Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Herðubreið

Í gær kom út fyrsta tölublað að nýju ársfjórðungsriti um samfélagsmálefni, Herðubreið. Þar sem ég er ekki alveg laus við sjálfhverfni fletti ég fyrst upp á ritdómi um bókina mína, Opið land. Dóminn ritar Kolbein Óttarson Proppé. Herðubreið er nokkuð klárlega rit frjálslyndra jafnaðarmanna og því þótti mér áhugavert að ritstjórnin hafi ákveðið að sækja alla leið yfir til Vinstri grænna til að velja ritdómara. Kolbeinn byrjar á að hrósa bókinni svona almennt séð en eins og við mátti búast er hann hreint ekki sammála öllum þeim hugmyndum sem þar eru setta fram. Að öðru leyti virðist Kolbeinn þó býsna jákvæður í garð bókarinnar og segir að hún sé skrifuð á "lifindi og skemmtilegan hátt." Ég get ekki verið annað en ánægður með það. 

Annars er rétt að fagna útgáfu Herðubreiðar en mikil vöntun var á svona riti. Blaðið að stútfullt af áhugaverðum greinum og því ætla ég nú að leyfa mér þann munað að sökkva mér ofan í annað efni blaðsins en aðeins því sem snýr að mér sjálfum. Að þessum línum skrifuðum ætla ég að standa upp, rölta fram í eldhús og ná mér í nýmalað kaffi frá Guatemala, örlítið brot af dökku súkkulaði og koma mér svo fyrir í lesstólnum góða sem situr í útskotinu undir suðurglugganum.


Ein lítil flöktandi húsfluga í sviptivindum hnattrænna viðskipta

Krónan, blessunin, hefur núna undanfarið tekið eina af sínum reglubundnu salíbunum, með tilheyrandi taugatitringi fyrir alla þá sem gera viðskipti sín í íslenskum krónum. Greyið litla er dálítið eins og húsfluga sem hefur lent í sviptivindum alþjóðlegra peningamála, flöktir hálfstjórnlaus og má sín lítils í félagsskap við miklu stærri gjaldmiðla á ógnarstórum hnattvæddum markaði. Eftir að Ísland varð órofa hluti af hinu evrópska hagkerfi hefur komið í ljós að Seðlabankinn við Kalkofsveg ræður ekkert við ástandið, alveg sama hvað innlendir stýrivextir eru spenntir stíft fyrir vagninn. Það er ekki síst þess vegna að viðskiptamenn eru nú farnir að renna hýru auga til evrunnar.

Bitlaust stjórntæki

Í gær stóð Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál (RSE) fyrir ráðstefnu um alþjóðavæðingu og gjaldmiðla. Meðal annars var rætt hvort heppilegt væri fyrir Ísland að skipta krónunni út fyrir einhvern annan gjaldmiðil. Þá koma auðvitað ekki aðrir gjaldmiðlar en evran til greina enda eru utanríkisviðskipti Íslands að langstærstum hluta gerð í evrum. Ávinningurinn er augljós. Við upptöku evru verður hagkerfið stöðugra, vextir lægri og viðskiptakostnaður minni. Þá má gera ráð fyrir að viðskipti aukist þegar gengisáhætta minnkar. Helsti ókosturinn er á móti sá að Seðlabanki Íslands missir úr eigin hendi ákvörðun um innlenda stýrivexti. En semsé, reynslan sýnir að stýrivextir eru orðnir ansi bitlitlir og verðbólgudraugurinn, sá landsins forni fjandi, hlær bara að bankastjórn Seðlabankans og fer um landið og miðin eins og honum sjálfum sýnist.

Evruleiðir

Á ráðstefnunni var því meðal annars velt upp hvort Ísland geti hugsanlega tekið upp evru án þess að ganga í Evrópusambandið. Þessi umræða kemur relgulega fram og gengur í takt við þá áráttu okkar Íslendinga að taka sem mestan þátt í starfi ESB án þess þó að ganga formlega í sambandið. Það er hins vegar lítil skynsemi í þessari umræðu. Evrópusambandið gerir ekki tvíhliða samninga um upptöku evru við fullburða og fullvalda ríki sem standa fyrir utan ESB.

Íslensk stjórnvöld gætu hins vegar tekið einhliða ákvörðun um að taka upp evru. Hverju ríki er fullkomlega í sjálfsvald sett hvaða gjaldmiðil það notar. Íslendingar gætu þess vegna ákveðið að nota fé á fæti sem gjaldmiðil eða ull í mismunandi magni svo ein fjárafurð sé nefnd. Það væri þó lítið vit í ákvörðun um einhliða evruvæðingu, enda eru það aðeins vanburða örríki og ríki sem hafa gjörsamlega mistekist við eigin efnahagsstjórn sem hafa með einhliða hætti innleitt gjaldmiðil annars ríkis eða myntbandalags sem það á ekki aðild að. Þetta á til að mynda við um stríðshrjáð ríki í Mið-Ameríku og á Balkanskaga þar sem stjórnsýsla er í rúst og hagkerfið í molum. Ísland er ekki svoleiðis ríki. Ennfremur væri þetta óhemju dýr leið. Yfirvöld á Íslandi yrðu að byrja á því að kaupa evrur, seðla og mynt, að verðgildi til jafns við þær krónur sem eru í umferð og raunar gott betur til að eiga í varasjóði ef fólk vildi af einhverjum ástæðum taka peninga út af reikningum sínum við slík umskipti.

Við fulla aðild að Myntbandalagi Evrópu, að undangenginni aðild að ESB, myndum við hins vegar fá þessar sömu evrur í skiptum fyrir krónurnar okkar á fullu verði. Ef ríki uppfyllir á annað borð skilyrðin fyrir fullri aðild að Myntbandalagi Evrópu er vandséð hvað hag það hefur að því að taka evruna upp einhliða. Til viðbótar við þann augljósa galla að standa fyrir utan ákvarðanatökukerfi myntbandalagsins hefði Ísland og íslensku viðskiptabankarnir heldur ekki Seðlabanka Evrópu sem bakhjarl peningamálstefnunnar eins og aðildarríki EMU hafa.

Þessi grein birtist í Blaðinu í dag.


Vitringarnir í borginni

Þá eru vitringarnir búnir að leysa vanda miðborgarinnar. Það er búið að taka kælinn úr Vínbúðinni við Austurstræti. Menn voru eitthvað að kvarta undan drykkjulátum um nætur í miðbænum. Pólitíkusarnir voru ekki lengi að taka á vandanum og hentu kælinum umsvifalasut út úr Vínbúðinni. Búðin er raunar aðeins opin um hábjartan dag. En semsé, nú er búið að taka á þessu með þráðbeinum athafnastjórnmálum. Málið er dautt, farið, búið. Vandinn lá í kalda bjórnum. Menn verða nefnilega svo miklu mýkri og viðráðanlegri af vogum bjór. Það sér hver maður.

21 kílómetri að baki

Jæja, þetta tókst. 21 kílómetri að baki. Samt nokkuð frá mínum besta tíma. Kenni bakinu hiklaust um það, verkurinn greip fast utan um hryggjarsúluna strax í upphafi hlaups og hélt allan leiðina nokkuð aftur af hraðanum. En bakið stóðst eigi að síður álagið. Amnesty international fær því einhverjar krónur út á þetta.

Hálft maraþon

Þrátt fyrir að hafa meitt mig nokkuð illilega í bakinu um daginn ætla ég eigi að síður að reyna við hálft maraþon á morgun, eins og til hefur staðið. Það verður svo bara að koma í ljós hvort bakið þoli álagið. Þeir sem vilja að ég hlaupi fyrir þá til góðs geta heitið á mig (eða einhvern annan) hér.

Viltu vinna milljarð?

Seint í gærkvöld lauk ég við bókina Viltu vinna milljarð? eftir indverska höfundinn Vikas Swarup. Bókin, sem mánuðum saman hefur trónað á toppi íslenska metsölulistans, er ein af mörgum vel heppnuðum þýðingum JPV útgáfu sem komið hafa út undanfarið. Ég lenti raunar í smávægilegum vandræðum með lesturinn þegar ég gleymdi bókinni í sætisvasa flugvélar. Það kom þó ekki að sök því tólf ára dóttir mín, hún Sólrún, átti annað eintak. Ég gat því lokið við bókina. Það segir sitt um þessa bók, að við feðginin skulum bæði vera að lesa hana. Þetta er áleitin uppvaxtarsaga fátæks drengs í Indlandi. Sagan er hefðbundin en uppbyggingin er óvanaleg og um margt skemmtileg. Þrátt fyrir átakanlega sögu er frásögnin á einkar bjartsýnum nótum, einmitt þar liggur líklega galdur bókarinnar. 


Öfugt forspárgildi

Undanfarinn áratug hef ég þrisvar fengið á tilfinninguna að ég væri að missa af einhverju vegna þess að ég hef ekki tekið þátt í hlutabréfageiminu. Í öll þrjú skiptin hafa fjölmiðlar verið fullir af fréttum um velgengni á hlutabréfamörkuðum. Í öll skiptin hafa álitsgjafar boðað áframhaldandi velgengni. Í öll skiptin sem þessi tilfinning hefur komið yfir mig hefur ekki liðið á löngu áður en verðbréfamarkaðir tóku að hríðfalla. Þessa tilfinningu fékk ég síðast fyrir tæpum mánuði. Og viti menn, viku seinna fór að halla undan fæti. 


Landráðalög

28. febrúar 1933, eftir að kveikt hafði verið í þinghúsinu í Berlín samþykktu lýðræðislega kjörnir þingmenn í Þýskalandi sérstök lög sem ætlað var að bregðast við hryðuverkastarfsemi, líka þeirri og þýska þingið hafði orðið fyrir barðinu á. Þinghúsbrunalögunum þýsku (þ. Reichstagsbrandverordnung) var ætlað að auðvelda stjórnvöldum að vernda borgarana og ríkið fyrir hryðjuverkamönnum og öðrum óvinum ríkisins. Lögin heimiluðu ýmiskonar eftirlitsstarfsemi, auðvelduðu handtökur á grunuðum einstaklingum og fólu í sér almenna  skerðingu á ýmsum borgaralegum lýðréttindum sem áður höfðu verið í gildi í þýsku lagasafni. Þessi lög notaði Adolf Hitler svo til að hrifsa til sín öll völd í Þýskalandi. Eftirleikinn þekkja allir.

45 dögum eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september 2001 samþykktu lýðræðislega kjörnir þingmenn í Bandaríkjunum sérstök lög, svokölluð föðurlandslög (e. Patriot act) sem hafa að markmiði að auðvelda bandarískum stjórnvöldum að berjast gegn viðlíka hryðjuverkum og Bandaríkin höfðu orðið fyrir. Lögin heimiluðu ýmiskonar eftirlitsstarfsemi, auðvelduðu handtökur á grunuðum einstaklingum og fólu í sér almenna  skerðingu á ýmsum borgaralegum lýðréttindum sem áður höfðu verið í gildi í bandarísku  lagasafni.

Eftirlit og njósnir

Það kann að vera að einhverjum þyki ósanngjarnt að bera þessa tvo lagabálka saman en líkindin eru  eigi að síður slík að það væri fáránlegra að gera það ekki. Vissulega gengu þýsku lögin lengra en þau bandarísku og vissulega hefur sú þróun sem síðar varð í þýskalandi ekki átt sér stað í Bandaríkjunum. Sem betur fer. Hinu er ekki að leyna að það er ansi margt í þeim lagabálki sem Bush-stjónin vill kenna við föðurlandið sem vekur ugg, ekki síst í ljósi samanburðarins við Þýskaland á sínum tíma.

Eins og þýsku þinghúsbrunalögin heimila bandarísku föðurlandslögin stjórnvöldum að hafa eftirlit með grunuðum einstaklingum án þess að þeir fái að vita af eftirlitinu. Bandarísk yfirvöld fengu til að mynda heimild til að vakta tölvupóstsendingar, opna póstlögð bréf, hlera síma og svo framvegis. Allt án þess að þurfa að sækja nokkra heimild frá nokkru einasta dómsvaldi. Yfirvöld fengu víðtæka heimild til að safna ólíklegustu upplýsingum um fólk, svo sem heilsufarsupplýsingum, fjárhagsupplýsingum og jafnvel bara hvað fólk kýs að lesa heima hjá sér á kvöldin. Til að mynda var bókasöfnum gert skilt að greina frá útlánum til grunaðra einstaklinga ef þar til bær yfirvöld fara fram á það. Læknar, bóksalar og fjármálastofnanir verða að gera slíkt hið sama. Háskólum var meira að segja gert að veita álíka upplýsingar um grunaða nemendur. Sömu lög banna þessum aðilum að greina nokkrum manni frá því að upplýsingarnar hafi verið sóttar. Samband félaga um borgaraleg lýðréttindi í Bandaríkjunum (American Civil Liberties Union) hafa þó fundið út að bandarísk stjórnvöld sækja eftir slíkum upplýsingum um að minnsta kosti 30 þúsund bandaríkjamenn á hverju einasta ári.

Hér hefur aðeins verið fjallað um fáeina þætti sem lúta að bandarískum borgurum. Þar fyrir utan heimila lögin allskonar eftirlitsstarfsemi erlendis auk þess sem bandarísk stjórnvöld hafa heimild til að halda grunuðum erlendum ríkisborgurum föngnum án dóms og laga eins lengi og þeim sjálfum hentar.

Frelsi, lýðræði, mannréttindi

Lýðræðisríki Vesturlanda voru lengi að festa í sessi þau megingildi sem þjóðfélög í okkar heimshluta hafa síðan hvílt á; virku lýðræði, frelsi einstaklingsins og vernd mannréttinda. Í eina tíð voru Bandaríkin í farabroddi þeirrar baráttu. Föðurlandslögin (sem Bandaríkjaþing staðfesti að mestu á ný í mars 2006) hafa vegið svo illilega að þessum grunnstoðum vestrænna samfélaga að réttnefnd eru þetta ekkert annað en landráðalög.

Þessi grein birtist í Blaðinu 10. ágúst 2007.


Sumarið loks komið til Englands

Vatnsveður og flóð gerðu íbúum Bretlands lífið leitt framan af sumri. Sumarið virðist hins vegar loksins komið núna, allavega hér í London. Fór að skokka í Regents park snemma í morgun í blíðskaparveðri. Borgarbúar virðast hafa tekið gleði sína á ný ef marka má hvað margir flatmaga nú í görðum borgarinnar og sleikja sólina sem glennir sig vel og lengi á milli léttra skýabólstra. Á eftir liggur leiðin í Hamley's, ætlum að athuga hvort Jón Ásgeir og félagar hafi eitthvað skemmtilegt dót að selja okkur.


Morgunskokk í Hyde park

Æfingar fyrir Reykjavíkurmaraþonið standa nú sem hæst. Við Aino fórum ca 14 km áðan, hún kom alblóðug til baka með svæsið hælsæri, en lét það ekki á sig fá. Stefnan er tekin á hálft maraþon 18. ágúst. Ef það gengur verður þetta líklega í fimmta sinn sem ég fer þá vegalengd. Það er alltaf sérstök stemmning í Reykjavík svona stuttu fyrir hlaup, varla þverfótað fyrir skokkurum út um allar stéttir. Næstu viku verð ég hins vegar í London sem setur ákveðið strik í hlaupaáætlunina, ætla samt að reyna að ná nokkrum stuttum morgunskokktúrum í Hyde park.


Næsta síða »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband