Leita í fréttum mbl.is

Ósköp venjulegur dagur

Miðvikudagur 3. október 2007, kl. 08:00. Vesturbær Reykjavíkur.

Það er búið að smyrja brauðið, setja kókómjólk og banana í skólatöskurnar, klæða þá litlu og koma grautnum ofan í hana. Það er líka búið að koma morgunkorni í alla aðra maga, finna til fimleikafötin fyrir strákin og pexa án árangurs við unglingsstúlkuna um að fara nú einu sinni í almennilega yfirföfn. Loksins eru allir komnir út í bíl. Við getum haldið af stað út í daginn. 

Fyrst þarf að koma eldri krökkunum hvoru í sinn skólann í hverfinu. Það gengur greiðlega. Ég minni strákinn á fimleikana, Helgi frændi ætlar að sjá um að koma honum í og úr fimleikunum í dag. Unglingsstúlkan verður að bjarga sér sjálf í körfuboltann. Næsta stopp er við Hverfisgötuna þar sem konan vippar sér út. Nú þarf ég bara að koma ungabarninu til dagmömmunnar. Í  dag á ég að vera mættur í kennslu á Bifröst í Borgarfirði klukkan tíu. Þetta ætti því allt saman að geta gengið. Umferðin upp á Háaleitisbraut er níðþung svo það tekur töluverðan tíma að þræða þröngar umferðaræðarnar og skáskjótast fram hjá umferðarljósadiskóinu.

Sú stutta er farin að verða nokkuð heimakominn hjá dagmömmunni sinni og kveður mig með bros á vör. Eftir þrautaleit fundum við loksins laust pláss hjá góðri konu sem hefur tekið barninu opnum örmum. Við prísuðum okkur sæl enda þekkjum við fólk sem hefur ekki enn fundið pláss þrátt fyrir að vera með börn á öðru aldursári. Eini gallinn hvað okkur varðar er að dagmamman er nánast í hinum enda bæjarins. Það var ekkert laust í Vesturbænum. Við þurfum líka að sækja hana fyrir hálf þrjú á daginn, sem er stundum svolítið erfitt. Sem betur fer erum við bæði í sveigjanlegum störfum svo þetta gengur vanalega upp. En í dag á ég ekki séns í að ná þessu í tæka tíð. Og þar sem ég er á bílnum úti í sveit verður konan því að ná í stelpuna á strætó, sem merkir að hún verður að hætta enn fyrr í vinnunni í dag. Við ræddum það á leiðinni hvort við ættum kannski að fá okkur annan bíl. Við hættum þó við þegar við sáum út um bílrúðuna að það yrði tæpast hægt að koma honum fyrir á götum Reykjavíkur, bíll við bíl eins langt og augað eygði, - allir að troðast eftir út sér gengnu gatnakerfi.

Þegar blessuð dagmamman fannst loksins við Háaleitisbrautina vorum við að vona að þetta þyrfti ekki að vera ráðstöfun til svo ýkja langs tíma. Fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2006 var nefnilega stjórnmálaflokkur sem lofaði öllum börnum í borginni leikskólaplássi við átján mánaða aldur. Þessi flokkur er nú í meirihlutastjórn. Þetta átti því ekki að vera svo langur tími. En það virðist samt ætla að tegjast úr honum, leikskólafulltrúi Reykjavíkurborgar hefur nefnilega tjáð okkur að dóttir okkar sem nú er fimmtán mánaða fái ekki inni í leikskólum Reykjavíkur fyrr en næsta haust, þá verður hún komin vel á þriðja aldursár.

Ég var semsé að hugsa um þetta allt saman þegar ég lagði af stað frá Háaleitisbrautinni. Klukkan: 08:45. Ég komst nokkuð greiðlega austur Miklubrautina en akleiðin á móti, inn í bæinn, silaðist rétt svo áfram, bílarnir lulluðu svo á gönguhraða niður Ártúnsbrekkuna. Mér er sagt að það geti tekið hálftíma að komast um tíu kílómetra leið á þessum tíma dags. Svona er þetta víst á hverjum degi. Samt er ekki svo mikið mál að losa um hnútinn. Það þarf bara að gera tvennt, leyfa fólki að búa nær vinnunni, til að mynda með því að byggja í Vatnsmýrinni og svo þarf auðvitað að leggja Sundabraut og taka umferðina út fyrir borgina í stað þess að beina hennri allri í gegnum þá trekt sem Miklabrautin er orðin. Þegar ég loks renndi út úr bænum mundi ég eftir að sami flokkur og lofaði okkur leikskólaplássi fyrir áján mánaða aldur hafði einmitt líka lofað að reisa Sundabraut og byggja í Vatnsýmirinni.

Þetta hlýtur því allt að standa til bóta, eða hvað?

Blaðið 5. október 2007.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband