Leita í fréttum mbl.is

Coetzee gegn Ali

Í fjölmiðlaumræðu sem spratt upp úr ummælum tveggja rithöfunda á nýlokinni bókmenntahátíð í Reykjavík, þeirra Ayaan Hirsi Ali og John Maxwell Coetze, mætti ætla að þau væru gjörsamlega á öndverðu meiði í afstöðu til eins mikilvægasta viðfangsefnis nútímastjórnmála. Þegar að er gáð kemur hins vegar í ljós að sjónarmið þeirra Ali og Coetze þurfa alls ekki að stangst á. Bæði fjölluðu þau með sínum hætti um þá tortryggni sem undanfarið hefur magnast á milli hins vestræna heims og Mið-Austurlanda, - milli menningarsvæða kristni og múslima.

Á umliðnum árum höfum við séð síaukna árekstra á milli aðfluttra múslima og kristinna manna í ríkjum Vesturlanda. Verri er þó hryðjuverkaógnin sem stafar af öfgafullum múslimum. Óhófleg viðbrögð sumra ríkja Vesturlanda sem síðan hafa lent í ógöngum með innrásarheri sína í tveimur múslimaríkjum bæta heldur ekki úr skák.

Í opnunarávarpi á bókmenntahátíðinni brýndi ástralski rithöfundurinn, John Maxwell Coetzee, vesturlandabúa til að standa vörð um mannréttindi, sérstaklega tjáningarfrelsið. En hann telur að undanfarin ár, sér í lagi eftir atburðina 11. September 2001, hafi stjórnvöld í sumum ríkjum Vesturlanda farið að þrengja um of að lýðréttindum manna, í nafni svokallaðs stríðs gegn hryðjuverkum. Dæmi eru um að ríkisstjórninr hafi stóraukið eftirlit og njósnir með einstaklingum, fylgst náið með málflutningi manna, haldið föngum árum saman án dóms og laga, jafnvel í leynifangelsum og leitað á heimilum fólks án úrskurðar dómara. Og svo framvegis. Coetzee taldi þessa þróun ógnvænlega.

Hinn gestur hátíðarinnar, sem fjölmiðlar höfðu áhuga á, sómalska baráttukonanan Ayaan Hirsli Ali, hefur undanfarin ár barist gegn mannréttindabrotum í múslimaríkjum, - sérstaklega þegar kemur að misnotkun á konum. Ali telur að mannréttindi séu nú almennt betur tryggð á Vesturlöndum heldur en gengur og gerist í flestum múslimaríkjum. Í málflutningi sínum varaði hún Vesturlönd við að gefa afslátt af mannréttindum og öðrum persónuréttindum einstaklinga. Hún hefur til að mynda áhyggjur af því að öfgafullir múslimar á Vesturlöndum fái óáreittir að brjóta mannréttindi á eigin fólki í samfélagi innflytjenda vegna einhvers konar misskilins umburðarlyndis. Hún gerir einfaldlega þá kröfu til múslima sem flytja til Vesturlanda að þeir virði menningu og lifnaðarhætti sem þar eru viðhafðir.

Stundum geldur opinber umræða fyrir það að menn velja sér afmarkað sjónarhorn og skoða svo allan heiminn út frá því. Þannig geta tveir menn skoðað nákvæmlega sama hlutinn en séð hann frá svo ólíkri hlið að hann virðist ekki aðeins tveir aðskildir hlutir heldur beinlínis ósamræmanlegir. Í samræmi við þessa áráttu var ummælum þeirra Ali og Coetzee stillt upp sem andstæðum í íslenskum fjölmiðlum, allavega af sumum. Þátttakendur í innlendri þjóðmálaumræðu á Íslandi notuðu svo ummæli rithöfundanna til að skerpa á andstæðum og lýsa upp þá hlið á málinu sem þeir sjálfir aðhyllast. Einhverjir gengu svo langt að halda því fram að þeir sem taka undir með Coetzee séu þar með að samþykkja mannréttindabrot múslima í vestrænum samfélögum, jafnvel að umbera hryðjuverk! Á sama hátt voru þeir sem tóku undir með Ali sakaðir um grófa Vesturlandahyggju og fjandskap við menningu múslima í heild sinni. Samt var ekkert í málflutningi rithöfundanna tveggja sem réttlætti þessa gagnstæðu túlkun. Vel er hægt að taka undir með þeim báðum í einu. Það er nefnilega engin mótsögn fólgin í því að fagna fjölmenningarsamfélaginu á Vesturlöndum án þess að gefa nokkurn minnsta afslátt af mannréttindum eða almennum vestrænum gildum.

Vesturlandabúar voru lengi að berjast fyrir því þjóðskipulagi sem nú ríkir í okkar heimshluta og byggir á frelsi, lýðræði og vernd mannréttinda. Um þessi grundvallargildi þarf að standa vörð hvort sem það er gagnvart öfgafullum múslimum með kúgunaráráttu eða misvitrum stjórnmálamönnum heimafyrir sem nú ásælast borgaraleg réttindi í nafni stríðsins gegn hryðjuverkum.

Blaðið 21. september 2007


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband