Leita í fréttum mbl.is

Veður

Ég tók eftir því að einn nágranni minn bölvaði veðrinu í sand og ösku þegar við vorum samtíða til vinnu í morgun. Hann var verulega ósáttur við náttúröflin og steytti hnefann til himins áður en hann tók um frakkann og flúði gegnblautur inn í bíl. Sjálfur hef ég fínan húmor fyrir rigningunni, rokinu og kuldanum. Læt það ekkert á mig fá, setti bara upp sólgleraugun og spígsporaði glaður út í daginn.

Ástæðulaust að atast í Agli

Ekki skil ég hvað stjórnendum 365 miðla gengur til með þessum málarekstri gegn Agli Helgasyni. Ef menn vilja frekar vinna annarsstaðar þá er voðalega vitlaust að þvinga þá til að vera áfram, þar sem þeir vilja ekki lengur vera. Það er vont fyrir alla. Jafnvont fyrir fyrirtækið og starsmanninn.

Þess fyrir utan þá sé ég ekki að Stöð 2 eigi mikið í Silfri Egils. Þátturinn hóf göngu sína á Skjá einum, á meðan sú stöð sýndi lítið annað en gamla Dallasþætti. Undanfarin ár hefur þátturinn svo verið vistaður hjá Stöð 2. Allir vita hins vegar að það er Egill sjálfur sem á þennan þátt, með húð og hári. Hann verður að fá að ráða því sjálfur hvar best er fyrir hann að hafa þáttinn. Vistarbönd virka illa í nútíma samfélagi, líka í sjónvarpi.


mbl.is Deila um hvort Egill hafi verið búinn að semja við 365
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grásleppukarlar fyrr og nú

Eftir því sem sólin hækkar á lofti minnkar áhugi minn á stjórnmálum. Ég er viss um að það eigi við fleiri. Ég ætla því ekki þreyta lesendur með enn einu rausinu um stjórnmálaástandið, nóg var víst um slíkt í aðdraganda kosninga. Ætli það séu ekki ansi margir farnir að þrá stjórnmálafrítt sumar, nokkra góða daga án pólitíkusa. Að vísu hjó ég eftir því að ríkisstjórnin ætlar víst að fresta frjálsri för launafólks frá Rúmeníu og Búlgaríu fram til 2009. Það er auðvitað eins vitlaust og nokkur hlutur. Fjöldi erlends starfsfólks á Íslandi ræðst nefnilega af eftirspurn í atvinnulífinu, ekki af boðum og bönnum. En látum það samt vera.

Sumarið er semsé um það bil að koma, þrátt fyrir einstaka haglélsskot í aðdragandanum. En fyrst maður kýs á annað borð að búa á Íslandi verður nú maður bara að sætta sig við svoleiðis. Kuldakastið um daginn hafði því engin áhrif á sumarið sem hefur verið að vaxa innan í mér undanfarnar vikur. Meðal fastra vorverka er að koma hjólaflota fjölskyldunnar í lag, það þarf að pumpa, stilla, smyrja og strjúka ryk vetrarins af með rökum klút. Ég er nú ekki handlaginn maður, eiginlga óttalegur aulabárður í höndunum, en samt tókst okkur að koma hjólunum í stand. Um daginn lögðum við svo af stað eftir Ægisíðunni í fyrsta hjólatúr sumarsins. Fólkið var komið út úr húsunum, sumir á línuskautum aðrir á skokki, virðulegir eldri borgarar á gangi. Við á hjóli. Á svona dögum er vesturbærinn eiginlega eins og lítið þorp við sjávarsíðuna, nokkurn vegin eins og þegar hverfið var að byggjast fyrir um hálfri öld. Að vísu eru grásleppukarlarnir farnir en kofarnir sem enn standa við göngustíginn minna á þá tíð þegar róið var út frá Ægisíðunni. Nú eru hins vegar komnir nýir grásleppukarlar. Þessir nýju eiga ekki annað sameiginlegt með gömlu grásleppukörlunum en að jakkafötin þeirra eru svolítið eins og grásleppa á litin.

Við búum þannig að á leiðinni í bæinn förum við jafnan eftir endilangri Ægisíðunni. Vorverkin voru greinilega hafin hjá nýju grásleppukörlunum. Þetta gerist alltaf eins. Fyrst birtast stórir hálfopnir gámar fyrir framan húsið. Síðan koma stórvirkar vinnuvélar sem tæta upp garðinn og fjarlægja allan gróður áður en skipt er um jarðveg. Svo er húsið brotið og bramlað að innan, skipt um gólf, glugga og leiðslur rifnar úr veggjum. Að því loknu eru gömlu rósetturnar teknar úr loftinu og allskonar skynjarar settir í staðin. Að lokum er gengið í að fræsa burt öllu sem minnir á upprunalegt útlit hússins. Þegar aðeins skélin af húsinu stendur eftir er það endurbyggt frá grunni í nýríkum útrásarstíl. Og nýtískulegur landslagsarkitekt látinn útbúa glænýjan garð með útigrilli á stærð við meðal skólaeldhús. Um það bil þegar verið er að planta síðustu sumarblómunum renna nýju eigendurnir í hlað, faðirinn á svörtum Range Rover, konan á gráum Benz. Alltaf svona, alltaf eins. Við létum þessar framkvæmdir ekkert á okkur fá þegar við hjóluðum framhjá um daginn. Þetta er víst nútíminn. Hann er bara svona. Ég er ekki viss, en hugsanlega eru tvö til þrjú hús eftir við Ægisíðuna sem enn bíða örlaga sinna. Það eru því enn tækifæri fyrir metnaðarfulla bísnessmenn sem vilja vera eins og hinir, eins og þeir allir.

Ég les í Guardian, í grein eftir þá glöggskyggnu konu Kathryn Hughes, að það er víst mikill skortur á góðum butlerum í Bretlandi. Ég velti fyrir mér hvort lagt sé í að sú stétt manna fari að sjást á Ægissíðunni? Það væru sko almennilegir grásleppukarlar.

Þessi grein birtist í Blaðinu í dag.


Búið til langferðar

Mér sýnist að skútan sem formenn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hafa verið að smíða undanfarna daga og sjósett verður á morgun sé ætluð til langferðar. Meirihluti stjórnarinnar á þingi er svo mikill að stjórnin ætti að geta setið nánast eins lengi og hún sjálf kýs. Það verður ekki auðvellt hlutskipti fyrir framsókn, VG og frjálslynda að vera í stjórnarandstöðu andspænis slíkri stjórn.
mbl.is Málefnasamkomulag kynnt þingmönnum Sjálfstæðisflokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flökkusaga

Sögusagnir af ríkisstjóarnarmyndunum ganga nú milli manna sem aldrei fyrr. Margt af þessu, ef ekki flest, er staðlaust bull. Ein lífseigasta flökkusagan getur þó hugsanlega útskýrt undarlega hegðun Steingríms J. Sigfússonar eftir kosningar, ef sönn reynist. Vísir og vel tengdir menn segja mér að Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, og Svavar Gestsson, sendiherra, hafi verið búnir að handsala stjórnarmyndun milli Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna skömmu eftir kosningar. Geir gerði þá samninga hins vegar að engu þegar hann hafði samband við Ingibjörgu Sólrúnu. Sagt er að Davíð sé Geir bálreiður vegna málsins. Sögunni fylgdi að menn veigri sér við að benda þeim félögum, Davíð og Svavari, á að þeir eru ekki lengur formenn flokka sinna. Þeir virðast heldur ekki hafa áttað sig á því sjálfir.


Philip Roth: The plot against America

Lauk í gærkvöldi við bók Philip Roth The plot against America. Bókin er einskonar spádómur um hvað hefði gerst ef einangrunarsinnuð öfl andstæð gyðingum hefðu náð völdum í Bandaríkjunum árið 1940. Roth lætur Charles Lindberg, flugkappa, og vin Þýskalands Hitlers, komast til valda og svo lætur hann álíka andúð á gyðingum og varð í Þýskalandi smám saman þróast í Bandaríkjunum. Þetta er ansi magnað söguefni og sýnir ljóslega að stundum koma upp þær aðstæður að alþjóðasamfélagið verður að grípa inn í með vopnavaldi. Það er engin leið að hugsa þá hugsun til enda ef Bandaríkin hefðu ekki komið lýðræðisríkjum Evrópu til hjálpar í síðari heimstyrjöldinni. Hér komum við einmitt að helsta galla bókarinnar. Roth þorir nefnilega ekki að láta söguefni sitt ganga alla leið og lætur duga að Bandaríkin fresti afskiptum sínum. Fyrir vikið verður bókin ekki jafnmögnuð og söguefnið gæti gefið til kynna.

Stólarnir skipta mestu

Stjórnarmyndunarviðræður ganga auðvitað að miklu leyti um koma saman traustum málefnasamningi um helstu verkefni. Íslenskt stjórnkerfi byggir hins vegar á ráðherraræði sem merkir að ráðuneytin skipta meira máli heldur en málefnasamningurinn. Ráðherrar ráða flestu innan síns málaflokks. Því er alltaf harðast tekist á um stólana.

VG situr eftir með sárt ennið

Flestir sem ég ræði við virðast ánægðir með mögulega stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Svo virðist sem Steingrímur J. Sigfússon hafi klúðrað tækifæri á að mynda vinstri stjórn vegna óbeitar á Framsóknarflokknum. Mér er sagt að óbilgirni VG hafi komið í veg fyrir að stjórn eftir Reykjavíkurlistamótelinu yrði mynduð. Þar með er VG áfram dæmd til áhrifaleysis. Í stjórnmálum skiptir tímasetningin oft öllu máli. Ef fer sem horfir missti VG af sögulegu tækifæri.

Geir er gísl Framsóknar

Því er haldið fram að Geir H. Haarde hafi alla þræði í hendi sér varðandi stjórnarmyndun. Það er að mínu viti rangt. Staðan er miklu flóknari. Jón Sigurðsson og Framsóknarflokkurinn hafa líka ýmsa þræði í sínum höndum. Eins og alltaf. Geir er í raun gísl Framsóknarflokksins. Í pólitísku tilliti er ekkert sérstaklega heppilegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að halda samstarfinu við Framsókn áfram. Það gæti orðið óvinsælasta ríkisstjórn síðari tíma, enda umboðslítil, og komið niður á Sjálfstæðisflokknum þegar líður á kjörtímabilið. Geir á hins vegar afar erfitt um vik með að slíta samstarfinu og hefja viðræður við annað hvort Samfylkingu eða Vinstri græna. Geri hann það þá getur Jóns Sigursson hæglega svarað með því að bjóða Samfylkingu og Vinstri grænum upp á stjórn samkvæmt Reykjavíkurlistamódelinu, sem báða flokka dreymir um. Það er því miklu heldur í hendi Framsóknarflokksins að skáka Sjálfstæðisflokknum út af borðinu .
mbl.is Flestir vildu stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugguleg mótmæli

Það er alltaf eitthvað fallegt við mótmæli í Kristjaníu. Fyrir nokkru fékk ég þessa spurningu frá Vísindavefnum: Hvernig er stjórnkerfinu og hagkerfinu háttað í fríríkinu Kristjaníu?

Svarið er hér.


mbl.is Lögregla í átökum við mótmælendur í Kristjaníu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband