Leita í fréttum mbl.is

Ein lítil flöktandi húsfluga í sviptivindum hnattrænna viðskipta

Krónan, blessunin, hefur núna undanfarið tekið eina af sínum reglubundnu salíbunum, með tilheyrandi taugatitringi fyrir alla þá sem gera viðskipti sín í íslenskum krónum. Greyið litla er dálítið eins og húsfluga sem hefur lent í sviptivindum alþjóðlegra peningamála, flöktir hálfstjórnlaus og má sín lítils í félagsskap við miklu stærri gjaldmiðla á ógnarstórum hnattvæddum markaði. Eftir að Ísland varð órofa hluti af hinu evrópska hagkerfi hefur komið í ljós að Seðlabankinn við Kalkofsveg ræður ekkert við ástandið, alveg sama hvað innlendir stýrivextir eru spenntir stíft fyrir vagninn. Það er ekki síst þess vegna að viðskiptamenn eru nú farnir að renna hýru auga til evrunnar.

Bitlaust stjórntæki

Í gær stóð Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál (RSE) fyrir ráðstefnu um alþjóðavæðingu og gjaldmiðla. Meðal annars var rætt hvort heppilegt væri fyrir Ísland að skipta krónunni út fyrir einhvern annan gjaldmiðil. Þá koma auðvitað ekki aðrir gjaldmiðlar en evran til greina enda eru utanríkisviðskipti Íslands að langstærstum hluta gerð í evrum. Ávinningurinn er augljós. Við upptöku evru verður hagkerfið stöðugra, vextir lægri og viðskiptakostnaður minni. Þá má gera ráð fyrir að viðskipti aukist þegar gengisáhætta minnkar. Helsti ókosturinn er á móti sá að Seðlabanki Íslands missir úr eigin hendi ákvörðun um innlenda stýrivexti. En semsé, reynslan sýnir að stýrivextir eru orðnir ansi bitlitlir og verðbólgudraugurinn, sá landsins forni fjandi, hlær bara að bankastjórn Seðlabankans og fer um landið og miðin eins og honum sjálfum sýnist.

Evruleiðir

Á ráðstefnunni var því meðal annars velt upp hvort Ísland geti hugsanlega tekið upp evru án þess að ganga í Evrópusambandið. Þessi umræða kemur relgulega fram og gengur í takt við þá áráttu okkar Íslendinga að taka sem mestan þátt í starfi ESB án þess þó að ganga formlega í sambandið. Það er hins vegar lítil skynsemi í þessari umræðu. Evrópusambandið gerir ekki tvíhliða samninga um upptöku evru við fullburða og fullvalda ríki sem standa fyrir utan ESB.

Íslensk stjórnvöld gætu hins vegar tekið einhliða ákvörðun um að taka upp evru. Hverju ríki er fullkomlega í sjálfsvald sett hvaða gjaldmiðil það notar. Íslendingar gætu þess vegna ákveðið að nota fé á fæti sem gjaldmiðil eða ull í mismunandi magni svo ein fjárafurð sé nefnd. Það væri þó lítið vit í ákvörðun um einhliða evruvæðingu, enda eru það aðeins vanburða örríki og ríki sem hafa gjörsamlega mistekist við eigin efnahagsstjórn sem hafa með einhliða hætti innleitt gjaldmiðil annars ríkis eða myntbandalags sem það á ekki aðild að. Þetta á til að mynda við um stríðshrjáð ríki í Mið-Ameríku og á Balkanskaga þar sem stjórnsýsla er í rúst og hagkerfið í molum. Ísland er ekki svoleiðis ríki. Ennfremur væri þetta óhemju dýr leið. Yfirvöld á Íslandi yrðu að byrja á því að kaupa evrur, seðla og mynt, að verðgildi til jafns við þær krónur sem eru í umferð og raunar gott betur til að eiga í varasjóði ef fólk vildi af einhverjum ástæðum taka peninga út af reikningum sínum við slík umskipti.

Við fulla aðild að Myntbandalagi Evrópu, að undangenginni aðild að ESB, myndum við hins vegar fá þessar sömu evrur í skiptum fyrir krónurnar okkar á fullu verði. Ef ríki uppfyllir á annað borð skilyrðin fyrir fullri aðild að Myntbandalagi Evrópu er vandséð hvað hag það hefur að því að taka evruna upp einhliða. Til viðbótar við þann augljósa galla að standa fyrir utan ákvarðanatökukerfi myntbandalagsins hefði Ísland og íslensku viðskiptabankarnir heldur ekki Seðlabanka Evrópu sem bakhjarl peningamálstefnunnar eins og aðildarríki EMU hafa.

Þessi grein birtist í Blaðinu í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband