Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Geir í góðum gír

Einhverjir hafa verið að kvarta undan því að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, haldi sig heldur til hlés í þjóðmálaumræðunni. Spyrja jafnvel hvort forsætisráðherrann sé týndur?

Ég kvarta ekki undan því.

Það er algjör óþarfi að forsætisráðherra sé hlaupandi fyrir allar myndavélar og gasprandi í hvern hljóðnema sem réttur er að honum.

Raunar virðist mér Geir höndla embættið betur heldur en flestir fyrirrennarar hans. Halldór náði aldrei tiltrú þjóðarinnar á meðan hann sat í þessum stól og í það minnsta helmingur þjóðarinnar þoldi ekki Davíð.

En þrátt fyrir að margir vilji losna við ríkisstjórnina, sem er orðin þaulsetin, þá heyri ég fáa sem amast sérstaklega yfir embættisverkum Geirs sem forsætisráðherra.


mbl.is Boðar frekari umbætur í skattamálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dönum bannað að reykja

Reykingar eru næstum jafntengdar danskri þjóðarsál og öldrykkja og smurbrauðsát. Vei þeim sem reynir að banna Dönum að reykja. Þegar ég var við nám í Kaupmannahöfn var svo gott sem alls staðar reykt. Meira að segja í kennslustofunni í stjórnmálafræðideild Kaupmannahafnarskóla við Rosenborggade. Reglan var sú að það mátti reykja í kennslutímum ef kennarinn leyfði og enginn mótmælti. Allan þann tíma meðan ég var þar við nám vogaði sér ekki nokkur maður að mótmæla.

Þetta er svona.


mbl.is Danskir reykingamenn fá líklega frest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafnsækin starfsemi

"Margskonar hafnsækin starfsemi fer nú inn á svæðið." Svona komst fréttamaður Sjónvarps að orði þegar hann sagði frá því að margskonar starfsemi fengi inni í nýrri höfn á Reyðarfirði. Höfnin mun heita Mjóeyrarhöfn. Ekki er ég nú alveg með það á hreinu hvað hafnsækin starfsemi er nákvæmlega, en hafnarstarfsemi er hins vegar vel þekkt starfsemi og hefur lengi verið stunduð á Íslandi.

Þetta er svona.


Eitt lítið v

Súrrealískt fyrirbæri þessi mannanafnanefnd. Ég má ekki skíra dóttur mína Siv, ekki einu sinni þótt ég væri sannkristinn Framsóknarmaður og heillaður aðdáandi Sivjar Friðleifsdóttur heilbrigðisráðherra. Það er nefnilega harðbannað að hafa v í Siv. Hins vegar sér þessi opinbera furðunefnd, sem svona föðurlega ræður yfir nöfnum manna, ekkert athugavert við að ég skíri dóttur mína Eufemía, Róbjörg, Líba og Marit. 

Nema að þessir nefndarmenn séu bara svona miklir húmoristar, - misskildir að vísu, en húmoristar eigi að síður. Ég átta mig ekki alveg á því, en man að Steingrímur Sævar(r) hló nú ekki þegar hann lýsti viðskiptum sínum við nefndina. Hann mátti nefnilega ekki, ef ég man þetta rétt, hafa seinna r-ið í Sævarr. Man hins vegar ekki hvort Árni Snævarr hafi lent í stælum við mannanafnanefnd með sitt nafn.

Þetta er svona.


mbl.is Róbjörg og Marit færð á mannanafnaskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ánægjuleg frétt

Ánægjulegar fréttir að nú eigi loks að tvöfalda Vesturlandsveg frá Kjalarnesi til Borgarness.

Af því tilefni má ég til með að benda á tvær greinar sem ég ritaði nýlega í Blaðið um glímuna sem við svo mörg eigum við trukkana á þessum vegi.

Skattleggjum trukkana út af vegunum

Hefnd trukkana

Þetta er svona.


mbl.is Gert ráð fyrir tvöföldun Vesturlandsvegar að Borgarnesi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland greiðir fyrir stækkun ESB

Þetta mátti sjá fyrir. Í haust birti ég grein í ráðstefnuritinu Rannsóknir í félagsvísindum VII sem Háskóli Íslansds gefur út. Þar sagði ég að Ísland hefði veika samningsstöðu og myndi á endanum þurfa að greiða fyrir stækkun ESB.

Sjá grein: http://www.bifrost.is/kennarar/2006/default.asp?sid_id=28309&tId=1

Þetta er svona.


mbl.is ESB gerir alvöru úr hótunum gagnvart EFTA-ríkjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki var það mikið

Ekki reyndist nú margt bitastætt koma fram um aðgerðir af hálfu ríkisstjórnarinnar til að lækka matvælaverð.

Til viðbótar við smáskammtalækkun tolla sem kynnt var um daginn á, svo gott sem, að láta duga að fylgjast með verðlagsþróun. Sem er svo sem gott og blessað, en mun duga skammt.

Eina leiðin til lækka matvælaverð að einhverju viti er að losa mun betur um viðstkipahöftin. Þetta vita menn auðvitað. En ...

Þetta er svona.


mbl.is Miklu magni upplýsinga um verðlagsbreytingar safnað saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópumet í háu matvælaverði

Það verður spennandi að sjá hverju ríkisstjórnin ætlar að spila út á þessum blaðamannafundi (sjá tengil að neðan) til að tryggja lækkun matvælaverðs.

Landbúnaður á Íslandi er ein aflokaðasta atvinnugrein í heimi.

Afleiðingin af þessari landbúnaðarstefnu innilokunnarer er að að Ísland á Evrópumet í háu matarverði. Matvælaverð á Íslandi er það dýrasta í allri Evrópu, - og þótt víðar væri leitað.

Árið 2005 var verð á matvælum og óáfengum drykkjarvörum 62 prósent yfir meðalverði í Evrópusambandinu.  Noregur mældist næst á eftir Ísland, 52 prósent yfir meðaltalinu. Sviss kom þar á eftir, 40 prósentum yfir meðaltali. Matvælaverð á þeim Norðurlandanna sem eru í ESB, og Ísland á að geta borið sig saman við, var töluvert ódýrara en á Íslandi. Þó reyndust þau öll nokkuð yfir meðaltalsverðinu. Danmörk reyndist 30 prósent yfir meðaltalsverði en matvælaverð í Svíþjóð var hins vegar aðeins tólf prósent af meðaltalsverði í ESB. Í Finnlandi verðið ívið hærra, eða 16 prósent. 
 
Upp úr nýliðnum áramótum var gengið frá nýjum samningi við ESB sem fól í sér afar takmarkaða tollalækkun, sem dugar skammt til að lækka matvælaverð hér á landi svo nokkru nemi. Það grátlega er að Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur  margoft lýst yfir áhuga á að semja við Íslendinga um mun meira frelsi í viðskiptum með landbúnaðarvörur, sem myndi gilda í báðar áttir. Ríkisstjórn Íslands hefur hingað til ekki viljað það. Himinhá vörugjöld bæta svo gráu ofan á svart.

Þetta skrýtna kerfi hefur ekki aðeins skilað einu allra hæsta matvælaverði í heimi heldur eru bændur jafnframt meðal snauðustu starfsstétta landsins.

Þetta er svona.

Ætli það sé einber tilviljun að landbúnaður er einmitt sá atvinnuvegur á Íslandi sem er hvað lokaðastur gagnvart útlöndum?

 
mbl.is Boðað til blaðamannafundar um lækkun matvælaverðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband