Leita í fréttum mbl.is

Magnús I Hagen og Jón Le Pen

Nú er orðið ljóst að Magnús Þór Hafsteinsson og Jón Magnússon munu leiða Frjálslynda flokkinn í sitt hvoru Reykjavíkurkjördæminu. Innan flokksins eru það þeir tveir sem hafa gengið lengst í málflutningi gegn innflytjendum. Í því ljósi eru gárungarnir farnir að kalla þá félaga; Magnús I Hagen og Jón Le Pen.

Þetta er svona


Evrópuskýrsla forsætisráðherra

Hef núna seinni partinn verið að dunda mér í gegnum skýrslu Evrópunefndar forsætisráðherra. Þetta er að mörgu leyti afbragðs samantekt á stöðu Íslands í evrópsku samstarfi. Greinilegt að starfsmaður nefntarinnar, Hreinn Hrafnkellsson, sem skrifar nú nánast alla skýrsluna, er vel að sér í Evrópufræðum. Tök hans á efninu gerir það að verkum að fram er komin góður grundvöllur um vitræna umræðu um Evrópumálin á Íslandi.

Það vekur athygli að nefndin klofnar í raun í fimm hluta í niðurstöðum sínum. Allir stjórnmálaflokkarnir sjá ástæðu til að skila séráliti. Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir ná þó saman um andstöðu gegn ESB-aðild Íslands en eru ósammála um gildi EES-samningsins. Samstaðan gegn ESB-aðild kemur raunar ekki á óvart en röksemdafærslan sem kemur fram í sameiginlegu áliti flokkanna tveggja er að ákveðnu leyti gölluð. Þar segir:

"Engar líkur eru á að samist geti um milli Íslands og ESB, að 200 mílna efnahagslögsagan umhverfis Ísland verði í heild sinni viðurkennd sem sérstakt fiskveiðistjórnarkerfi undir stjórn Íslendinga enda samrýmist það ekki sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB og á sér engin fordæmi."

Þessi fullyrðing stenst enga skoðun. Raunar er eins og þeir fulltrúar nefndarinnar sem standa að þessu áliti hafi ekki lesið eigin skýrslu. Í kaflanum um varanlegar undanþátur og sérlausnir er nefnilega að finna svo gott sem fullkomna röksemd fyrir því að vel sé hægt að finna lausn sem tryggir yfirráð Íslendinga yfir efnahagslögsögunni. Til frambúðar. Tekin eru dæmi af fjölmörgum sambærilegum sérlausnum sem fundin hafa verið í aðildarsamningum fjölmargra ríkja. Raunar er þessi kafli einn sá áhugaverðasti í skýrslunni.

Niðurstaða Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna, sem gengur þvert gegn upplýsingum í eign skýrslu, gengur ennfremur þvert gegn upplýsingum sem komu fram í máli eins reyndasta samningamanns ESB og yfirmanns skrifstofu sjávarútvegsmálastjóra ESB, Michael Köhlers, sem í nýlegri heimsókn hér á landi lýsti því yfir að Ísland myndi við aðild að ESB halda fullum yfirráðum yfir sjávarauðlindinni.

Þetta er svona.


Korter í kosningar

Í blöðunum í dag eru fréttir um að ríkisstjórnin ætli að bjarga Vestfjörðum, heyrnarlausum, landsbyggðinni, sjónskertum, matarreikningnum og Framsóknarflokknum. Það eru greinilega að koma kosningar.


Fiskurinn eða fullveldið?

Tímaritið Stjórnmál og stjórnsýsla er komið út. fiskurinn eða fullveldið
Ritið kemur út einu sinni á ári í pappírsformi en í
því er að finna fræðigreinar sem hafa komið úr í
vefútgáfu ritsins (www.stjornmalogstjornsysla.is)
árið áður.

Að þessu sinni er að finna ellefu ritrýndar greinar í tímaritinu sem birtust í vefritinu árið 2006. Ein er eftir mig og heitir Fiskurinn eða fullveldið, hvað skýrir ólík tengsl Íslands og hinna Norðurlandanna við Evrópusamrunann?

Vefútgáfu greinarinnar má nálgast hér.


Erindi berindi

Hugvísindaþingið, sem haldið var í HÍ á föstudag og laugardag, tókst afskaplega vel. Mér þóttu erindi félaga minna í málstofu um innflytjendamál sérstaklea áhugaverð. Ástríður Stefánsdóttir fjallaði um reynslu sína við að meðhöndla sjúklinga úr hópi innflytjenda og Unnur Dís Skaptadóttir fjallaði um sjálfsmynd innflytjenda á Íslandi, hvernig það er að lifa á teimur stöðum í einu. Ég fjallaði hins vegar um afstöðu okkar Íslendinga til innflytjenda og spurði: Hvers vegna óttumst við innflytjendur?

Ég fór svo í Silfur Egils á sunnudag til að tala um erindið. Mætti þar Magnúsi Þór Hafsteinssyni sem sat í stúdíóinu þegar ég kom inn. Það er alltaf erfiðara að koma upplýsingum á framfæri þegar maður þarf að þrasa við pólitískusa í leiðinni. Þeir sem hafa áhuga geta nálgast glærunar úr fyrirlestrinum hér.


Hayek

Hvernig er það, er þessi stúlka ekkert skyld Friedrich August von Hayek? Kannski barnabarn nóbelsverðalaunahafans? Sem kunnugt er var von Hayek einn áhrifamesti fræðimaður austurríska skólans, svokallaða, sem var einskonar varnarþing frjálshyggjumanna í hagfræði?

Hannes hlýtur að vita þetta.


mbl.is Hayek trúlofuð og á von á barni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innflytjendur - Málstofa Ritsins - Stofa 207

Málstofan sem ég mun tala í á Hugvísindaþinginu er í stofu 207 í aðalbyggingu HÍ. Á morgun 10 mars, 14.30–16.00. Það er Ritið, tímarit Hugvísindastofnunar, sem stendur fyrir þessari málstofu um málefni innflytjenda. Síðar mun koma út þemahefti Ritsins um innflytjendamál með greinum eftir þátttakendur málstofunnar.

Dagskráin er svona.
Ástríður Stefánsdóttir: Læknir á innflytjendamóttöku
Eiríkur Bergmann Einarsson: Hvers vegna óttumst við innflytjendur?
Unnur Dís Skaptadóttir og Anna Wojtynska: Líf á tveimur stöðum
Fundarstjóri: Gauti Kristmannsson


Farðu þá bara

Björgólfur Thor Björgólfsson er ósáttur við að fjárfestingabankinn Straumur-Burðarás fái ekki að gera upp í erlendri mynt, eins og til stóð. Björgólfur sagði að þessi ákvörðun stjórnvalda gæti leitt til þess að hagkvæmara væri fyrir fyrirtækið að flytja til Írlands eða Bretlands. Fjármálaráðherra var inntur viðbragða við þessum tíðindum í tíufréttum Sjónvarps núna áðan. Efnislega sagði fjármálaráðherrann við þennan umsvifamesta viðskiptamann landsins: Farðu þá bara. Einhverjir hafa verið að halda því fram að Sjálfstæðismenn séu farnir að líta Vinstri græna hýru auga í aðdraganda komandi kosninga. Ég veit svo sem ekki um það, en Ögmundur hlýtur alla vega að vera ánægður með fjármálaráðherrann núna.

Þetta er svona.


Leikrit ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórnin hefur undanfarna daga boðið kjósendum upp á dulítið leikrit. Framsóknarflokkurinn hefur átt erfitt uppdráttar undanfarið og verið gagnrýndur fyrir að vera of leiðitamur Sjálfstæðisflokkum í ríkisstjórn. Svo virðist sem Framsóknarflokkurinn hafi fengið leyfi til að nota lítilsháttar ágreining um stjórnarskrárákvæði um sameign þjóðarinnar á sjávarauðlindum til að sýna kjósendum fram á sjálfstæði sitt í ríkisstjórnarsamstarfinu. Til að látast vera harður á sínu. Til að sýna fram á að flokkurinn er ekki bara taglhnýtingur íhaldsins. Allur gangur málsins vekur manni grun um að aldrei hafi verið nokkur alvara í þessu máli. Hvorki hjá forystumönnum Framsóknar né forystumönnum Sjálfstæðisflokks. Skýringuna á þessum lauflétta ærslaleik sem settur var á svið  stjórnmálanna örskamma stund má kannski finna í þeirri oggulitlu staðreynd að það eru kosningar í nánd.

Þetta er svona.


mbl.is Þjóðareign í stað sameignar þjóðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað þýðir að vera á kojufylliríi?

Vísindavefurinn er með skemmtilegustu vefsvæðum sem rekin eru hér á landi. Fólk spyr um allt milli himins og jarðar og fræðimenn svara af bestu getu. Ég hef tekið að mér nokkur svör á vefnum. Spurningarnar eru um aðskiljanlegustu efni. Nýlega vildi einn fyrirspyrjandndi til að mynda fá að vita hvað það merkir að vera á kojufylliríi. Ekki stóð á svari sem lesa má hér.

Þetta er svona.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband