Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Fullveldi

Á morgun eru 89 ár liðin síðan Ísland varð fullvalda ríki. Á þeim tíma sem liðinn er hefur íslensk þjóð færst frá örbirgð til bjargálna og nú í vikunni kom í ljós að lífskjör eru víst hvergi betri í heiminum samkvæmt lista Sameinuðu þjóðanna. Ekki amalegur árangur það, þótt þessi listi sé vissulega ekki gallalaus. Já, fullveldið hefur sannarlega reynst okkur vel. Sumir vilja jafnvel meina að fullveldið sé mikilvægasta auðlind Íslands, mikilvægari en fiskurinn, fossarnir og jarðvarminn til samans. Í öllu falli er fullveldið ansi mikilvægt í hugum okkar Íslendinga og flestir eru sammála um að því megi alls ekki glata í óvissu umróti nútímans.

Óljóst fyrirbæri

En hvað er fullveldi? Því er öllu erfiðara að svara. Raunar er ekkert einhlítt svar til við því hvað fullveldi er. Fullveldi er ekki eins og mold fósturjarðarinnar sem hægt er að koma við, taka á og róta í. Þótt Íslendingar séu staðráðnir í að vernda fullveldið er ekki til neinn sameiginlegur skilningur á því hvað það merkir í raun og veru. Við getum þó skoðað nokkrar skilgreiningar.

Í grunninn tekið felur hugtakið fullveldi einfaldlega í sér þá trú að einstaklingarnir ráði sér sjálfir; semsé fullveldi einstaklingsins. Skilningur Íslendinga á fullveldinu, eins og hann varð til í sjálfstæðisbaráttunni, hefur þó frekar snúið að fullveldi þjóðarinnar sem heildar. Raunar voru Íslendingar lengst af ansi torgryggnir á einstaklingsfrelsi, eins og vistabandið illræmda var til marks um. Við erum því hér að skoða fullveldi þjóða, ekki einstaklinga. Sem er raunar enn flóknara viðfangs. Í slíkum skilningi merkir fullveldi þó kannski einna helst tvennt; annars vegar að ríkið hafi einkarétt á að ráða málefnum innan eigin landamæra og hins vegar rétt til að taka þátt í starfi alþjóðastofnana.

Stjórn innanlands

Samkvæmt hefðbundnum skilningi felur fullveldið semsé í aðra röndina í sér að ríki eigi að ráða sínum innanlandsmálefnum sjálf, án utanaðkomandi íhlutunar. Á undanförnum áratugum hefur hnattvæðing viðskipta, menningar og vísinda hins vegar gert ríki heims gagnkvæmt háð hvert öðru (e. inderdepedent). Í samræmi við það hefur skilningur manna á fullveldishugtakinu breyst. Um daginn gerðist það til að mynda að vandræðagangur á húsnæðislánamarkaði í Bandaríkjunum varð til að fella gengi hlutabréfa í Kauphöll Íslands. Ekkert frekar en að íslenska ríkið ráði gengi hlutabréfa á markaði getur það ákveðið að á Íslandi skuli vera hreint loft, allavega ekki ef mengunin berst hingað frá öðrum löndum. Ríki heims geta með öðrum orðum ekki orðið fullvalda í umhverfismálum nema með því að vinna saman að mengunarvörnum. Þess vegna þurfum við Kyoto. Það er líka þess vegna sem ríki heims hafa í síauknu mæli kosið að deila fullveldi sínu í sameiginlegum stofnunum til að takast á við sameiginleg viðfangsefni.

Þátttaka í alþjóðastofnunum

Fullveldi ríkja í hnattvæddum heimi felst því núorðið fyrst og fremst í réttinum til að taka þátt í starfi alþjóðastofnana, þar sem ákvarðanir einstakra svæða og heimsbyggðarinnar allrar eru teknar. Texas og Bæheimur eru ekki fullvalda ríki og geta því ekki tekið þátt í starfi alþjóðastofnana, nema í gegnum ríkisstjórnir sínar. Ísland er hins vegar frjálst og fullvalda ríki og hefur í krafti þeirrar stöðu fulla heimild til að taka þátt í starfi alþjóðastofnana sem hafa mótandi áhrif á lífið hér heima á Íslandi. Það er því ekki síst með virkri þátttöku í alþjóðlegu samstarfi sem við tryggjum fullveldi Íslands á tuttugustu og fyrstu öldinni.

24 stundir. 30. nóvember 2007.


Matvandur?

Steinsnar frá húsinu þar sem ég bý er sjoppa, þetta er gerðaleg sjoppa sem þjónustar stórt hverfi í Vesturbæ Reykjavíkur. Samt er aldrei neitt til í henni sem mig langar í. Á kvöldin finnst mér stundum gott að fá popp, sódavatn og svolítið dökkt súkkulaði. Ég hygg að svo sé um marga. Ég vil poppa mitt popp sjálfur en í sjoppunni er bara til örbylgjupopp, reyndar í miklu úrvali. Sódavatn er einn besti drykkur sem búinn er til en í sjoppunni er bara til kolsýrt vatn með bragðefnum og sykri í flestum tilvikum líka. Ég er veikur fyrir súkkulaði og eins og allir almennilegir súkkulaðifíklar læt ég ekki annað inn fyrir mínar varir en dökkt súkkulaði, því dekkra því betra. En í sjoppunni er aðeins til metnaðarlaust mjólkursúkkulaði og svo suðusúkkulaði sem á að nota í matargerð en ekki til að gæða sér á að kveldi. Þetta er pínkulítið pirrandi því það er langt í næstu sjoppu, - og ástandið er eiginlega alveg eins þar.

Ólöglegt sjónvarp

Þetta væri ólöglegt ef fjölmiðlalög Davíðs Oddsonar hefðu náð fram að ganga. Í lögunum var lagt blátt bann við að sami aðili ræki hvoru tveggja prentmiðil og ljósvakamiðil. Það er sérstaklega áhugavert í þessu samhengi að Morgnublaðið studdi á sínum tíma fjölmiðlalög Davíðs.

Hundalógíg

Ég verð að játa að ég hreinlega skil þetta ekki. Femínistar hafa húðskammað Egil fyrir að hafa ekki nógu margar konur í þættinum sínum. En þegar hann svo býður þeim í þáttinn þá neita þær að mæta. Kannski er ég bara ekki nógu greindur til að skilja svona fágaða lógíu.
mbl.is Konur sniðganga Silfrið í mótmælaskyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á náttborðinu

Bunkinn á náttborðinu hefur vaxið óhóflega. Ég kom heim í gær eftir mánaðardvöl í Kaupmannahöfn með sautján bækur í bakpokanum, allar útgefnar af stjórnmálafræðideild Kaupmannahafnarháskóla. Mér leist nú ekki betur á staflann í morgun en svo að ég lét það verða mitt fyrsta verk að skreppa niður í Eymundson og ná mér í þrjár nýjar íslenskar skáldsögur, Rimla hugans eftir Einar Má, Bernharð Núll eftir Bjarna Bjarnason og Konung Norðursins eftir Val Gunnarsson. Skreið svo aftur upp í rúm með Bernharð Núll og hef skemmt mér konunglega við lesturinn. Það er alltaf sérstök stemmning í textum Bjarna.

Síðastliðnar vikur hef ég vinnunnar vegna kafað á bólakaf í tvö lykilrit sem greina íslenskt þjóðerni, annars vegar Íslenska þjóðríkið eftir Guðmund Hálfdanarson og hins vegar doktorsritgerð Birgis Hermannssonar, Understanding nationalism. Til að halda geðheilsunni hélt ég mér á floti með aðstoð tveggja norræna krimma á milli þess sem ég sökti mér ofan í rannsóknir Guðmundar og Birgis. Las Tíma nornarinnar eftir Árna Þórarinsson og Ísprinsessuna eftir Camillu Lackerg jöfnum höndum. Báðar eru fínar fyrir sinn hatt en ég gat ekki varist þeirri hugsun hvað söguhetjur í krimmum falla í ólík mót hvað kynhlutverk varðar. Iðulega eru karlkyns aðalsöguhetjur hinir verstu gallagripir en þessu er öfugt farið með konurnar, í krimmum þar sem söguhetjan er kvenkyns er hún gjarnan hrein fyrirmyndarmanneskja með sitt á hreinu. Skrítið!.

Svo langar mig einnig að nefna hér bók Daviðs Loga Sigurðssonar, Velkomin til Bagdat, sem ég las einnig um daginn. Mæli með henni við alla sem hafa áhuga á stjórnmálum í víðara samhengi en aðeins því sem snýr að okkur hér innanlands.

ES: Ég er hættur að gefa einstaka bókum stjörnur í bókaumfjöllun hér á síðunni, finnst það hreinlega ekki viðeigandi. Er því líka búinn taka út listann sem hér hefur verið að finna með stjörnugjöf yfir nýlesnar bækur.


3 - 0

Jæja, þá geta útrásarvíkingarnir farið munda veskin. Annars er óskalistinn fyrir jólinn svona: 1. Parken, 2. Hviids, 3. Tivolí.

13 - 2

Ég er á leiðinni á Parken í kvöld. Þrjátíu árum eftir 14 - 2 niðurlægingunni mætast Ísland og Danmörk á sama velli. Það er kominn tími til að hefna ófaranna. Ég sagði í pistli um daginn að ef þessi leikur tapast væri réttast að kaupa bara þennan fjandans völl. Jón Ásgeir, Björgólfur og hinir útrásarvíkingarnir mega því vera tilbúnir með veskið.

Málefni og ómálefni

Stundum falla stjórnmálamenn og aðrir sem taka þátt í opinberri umræðu í þá freistni að vega að starfsheiðri manna eða gera mönnum upp annarlegar hvatir í stað þess að takast á við þann málflutning sem menn hafa fram að færa. Enda svo miklu auðveldara. Í nýlegri færslu á bloggsíðu sinni kaus Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, að dylgja um fræðilegan heiður Guðmundar Ólafssonar, hagfræðings, í stað þess að láta duga að mæta rökum hans málefnalega. Birkir segir meðal annars:

"Ekki skyldi vera að málflutningur Guðmundar Ólafssonar helgist af því að ná fram pólitískum markmiðum frekar en að fjalla fræðilega um málaflokkinn? Skyldi kennsla hans í hagfræði við þessa háskóla vera með þessum hætti?"

Mér leiðist svona málflutningur og brá því á leik í færslu hér að neðan. Ég geri ráð fyrir að glöggir lesendur þessarar síðu hafi tekið eftir að þar er ekki á ferð mitt orðalag heldur afritaði ég einfaldlega færslu Birkis Jóns (þann hluta sem fjallaði um Guðmund) og skipti út nafni Guðmundar Ólafssonar fyrir hans eigið. Síðan staðfærði ég hans eigin málflutning og snéri upp á hann sjálfan. Ég sé að þessi litla æfing hefur vakið viðbrögð og svo virðist jafnvel sem sumir telji að stjórnmálamenn hafi rýmri rétt en annað fólk til að vera ómálefnalegir.


Um orðspor Alþingis og Framsóknarflokksins

Birkir Jón Jónsson, sem kynnir sig stjórnmálamann á Alþingi og í Framsóknarflokknum, fellur í þann grautfúla pytt sumra stjórnmálamanna sem þrýtur rök að ráðast að starfsheiðri manna. Ég get tekið undir með honum að menn eigi að vanda sig en er ósammála þeirri fáránlegu greiningu hans að Guðmundur Ólafsson, hagfræðingur, beri ábyrð á vanda Framsóknarflokksins. Það er áhyggjuefni fyrir orðspor Alþingis og Framsóknarflokksins að stjórnmálamaður á þeirra vegum skuli koma fram á völlinn með slíkar rangfærslur sem raun ber vitni. Ekki skyldi vera að málflutningur Birkis Jóns Jónssonar helgist af því að ná fram persónulegum markmiðum frekar en að fjalla pólitískt um málaflokkinn? Skyldi afgreiðsla hans á málefnum almennings á Alþingi vera með þessum hætti? Ég á bágt með að trúa því, en hvað á maður að halda? 


Jónas í húsi Jóns

Í kvöld fer fram í Jónshúsi í Kaupmannahöfn hátíðardagskrá til að minnast tvö hundruð ára afmælis Jónasar Hallgrímassonar. Jónas fæddist á Íslandi 16. nóvember 1807. Hann kom til Kaupmannahafnar 1932 og dó af slysförum hér í borg 26. maí 1845. Þessa sögu þekkja allir Íslendingar og enn þann dag í dag má sjá sorgbitna landa vora stjákla fyrir utan St. Pederstræde 140 þar sem Jónas hrasaði niður stiga á leið upp í herbegið sitt og fótbrotnaði. Sumir ráfa ráðleysislega um fyrir utan, aðrir láta duga að standa hnípnir hinum megin við götuna og íhuga örlög Jónasar og íslensku þjóðarinnar en saga skáldsins er löngu orðin sameign allra Íslendinga. Nokkrir áræða jafnvel að hringja bjöllu og fá að skoða stigann örlagaríka. Danskir vegfarendur geta kannski haldið að þetta séu útigangsmenn, geðsjúklingar eða jafnvel þjófar að leita að heppilegri inngönguleið í húsið en íbúarnir eru alvanir að finna fyrir utan húsið sitt Íslendinga í uppnámi yfir þessu hroðalega slysi sem varð fyrir 162 árum. Daginn eftir dó sjálfur ástmögur íslensku þjóðarinnar á dönsku sjúkrahúsi, aðeins 37 ára gamall.

Í dag, á tvö hundruð ára afmæli Jónasar, fer fram í Þjóðleikhúsinu heima á Íslandi vegleg minningarhátíð um ævi og örlög Jónasar en það er ekki síður við hæfi að halda á sama tíma minningarhátíð í Jónshúsi, hér í Kaupmnannhöfn. Þar mætast tveir helstu jöfrar íslenskrar sjálfstæðisbaráttu og þjóðmenningar, Jón Sigurðsson forseti og þjóððskáldið Jónas Hallgrímsson. En semsé, í kvöld verður Jónas heiðursgestur í húsi Jóns. Lengi vel áttu Íslendingar aðeins þetta eina hús í Kaupmannahöfn en nú eiga íslenskir viðskiptamenn bæði Hotel D‘Angleterre, Magasin og allt hitt draslið sem keypt hefur verið undanfarin ár. (Að vísu vantar enn Hviids og Tivoli í safnið en það er önnur saga).

Þeir Jón og Jónas voru að mörgu leyti ólíkir menn en báðir skynjuðu þeir kall tímans. Þeir voru réttir menn á réttum stað á réttum tíma. Í kjölfar frönsku stjórnarbyltingarinnar og Upplýsingarinnar hrundu einveldi Evrópu hvert af öðru undan kröfu um lýðræði og sjálfstjórn þjóða. Frjálslyndisstefnan hélt innreið sína og undir miðja nítjándu öld tók þjóðríkið við sem grunneining í ríkjakerfi Evrópu. Þessa hugmyndastrauma notuðu þeir Jón og Jónas í baráttu sinni fyrir sjálfstæði Íslands. Jón Sigurðsson útbjó hinn lagalega málatilbúnað sem Íslendingar byggðu kröfur sínar á og Jónas bjó til ofurrómantíska hugmynd um hina sérstöku íslensku þjóð sem mátti muna fífil sinn fegurri.

Evrópska frjálslyndisstefnan fól í sér hvoru tveggja kröfu um frelsi einstaklingsins og frelsi þjóða. Danir vildi áfram halda Íslandi innan danska ríkisins en danska stjórnin hafði þónokkurn áhuga á að auka við frelsi manna innanlands á Íslandi. Öfugt við Dani höfðu Íslendingar lítinn áhuga á einstaklingsfrelsi en þeim mun meiri áhuga á frelsi þjóðarinnar, sem enn skýrir margt í íslenskri stjórnmálaumræðu dags daglega. Andstaða við viðskiptafrelsi og atvinnufrelsi innanlads var á sínum tíma um leið einhvers konar andstaða við danska yfirstjórn.

Heima á Þingvöllum hvílir ágætur danskur slátrari sem Íslendingar hylla svo fallega hvert ár á 17. Júní. Fyrir hátíðina í kvöld ætla ég hins vegar að að rölta út í Assistens krikjugarð á Norðurbrú og heilsa upp á hann Jónas sem þar hvílir lúin bein. Eftir hátíðina er svo réttast að kíkja yfir á Hviids og skála nokkuð hressilega fyrir þjóðskáldinu. Háa skilur hnetti/ himingeimur,/ blað skilur bakka og egg;/ en anda sem unnast/ fær aldregi/ eilífð að skilið.

24 stundir, 16. nóvember 2007.


Næsta síða »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband