Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Vesturbæjarlaugin

Vatnsnuddið í Vesturbæjarlauginni er líklega eitt best geymda leyndarmálið í borginni. Laugin er sannkölluð vin í Vesturbænum. Afslöppuð stemmning og skemmtilegar umræður í pottinum. Stundum er gamalt og gott nefnilega svo miklu betra heldur en nýtt, dýrt og fínt.

Þetta er svona.


Að vera eða sýnast

Hef verið að glugga í nýútkomna bók Harðar Bergmann, Að vera eða sýnast. (Svo ég svari því bara strax: nei við erum ekkert skyldir, svo ég viti. Við erum hins vegar hjá sama forlagi, Skruddu.) Hvað um það. Bók Harðar sætir heilmiklum tíðindum, í örstuttum köflum flettir hann ofan af sýndarveruleikanum sem við sjáum alla jafna ekki út úr dags daglega. Hörður fer um víðan völl samfélagsins og afbyggir orðagjálfur og margvíslega merkingalausa dellu sem jafnan er sett í búning hins æskilega. Bókin er byggð upp í stuttum köflum sem gaman er að detta ofan í. Ég hef semsé ekki lesið hana frá spjaldi til spjaldar heldur liggur hún bara hérna á borðinu og stundum, þegar ég er í rétta skapinu, gríp ég ofan í hana af handarhófi. Svínvirkar þannig þótt ég sé ekki sammála honum í öllum tilvikum. En það er nú bara betra.

Þetta er svona.


Stúlka á hvolfi

Á forsíðu Fréttablaðsins er mynd af stúlku á hvolfi sem snýst í lausu lofti. Í bakgrunni eru tvær konur ábúðafullar á svip, hvor með opinn penna spenntan í hægri hönd, viðbúnar að fella dóm yfir stúlkunni. Vægðarlausan ef marka má svip þeirra á ljósmyndinni.

Þetta er svona.


Sódavatn og súkkulaði

Var á eirðarlausu flakki á milli sjónvarpsstöðvanna í gærkvöldi og datt loks inn í gamlan West wing þátt á rás tvö í sænska ríkissjónvarpinu. West wing þættirnir sem eru einkar vandaðir eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Það jók svo heldur betur á gleðina þegar þættinum lauk og í ljós kom að sænska sjónvarpið ætlaði að sýna annan þátt strax á eftir. Þá fór ég inni í eldhús og náði mér í sódavatn og súkkulaði.

Þetta er svona.


Undantekningin efir Christian Jungersen

Lauk nýverið að lesa Undantekninguna ef danska höfundinn Christian Jungersen í þýðingu Ólafar Eldjárn. Bókin er mikil vöxtum og sagan að mörgu leyti áhugaverð. Segir af fjórum konum sem starfa saman á upplýsingaskrifstofu um þjóðarmorð í Kaupmannahöfn. Viðbjóður þjóðarmorða er endurspeglaður og smækkaður í skelfilegum samskiptum kvennanna á skrifstofunni. Þær fremja hreinlega þjóðarmorð á hver annarri. Ég er ekki alveg viss um hvaða dóm ég á að kveða upp um þessa bók. Í aðra röndina er hún frábær en í hina dálítið pirrandi. En hún er allavegana áhugverað og það er mest um vert. Niðurstaðan er því þrjár stjörnur.

Í fyrradag datt ég svo inn í Hina feigu skepnu eftir Philip Roth sem ég fann uppi í hillu, í þýðingu Rúnars Helga Vignissonar. Sjáum til hvort ástæða verður til að nefna hafa frekar á þessum vettvangi.


Hestaskál

Skál fyrir þér Guðlaugur Þór. Á þingi í dag ert þú sómi frjálslyndra manna, sverð þeirra og skjöldur. Megi þú lengi lifa, - skál, skál, þína skál!

Þetta er svona.


mbl.is Allsherjarnefnd afgreiddi frumvarp um afnám einkasölu ríkisins á léttvíni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hátt hlutfall laga á Íslandi á uppruna í Brussel

Ný skýrsla Evrópunefndar forsætisráðherra er um margt áhugavert rit. Í raun er hún afbragðs samantekt á evrópsku samstarfi og aðkomu Íslands að Evrópusamrunanum í gegnum EES-samninginn og Schengen landamærasamstarfið. Þótt skýrslan sé lögð fram af fulltrúum stjórnmálaflokkanna í nefndinni dylst fáum sem til þekkja að meginefni hennar er höfundarverk Hreins Hrafnkelssonar, starfsmanns nefndarinnar. Hreinn er stórfróður um Evrópumál og vinna hans gerir að verkum að skýrslan er ekki aðeins ágætis innlegg inn í hið pólitíska þras heldur einnig góður grunnur fyrir fræilega umræðu um raunverulega stöðu Íslands í Evrópusamvinnunni.

Áhugverðar sérlausnir

Í skýrslunni er til að mynda að finna geipilega áhugaverðar upplýsingar um afmarkaðar sérlausnir sem fjölmörg ríki hafa fengið utan um sína meginhagsmuni í aðildarviðræðum við ESB. Einnig eru dregin fram dæmi um afmarkaðar sérlausnir sem ríki hafa fengið eftir að þau voru komin inn í ESB. Að því leytinu til er hér nánast kominn fram leiðavísir um mögulega sérlausn fyrir íslenskan sjávarútveg í hugsanlegum aðildarviðræðum við ESB. Þannig að yfirráðin yfir auðlindinni yrðu eftir sem áður í höndum íslenskra stjórnvalda. Dæmi frá Möltu, Finnlandi, Svíðþjóð, Danmörku og fleiri ríkjum sína að vel gerlegt er að finna ásættanlega lausn fyrir íslenskan sjávarútveg. Einnig má röðkstyðja slíka lausn með vísan í Sérákvæði um fjarlægar eyjar og héruð sem finna má í sáttmálum Evrópusambandsins og greint er frá í skýrslunni.

Hlutfall Evópulaga

Fleira áhugavert er að finna í skýrslunni. Lengi hefur verið rifist um hve stóran hluta af reglugerðaverki ESB Ísland þarf nú þegar að innleiða. Ljóst er að meginhluti lagabálka ESB er áframsendur til Íslands í gegnum EES og Schengen. Menn hafa stundum velt fyrir sér hve mikinn hluta af íslenskum lögum megi rekja til ákvarðanna Evrópusambandsins. Í skýrslunni er í fyrsta sinn varpað ljósi á þá spurningu. Fram kemur að um það bil fimmtungur af öllum lögum og reglum sem sett eru á Íslandi eiga uppruna í Brussel. Þetta eru stórmerkilegar upplýsingar því rannsóknir í einstaka ríkjum Evrópusambandsins hafa sýnt að í flestum þeirra er hlutfalla Evrópulaga lægra heldur en hér á landi.

Í útreikningum sænska prófessorsins Fredrik Sterzel frá árinu 2001 kom fram að einungis 8 prósent af sænskum lögum og reglugerðum megi rekja til ákvarðana í Brussel. (Sterzel: 2001, bls 13). Hlutfallið er nokkuð misjafnt milli aðildarríkjanna enda misjafnt hvað ríki eru dugleg við að framleiða lög og reglur. Til að mynda komust hollensku fræðimennirnir Edwin de Jong og Michiel Herweijer að þeirri niðurstöðu að í Hollandi megi rekja á milli 6 til 16 prósent af hollenskum lagareglum til Evrópulöggjafarinnar, allt eftir því hvernig það er reiknað. (Jong og Herweijer: 2005). Í skýrslu Evrópunefndar forsætisráðherra kemur fram að á Íslandi megi rekja á milli 17,2 prósent til 21,6 af íslenskri lagasetningu til löggjafastarfsins í Brussel. Skýringin gæti verið sú að Íslendingar setja sjálfum sér færri lög en aðrar Evrópuþjóðir. Eigi að síður má samkvæmt þessum tölum rekja hlutfallslega fleiri lagareglur á Íslandi til lagasetningastarfs Evrópusambandsins í Brussel heldur en að jafnaði tíðkast í ríkjum ESB.

Þessi grein birtist einnig í Blaðinu í dag


Magnús I Hagen og Jón Le Pen

Nú er orðið ljóst að Magnús Þór Hafsteinsson og Jón Magnússon munu leiða Frjálslynda flokkinn í sitt hvoru Reykjavíkurkjördæminu. Innan flokksins eru það þeir tveir sem hafa gengið lengst í málflutningi gegn innflytjendum. Í því ljósi eru gárungarnir farnir að kalla þá félaga; Magnús I Hagen og Jón Le Pen.

Þetta er svona


Evrópuskýrsla forsætisráðherra

Hef núna seinni partinn verið að dunda mér í gegnum skýrslu Evrópunefndar forsætisráðherra. Þetta er að mörgu leyti afbragðs samantekt á stöðu Íslands í evrópsku samstarfi. Greinilegt að starfsmaður nefntarinnar, Hreinn Hrafnkellsson, sem skrifar nú nánast alla skýrsluna, er vel að sér í Evrópufræðum. Tök hans á efninu gerir það að verkum að fram er komin góður grundvöllur um vitræna umræðu um Evrópumálin á Íslandi.

Það vekur athygli að nefndin klofnar í raun í fimm hluta í niðurstöðum sínum. Allir stjórnmálaflokkarnir sjá ástæðu til að skila séráliti. Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir ná þó saman um andstöðu gegn ESB-aðild Íslands en eru ósammála um gildi EES-samningsins. Samstaðan gegn ESB-aðild kemur raunar ekki á óvart en röksemdafærslan sem kemur fram í sameiginlegu áliti flokkanna tveggja er að ákveðnu leyti gölluð. Þar segir:

"Engar líkur eru á að samist geti um milli Íslands og ESB, að 200 mílna efnahagslögsagan umhverfis Ísland verði í heild sinni viðurkennd sem sérstakt fiskveiðistjórnarkerfi undir stjórn Íslendinga enda samrýmist það ekki sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB og á sér engin fordæmi."

Þessi fullyrðing stenst enga skoðun. Raunar er eins og þeir fulltrúar nefndarinnar sem standa að þessu áliti hafi ekki lesið eigin skýrslu. Í kaflanum um varanlegar undanþátur og sérlausnir er nefnilega að finna svo gott sem fullkomna röksemd fyrir því að vel sé hægt að finna lausn sem tryggir yfirráð Íslendinga yfir efnahagslögsögunni. Til frambúðar. Tekin eru dæmi af fjölmörgum sambærilegum sérlausnum sem fundin hafa verið í aðildarsamningum fjölmargra ríkja. Raunar er þessi kafli einn sá áhugaverðasti í skýrslunni.

Niðurstaða Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna, sem gengur þvert gegn upplýsingum í eign skýrslu, gengur ennfremur þvert gegn upplýsingum sem komu fram í máli eins reyndasta samningamanns ESB og yfirmanns skrifstofu sjávarútvegsmálastjóra ESB, Michael Köhlers, sem í nýlegri heimsókn hér á landi lýsti því yfir að Ísland myndi við aðild að ESB halda fullum yfirráðum yfir sjávarauðlindinni.

Þetta er svona.


Korter í kosningar

Í blöðunum í dag eru fréttir um að ríkisstjórnin ætli að bjarga Vestfjörðum, heyrnarlausum, landsbyggðinni, sjónskertum, matarreikningnum og Framsóknarflokknum. Það eru greinilega að koma kosningar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband