Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Leiðin til Guantanamo

Sá loksins í gærkvöldi heimildamyndina Leiðin til Guantanamo. Leigði hana á Skjánum sem er by the way frábær þjónusta. Myndin fjallar um breska stráka  af pakístönskum uppruna sem Bandaríkjaher tók í misgripum fyrir hryðjuverkamenn í Afganistan og setti svo í fangelsi í Guantanamo búðunum á Kúpu. (Tveir þeirra komu til Íslands fyrir skömmu að kynna myndina). Meðferðin á föngunum einkenndist af fullkomnum skepnuskap amerísku hermannanna. Nánast hreinræktaðri illsku. Engin leið er að kalla meðferðina öðru nafni en pyntingar. Skelfilegar pyntingar. Svo svakalegar að enginn maður kemst heill frá slíkri reynslu. Enginn fanganna í Guantanamo hefur enn verið dæmdur fyrir nokkurn skapaðan hlut og mörg hundruð manns eru þar enn í haldi. Og þurfa enn að þola pyntingar. Líka í dag.

Nú er það svo að ríkisstjórn Íslands studdi - og styður enn - aðgerðir Bandaríkjastjónar í stríðinu gegn hryðjuverkum. Þrátt fyrir allt það sem nú er vitað hafa íslensk stjórnvöld ekki enn mótmælt framferði Bandaríkjastjórnar. Við Íslendingar, hver fyrir sig, berum ábyrgð á eigin stjórnvöldum. Af þeim sökum er engin leið fyrir okkur að komast undan þeirri sáru staðreynd að við berum líka okkar ábyrgð á þessum skelfilegu pyntingum Bandaríkjahers.

Þetta er svona.


Netið og ábyrgð

Meira um Netið og ábyrgð.

Ég sá að Pétur Gunnarsson, huxuður, var um daginn að velta fyrir sér virkni og umgengni innan athugasemdakerfisins sem gjarnan er að finna undir færslum á svona bloggsíðum. Pétur hefur þráfaldlega þurft að eyða út óhróðri og svívirðingum sem settar eru nafnlaust inn á hans eigin síðu.

Þegar ég hóf þetta blogg hafði ég athugasemdakerfið opið enda getur verið skemmtilegt að fá viðbrögð við því sem hér er slengt fram. Vandinn var hins vegar sá að í bland við athyglisverð og á tíðum stórskemmtileg innlegg lesenda var einnig að finna óbótaskammir og svívirðingar sem ýmist voru settar fram undir nanfi eða nafnlaust.

Bloggið er í raun eins og hver annar fjölmiðill og sem ritstjóri síðunnar ber ég því vitaskuld ábyrg á því sem hér stendur. Alveg eins og á við um aðra fjölmiðla. Það var sökum þess að treysti mér ekki til að bera ábyrgð á sumu því sem fólk setti inn á síðuna mína að ég varð að loka athugsemdakerfinu.

Þetta er svona.


Björn Bjarnason Netlögreglustjóri?

Mér heyrist á fólki að menn sjái Björn Bjarnason einna helst fyrir sér í embætti Netlögreglustjóra Ríkisins sem Steingrímur Jóhann Sigfússon ætlar sér að setja á fót ef hann kemst til valda eftir kosningar í vor. Eins og menn vita þá hefur Björn lengi verið manna áhugasamur um öryggismál og leyniþjónustustarfsemi hverskonar. Svo þekkir Björn líka manna best til netheima á Íslandi, einn elsti bloggari landsins. Þetta steinliggur. Þá segja menn að með þessu móti geti Steingrímur náð  þverpólitískri samstöðu um að úthýsa öllum dónskap úr íslenskum tölvum. Það yrði sko alvöru landhreinsun.

Þetta er svona.


VG vill Netlöggu

Það dásamlega við Netið er að það er stjórnlaust. Hér getur hver maður gert það sem honum sýnist. Establismentið verður til að mynda að búa við að það er pöpullinn sem ræður í netheimum.

Vissulega má finna ýmislegt misjanft á veraldarvefnum. Sumt er jafnvel ólöglegt og á því þarf að taka eins og öllum öðrum glæpum. Þetta eðli netsins gerir einnig að verkum að það þarf að nálgast það með ákveðinni varúð. Foreldrar þurfa til að mynda að leiðbeina börnum sínum framhjá ógnum frumskógarins og svo þurfum við að taka ýmiskonar upplýsingum sem verða á vegi okkar með tiltekinni varúð. Til að mynda er lítið mark takandi á nafnlausum skrifum sem flæða út um allt á öldum netsins. Hér verður hver maður að bera sína ábyrgð.

Almennt er fólk vel í stakk búið til þess vinsa ruslið frá gagnlegu og skemmtilegu efni. Þess vegna er óskiljanlegt að til sé stjórnmálaflokkur á Íslandi í dag sem vill koma á Netlögreglu til að berjast gegn skaðlegu efni. Sannast sagna hélt ég að slík viðhorf hefðu horfið með Ráðstjórnarríknunum sálugu.

Þetta er svona.


Dönsk Charlotte verður norsk Tove

Undanfarin sex sunnudagskvöld hef ég fylgst með örlögum Tove Steen í norska stjórnmáladramanu Við kóngsins borð sem Ríkissjónvarpið hefur sýnt. Lokaþátturinn var í kvöld. Norsku þættirnir eru í raun lítið sminkuð eftirlíking af Krónprinsessunni eftir hina dönsku Hanne Vibeke Holst. Þrátt fyrir að ýmsu sé breytt þá er þetta efnislega nákvæmlega sama sagan. Samt hef ég ekki orðið var við neina beina tilvitnun í Krónprinsessuna. Sem mér finnst dálítið skrítið. En hvað um það. Að mínu vitu er hin danska Charlotte mun áhugaverðari karakter heldur en norska eftirlíkingin. Sænska sjónvarpið hefur líka gert þætti upp úr Krónprinsessunni og breytti ekki öðru heldur en að færa sögusviðið frá Kaupmannahöfn yfir til Stokkhólms. Ég leyfi mér að skora á Ríkissjónvarpið að sýna sænsku þættina næst.


Klámið á Hótel Sögu

Hótel Saga hefur meinað framleiðendum klámefnis að gista hjá sér. Samt hefur komið fram að Hótel Saga selur gestum sínum klám. Því er ekki ólíklegt að Hótel Saga dreifi klámefni frá einhverjum þeirra aðila sem ætluðu að gista á hótelinu, en máttu ekki.

Semsé: Forsvarsmenn Hótel Sögu telja í lagi að selja klám og dreifa klámi en þeir telja ekki í lagi að hýsa framleiðendur þess efnis sem þeir sjálfir sýna og græða á. 

Þetta er svona.


Á náttborðinu: Undantekningin

Nokkrir danskir höfundar eru í uppáhaldi hjá mér. Til að mynda Peter Hoeg og Hanne Vibeke Holst. Nú er ég hins vegar kominn nokkuð áleiðis inn í bók Christian Jungersen, Undantekningin. Í sögu sinni vefar Christian saman skelfingu þjóðamorða og skelfingu samskiptaörðuleika á vinnustað. Bókin fer vel af stað, meira síðar.

Blaðið, Fréttablaðið, Moggi, Viðskiptablaðið, DV og Krónikan

Áður en ég fór í fæðingarorlof hlakkaði ég til að hafa betri tíma til að lesa blöðin. Í morgnun las ég Blaðið með morgunmatnum og kláraði svo Fréttablaðið á meðan Hrafnhildur litla lék sér við köttinn Aþenu á stofugólfinu. Nú er hún sofnuð, komin í miðmorgunlúrinn sinn, og ég er langt kominn með Moggann hér í sófanum. Þetta er dágóður skammtur. Samt er ég aðeins hálfnaður. Eftir hádegi þarf ég svo, (þar að segja ef Hrafnhildur og kötturinn leyfa), að klóra mig í gegnum Viðskiptablaðíð, Krónikuna og nýja DV sem kemur í fyrsta sinn út í dag. Allt í einu er þetta eiginlega hætt að vera tilhlökkunarefni. Mér líður nefnilega eins og ég sé kominn í fulla vinnu við blaðalestur.

Þetta er svona.


Saga Kára Tulinius

Bendi á einkar fróðlega grein eftir Kára Tulinius í Morgnunblaðinu í dag. Vegna þess að Kári og bandarísk kona hans voru ekki orðin 24 ára gömul þá fékk kona hans ekki dvalarleyfi á Íslandi. Ungu hjónin urðu því að flytja til Bandaríkjanna þar sem þau búa nú, í Providence á Rhode Island. Það var hins vegar auðsótt mál fyrir Kára að fá dvalarleyfi í Bandaríkjunum, enda giftur bandarískri konu.

Kári endar grein sína svona:

"Ég vona að þessi saga svari spurningunni um á hverjum ströng innflytjendalöggjöf bitnar. Það eru íslenskir ríkisborgarar. Síðan er annað mál hverjir græða".

Þetta er svona.


Sexið selur

Meira um kynlífsfréttir fjölmiðlanna. Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi var sagt frá samdrætti erlends leikara og íslenskrar leikkonu. Haft var eftir gesti á einhverjum bar að vel hefði farið á með leikurunum tveimur og þau hefðu líklega ekki bara ætlað að fá sér frískt loft þegar þau gengu saman út í nóttina. Hvað þessi samdráttur kom mér sem almennum fréttaneytanda við er mér enn hulin ráðgáta. Næsta frétt var svo um klámrástefnuna endalausu og þar á eftir var sagt frá ágreiningi um hve mörg börn hafi komið undir í Byrginu. Ætli séu ekki fleiri en ég sem spyrji hvort það sé virkilega ekkert annað í fréttum?

Þetta er svona.


Næsta síða »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband