Leita í fréttum mbl.is

Hátt hlutfall laga á Íslandi á uppruna í Brussel

Ný skýrsla Evrópunefndar forsætisráðherra er um margt áhugavert rit. Í raun er hún afbragðs samantekt á evrópsku samstarfi og aðkomu Íslands að Evrópusamrunanum í gegnum EES-samninginn og Schengen landamærasamstarfið. Þótt skýrslan sé lögð fram af fulltrúum stjórnmálaflokkanna í nefndinni dylst fáum sem til þekkja að meginefni hennar er höfundarverk Hreins Hrafnkelssonar, starfsmanns nefndarinnar. Hreinn er stórfróður um Evrópumál og vinna hans gerir að verkum að skýrslan er ekki aðeins ágætis innlegg inn í hið pólitíska þras heldur einnig góður grunnur fyrir fræilega umræðu um raunverulega stöðu Íslands í Evrópusamvinnunni.

Áhugverðar sérlausnir

Í skýrslunni er til að mynda að finna geipilega áhugaverðar upplýsingar um afmarkaðar sérlausnir sem fjölmörg ríki hafa fengið utan um sína meginhagsmuni í aðildarviðræðum við ESB. Einnig eru dregin fram dæmi um afmarkaðar sérlausnir sem ríki hafa fengið eftir að þau voru komin inn í ESB. Að því leytinu til er hér nánast kominn fram leiðavísir um mögulega sérlausn fyrir íslenskan sjávarútveg í hugsanlegum aðildarviðræðum við ESB. Þannig að yfirráðin yfir auðlindinni yrðu eftir sem áður í höndum íslenskra stjórnvalda. Dæmi frá Möltu, Finnlandi, Svíðþjóð, Danmörku og fleiri ríkjum sína að vel gerlegt er að finna ásættanlega lausn fyrir íslenskan sjávarútveg. Einnig má röðkstyðja slíka lausn með vísan í Sérákvæði um fjarlægar eyjar og héruð sem finna má í sáttmálum Evrópusambandsins og greint er frá í skýrslunni.

Hlutfall Evópulaga

Fleira áhugavert er að finna í skýrslunni. Lengi hefur verið rifist um hve stóran hluta af reglugerðaverki ESB Ísland þarf nú þegar að innleiða. Ljóst er að meginhluti lagabálka ESB er áframsendur til Íslands í gegnum EES og Schengen. Menn hafa stundum velt fyrir sér hve mikinn hluta af íslenskum lögum megi rekja til ákvarðanna Evrópusambandsins. Í skýrslunni er í fyrsta sinn varpað ljósi á þá spurningu. Fram kemur að um það bil fimmtungur af öllum lögum og reglum sem sett eru á Íslandi eiga uppruna í Brussel. Þetta eru stórmerkilegar upplýsingar því rannsóknir í einstaka ríkjum Evrópusambandsins hafa sýnt að í flestum þeirra er hlutfalla Evrópulaga lægra heldur en hér á landi.

Í útreikningum sænska prófessorsins Fredrik Sterzel frá árinu 2001 kom fram að einungis 8 prósent af sænskum lögum og reglugerðum megi rekja til ákvarðana í Brussel. (Sterzel: 2001, bls 13). Hlutfallið er nokkuð misjafnt milli aðildarríkjanna enda misjafnt hvað ríki eru dugleg við að framleiða lög og reglur. Til að mynda komust hollensku fræðimennirnir Edwin de Jong og Michiel Herweijer að þeirri niðurstöðu að í Hollandi megi rekja á milli 6 til 16 prósent af hollenskum lagareglum til Evrópulöggjafarinnar, allt eftir því hvernig það er reiknað. (Jong og Herweijer: 2005). Í skýrslu Evrópunefndar forsætisráðherra kemur fram að á Íslandi megi rekja á milli 17,2 prósent til 21,6 af íslenskri lagasetningu til löggjafastarfsins í Brussel. Skýringin gæti verið sú að Íslendingar setja sjálfum sér færri lög en aðrar Evrópuþjóðir. Eigi að síður má samkvæmt þessum tölum rekja hlutfallslega fleiri lagareglur á Íslandi til lagasetningastarfs Evrópusambandsins í Brussel heldur en að jafnaði tíðkast í ríkjum ESB.

Þessi grein birtist einnig í Blaðinu í dag


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband