Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Glapræði

84glapraediFór á bókamarkaðinn í Perlunni í gær og keypti sex bækur. Sá þar líka bókina mína, Glapræði, sem kom út fyrir jólin 2005, á spottprís. Þetta er stutt skemmtisaga um ráðviltan embættismann í Reykjavík sem söðlar um í lífi sínu. 

Það var annars merkileg reynsla að gefa út skáldsögu, en ég er vanari að fást við fræðiskrif. Umstangið í kringum fræðibækur er allt öðru vísi og lágstemmdara en í skáldskapnum. Það birtust, eftir því sem ég best veit, fjórar umsagnir um Glapræði á sínum tíma í helstu prentmiðlum. Fyrsti dómurinn var mjög loflegur og bókin sögð bráðskemmtileg. Næstu tveir ritdæmendur voru hins vegar gjörsamlega ósammála þeim fyrsta og tættu bókina í sig, sögðu hana alvonda, eða svo gott sem. Vikuna eftir varð ég að ganga um bæinn með hauspoka á höfðinu. Vondu dómarnir höfðu einnig sýnileg áhrif á söluna. Síðasta umsögnin birtist ekki fyrr en eftir jól og var mjög lofsamleg, bókin var sögð virkilega skemmtilegt. Og viti menn, ekki svo löngu eftir áramótin var bókin komin í sjötta sæti á metsölulista Pennans-Eymundson. Sjálfur hef ég ekki hugmynd um hvort góðu dómarnir eða þeir vondu sé réttari lýsing.

En semsé, þeir sem hafa áhuga á að meta það sjálfir geta nú fengið bókina á spottprís á bókamarkaðinum í Perlunni.


Ísland verður áfram Evrópumeistari í háu matvælaverði

Matvælaverð lækkaði í gær. Það er vissulega rétt að byrja þessa grein á að fagna aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að lækka matvælaverð. Ég geri heldur enga athugasemd þótt þessar aðgerðir komi fram fyrst núna, rétt tólf mínútum fyrir kosningar. En því miður er staðreyndin eigi að síður sú að aðgerðirnar eru allt of takmarkaðar. Þær taka alls ekki á hinum eiginlega vanda. Því miður munu þær duga allt of skammt til að koma hér á eðlilegu matvælaverði.

Gott skref ...
Aðgerðir ríkisstjórnarinnar nú fela fyrst og fremst í lækkun á virðisaukaskatti og afnámi vörugjalda á fjölmargar vörutegundir. Sem er sannarlega gott skref og í hárrétta átt. Til viðbótar hefur ríkisstjórnin kynnt til sögunnar fjörutíu prósenta lækkun tolla og rýmkum á tollkvótum á sumum innfluttum matvælum.

Tollalækkunin, sem ætti samkvæmt öllu að vera langmikilvægasta aðgerðin, missir því miður marks. Þrátt fyrir að það hljómi óneitanlega vel að lækka tolla um heil fjörutíu prósent þá mun það hafa lítil áhrif. Sú aðgerð er því miður lítið annað en blekking. Tollarnir verða nefnilega eftir sem áður svo háir að innflutningur verður áfram óhagkvæmur. Og þar sem tollkvótarnir eru seldir hæstbjóðanda þá heldur það verðinu áfram uppi. Ókleifir tollamúrar og aðrar innflutningshömlur, sem til að mynda birtast í formi óhemju flókins reglugerðafargans, munu áfram halda matvælaverði of háu á Íslandi.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar nú eru eiginlega eins og að gefa botlangasjúklingi verkjatöflu þegar uppskurðar er þörf. Það getur verið að verkjataflan slái á óþægindin en hún læknar ekki sjúkdóminn.

... en dugar of skammt
Gerum smá samanburð. Samkvæmt mati Hagstofunnar var verð á matvælum og óáfengum drykkjarvörum á Íslandi 62 prósent yfir meðalverði í Evrópusambandinu árið 2005. Noregur mældist næst á eftir Ísland, 52 prósent yfir meðaltalinu. Sviss kom þar á eftir, 40 prósentum yfir meðaltali. Matvælaverð á þeim Norðurlandanna sem eru í ESB, og Ísland á að geta borið sig saman við, var hins vegar töluvert ódýrara en á Íslandi. Þó reyndust þau öll nokkuð yfir meðaltalsverðinu. Danmörk reyndist 30 prósent yfir meðaltalsverði, enda er virðisaukaskattur þar í landi einkar hár, en matvælaverð í Svíþjóð var hins vegar aðeins tólf prósent af meðaltalsverði í ESB. Í Finnlandi var verðið ívið hærra, eða 16 prósent.

Fyrir lækkunina í gær var Ísland Evrópumeistari í háu matvælaverði. Hagstofan gerir ráð fyrir að aðgerðir ríkisstjórnarinnar nú muni lækka matvælaverð um níu prósent. Fjármálaráðherra vonast að vísu til að lækkunin verði meiri, en hans eigin Hagstofa segir það semsé vera óskhyggju hjá ráðherranum. Framangreindur samanburður sýnir að því miður er líklegt að við munum halda hinum vafasama titli þrátt fyrir níu prósenta lækkun í gær.
 
Ofverndunarárátta
Landbúnaður á Íslandi er líklega ein aflokaðasta atvinnugrein í heimi. Til að mynda eru fáar kjötafurðir sem komast yfir tollamúrana og í gegnum reglugerðafarganið Þetta skrýtna kerfi hefur ekki aðeins skilað einu allra hæsta matvælaverði í heimi heldur eru bændur jafnframt meðal snauðustu starfsstétta landsins. Í því ljósi má spyrja hvort það sé einber tilviljun að landbúnaður er einmitt sá atvinnuvegur á Íslandi sem er hvað lokaðastur gagnvart útlöndum?

Þessi grein birtist í Blaðinu í dag.


Ungdomshuset

Við Hrafnhildur sitjum hérna í sófanum heima og fylgjumst með óeirðunum á Norrebrogade í beinni útsendingu í danska ríkissjónvarpinu. Lögreglan lét loks til skarar skríða í dag og réðist inn í Ungdomshuset sem stendur við Jagtvej, rétt út af Norrebrogade. Molotovkokteilarnir fljúga í allar áttir og brenna svo skært að ég er nú loks farin að þekkja Dani aftur fyrir sömu þjóð og var í landinu þegar ég bjó þar fyrir um áratug.

« Fyrri síða

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband