísindamanna. Loksins hafa stjórnvöld séð að það er ekki hægt að halda svona áfram. Sem betur fer. En þegar svo mjög er dregið úr fiskveiðum hafa menn skiljanlega áhyggjur af stöðu sjávarbyggðanna. Í fréttum þessa dagana er því mikið talað um mótvægisaðgerðir til að bæta skaða einstakra staða. Af umræðunni má skilja að sumir telji aðgerðirnar tímabundnar, að ofveiðin haldi svo bara áfram eftir fáein ár. Það þurfi bara að brúa þann tíma með opinberum plástrum.

Verstöð verður að banka
Ég er vissulega ekki fiskifræðingur, hef varla mígið í saltan sjó eins og sagt er. Eigi að síður leyfi ég mér að spá því að í framtíðinni einkennist Ísland ekkert sérstaklega af sjávarútvegi. Verstöðin Ísland er liðin tíð. Verstöðinni hefur verið breytt í banka. Kannski mun koma í ljós að boðaður niðurskurður á fiskveiðum reynist sérstök blessun. Sjálfsmynd þjóðarinnar er enn ansi tengd fiskveiðum og opinberar aðgerðir miða enn flestar að því að gæta hagsmuna sjávarútvegsins. Oft á kostnað annarra atvinnugreina.

Á meðan við miðum enn allar aðgerðir við fisk hefur orðið hljóðlát bylting á atvinnuháttum landsins. Langt eftir liðinni öld stóðu fiskveiðar undir svo til öllum gjaldeyristekjum landsins. Á undanförnum árum hefur hlutfall sjávarútvegs hins vegar dregist stórlega saman og hlutur fjármálaþjónustu stigið fram úr sjávarútvegi. Alveg eins og fiskveiðisamfélagið tók við af gamla bændasamfélaginu hefur verslunarsamfélagið nú tekið við af sjávarútveginum.

Þegar sjávarútvegur var að festast í sessi á Íslandi höfðu margir efasemdir um áhrif fiskveiða á íslenskt samfélag. Opinberum aðgerðum var þá markvisst beitt til að vernda gamla bændasamfélagið. Menn gengu jafnvel svo langt að setja á sérstakt vistarband til að halda vinnufólki í sveitum og meina fólki að starfa við sjávarútveg. Nú þarf að passa að opinberar aðgerðir verði ekki til að standa í vegi fyrir eðlilegri framþróun þjóðfélagsins.

Eitt atvinnusvæði
Andstaðan gegn eðlilegum atvinnu- og þjóðfélagsbreytingum héldu á sínum tíma aftur af nútímavæðingu íslensks samfélags. Það var ekki fyrr en eftir síðari heimstyrjöld að menn fóru loks að sætta sig við þurrar búðir í þorpum, bæjum og borgum. Íhaldssemin og þráin eftir hinu löngu liðna bændasamfélagi hefur enn hamlandi áhrif í íslensku samfélagi, fjötrar fortíðar birtast ekki síst í einhverju vitlausasta landbúnaðarkerfi sem þekkist á byggðu bóli, landbúnaðarkerfi sem veldur hæsta matvælaverði sem þekkist.

Allt of lengi stóðu afturhaldssöm viðhorf í vegi fyrir þeim miklu framförum sem fylgdu sjávarútvegnum. Langt fram eftir liðinni öld hélt þorskurinn svo lífinu í þessari þjóð, alveg eins og sauðkindin hafði gert áður. En nú eru komnir nýir tímar. Íslenskt þjóðfélag byggir ekki lengur tilveru sína á fiskveiðum heldur á allra handa verslun og viðskiptum, ekki síst alþjóðlegum fjármálaviðskiptum. Með nútímavæðingu viðskiptanna verður landið allt að einu atvinnusvæði. Fyrir byggðir landsins er því orðið mikilvægara að efla menntun, fjarskipti og samgöngur heldur en að færa til einhverja byggðakvóta. Í stað hólfaskiptra smáskammtalækninga í einstaka plássum þarf nú að hugsa aðgerðir í byggðamálum með heilstæðum hætti, það skiptir nefnilega ekki öllu máli hvar fólk býr ef aðstæður og innviðir eru í lagi. Þá fyrst geta menn raunverulega valið þann lúxus að búa úti á landi.

Þessi grein birtist í Blaðinu14. júlí 2007.


Bloggfrí

Flugið heim frá Berlín í gær var tíðindalítið að öðru leyti en því að einhvers staðar yfir atlantshafinu, rétt sunnan við Færeyjar held ég, ákvað ég að taka mér stutt bloggfrí.

Þetta er svona.


Seinkun á flugi Icelandair

Nú er ég staddur á flugvelli í Berlín og bíð eftir að komast heim. Það er víst einhver seinkun á vél Icelandair, vonandi ekki löng. Ég er svo sem í ágætu yfirlæti, með rjúkandi kaffi og fría nettengingu. Icelandair er annars dálítið skrítið flugfélag, það virðist ekki alveg vita hvort það ætlar að vera hefbundið fánaflugfélag (flag carrier) áfram eða verða bara lággjaldaflugfélag. Það er eiginlega hvoru tveggja, - lággjaldarflugfélag á hágjaldaverði. Kannski er þetta ósangjörn lýsing en ég stóðst bara ekki mátið að lýsa þessu svona. Hér í Berlín er Icelandair klárlega lággjaldarflugfélag, flýgur frá hinum pinkulitla Schönefeld flugvelli í Austur-Berlín og veitir litla sem enga þjónustu. Samt var flugmiðinn alls ekki ódýr, eiginlega frekar dýr. Í Kaupmannahöfn hagar Icelandair sér hins vegar eins og virðulegt fánaflugfélag með öllu tilheyrandi, þangað er víst hægt að komast með Icelandair fyrir lítinn pening þessa dagana.

Þetta er svona.


Bergmannstrasse

Þessa stundina sit ég á Bregmannstrasse í Kreuzberg hverfinu í Berlín og les doktorsritgerð Birgis Hermannssonar sem fjallar um íslenska þjóðarnishyggju. Einhvern vegin þykir mér þetta alveg sérdeilis viðeigandi.

Ég er búinn að vera hér í tæpa viku, fyrstu dagana var ég á ráðstefnu en nú líða dagarnir þannig að ég rölti á millil kaffihúsa þar sem ég les og skrifa. Þetta er ekki slæmt líf. Meginvandi minn er sá að ég þekki ógrynni af fólki hérna og því hefur orðið nokkur truflun á þeirri vinnu sem ég ætlaði mér að komast yfir. Þannig háttar til að fyrir um fimmtán árum var ég virkur í félagsskap ungs hugsjónafólks sem barðist fyrir auknu evrópsku samstarfi eftir lok kalda stríðsins og starfaði út um alla álfuna. Um skeið var ég í stjórn þessara samtaka. Margt af þessu fólki hefur síðan sest að hér í Berlín og sumir voru með mér á ráðstefnunni um helgina. Suma hef ég hitt margoft frá því við störfuðum saman á sínum tíma en aðra hef ég ekki séð í tíu til fimmtán ár. Það er því mikið skálað og gömul kynni rifjuð upp.

Á þessum tíma ferðuðumst við saman út um alla álfu. Austur-Evrópa var að opnast og allra augu voru á samfélögunum austan járntjaldsinsins. Við héldum margar ráðstefnur í þessum löndum, minnistæðust eru ferðalög til Króatíu í miðju stríði, Litháens og Hvíta-Rússlands sem var þá enn gjörsamlega lokað land. Berlín er að mörgu leyti táknmynd fyrir þessa baráttu. Fólkið reif múrinn niður með berum höndum og nú gengur maður á milli Vestur- og Austur Berlínar eins og ekkert sé sjálfsagðara. Allavega við höfum yfir heilmiklu að skála. Nú ætla ég að loka tölvunni, rölta inn í Mitte og finna annað kaffihús þar, helst einhvers staðar í nálægð við hótelið mitt. Í kvöld ætla ég svo að hitta nokkra vini í Prenszlauer Berg hverfinu.


Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband