Leita í fréttum mbl.is

Eyjan

Farinn á Eyjuna: eirikur.eyjan.is

Ritið: Íslenskt þjóðerni og óttinn við innfleytjendur

Haustið 2006 komust málefni innflytjenda í brennidepil íslenskra stjórnmála þegar Frjálslyndi flokkurinn lýsti yfir vilja til að hefta straum innflytjenda til landsins. Lengi vel fluttu mun færri útlendingar til Íslands en til nágrannaríkjanna. Því hefur umræðan um málefni innflytjenda verið töluvert seinna á ferðinni hér á landi en víðast annars staðar. Undanfarin ár hefur fjöldi innflytjenda hins vegar margfaldast og skýrir það tímasetningu umræðunnar. Í orðræðunni sem fylgdi í kjölfar útspils Frjálslynda flokksins mátti greina ótta við að innflytjendur væru á einhvern hátt ógn við íslenska þjóð og íslenska þjóðmenningu. Í þessari grein er staða innflytjenda í íslensku samfélagi tekin til skoðunar og spurt hvers vegna menn óttist innflytjendur á Íslandi? ...

Þetta er inngangur að ritrýndri fræðigrein eftir mig um íslenskt þjóðerni og þann ótta við innflytjendur sem merkja má í íslenskri þjóðmálaumræðus undanfarin misseri. Greinin í heild sinni er hér.


Hverju myndi ESB-aðild breyta fyrir íslenska neytendur?

Evrópufræðasetur Háskólann á Bifröst hefur unnið skýrslu fyrir Neytendasamtökin þar sem skoðað er hverju ESB-aðild myndi breyta fyrir íslenska neytendur. Við Eva Heiða Önnudóttir, sérfræðingur við Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Bifröst, erum höfundar skýrslunnar sem finna má hér.

Undanþágur og sérlausnir í aðildarviðræðum við Evrópusambandið

Í umræðum um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu er því stundum haldið fram að sameiginleg sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins sé andstæð íslenskum hagsmunum. Látið er fylgja með að ómögulegt sé að finna viðunandi lausn í sjávarútvegsmálinu í aðildarviðræðum og þess vegna sé um tómt mál að tala að hefja aðildarviðræður. Aðildarsamningar að ESB hafa sömu lagastöðu og stofnsamningar ESB. Því er áhugavert að skoða hvort einhver aðildarríki ESB hafi fengið slíkar sérlausnir eða undanþágur í sínum aðildarsamningum.

Svona hefst grein eftir mig um þetta efni sem birtist í Fréttablaðinu í gær.

 


Um bólur og bólustóttir

Munið þið eftir nýja hagkerfinu? Þegar netbólan fór að blása út undir nýliðin aldamót fóru einhverjir úrtölumenn að fjasa um að það væri nú kannski heldur lítil innistæða fyrir verðmati sumra fyrirtækja, sér í lagi ýmissa tölvu- og tæknifyrirtækja, sem höfðu sprottið fram úr dimmum tölvuleikjasölum og vaxið í veldisvís á alnæmum heimsmarkaði alnetsins svokallaða. Virði fyrirtækjanna var komið í hæstu hæðir og umsvifin svo ofboðsleg að jafnvel rykföllnustu félagsfræðikennarar voru orðnir staffírugir ráðgjafar í örtækni og hvers konar míkróflögum.

Hagkerfið var í blóma, svo miklum blóma að nánast hvaða sprota sem stungið var ofan í sólblómamaríneraðan jarðveginum fór fyrirhafnarlítið að vaxa af sjálfu sér. Það þurfti lítið að vökva. Þó var einn vandi sem lá eins og grá steinvala ofan á rjómabolluástandinu. Tekjurnar létu á sér standa. Gjöldin voru þó á sínum stað og uxu bara og uxu eins og baunagrasið hans Jóa.

Nýja hagkerfið

En þetta þótti ekki mikill vandi. Spekingar netbólunnar smíðuðu sér einfaldlegta nýja kenningu. Nú var komið nýtt hagkerfi. Nýja hagkerfið var að þeirra sögn ekki lengur bundið af takmörkunum gamla hagkerfisins. Nú var ekkert lögmál að fyrirtæki þyrftu að hafa tekjur umfram gjöld. Það gilti aðeins í gamla hagkerfinu, í gömulum iðn- og framleiðslufyrirtækjum. Svoleiðis rekstur var álitinn gamaldags. Mestu máli skipti að konseptið, eins og það var kallað, væri gott. Ef konseptið var gott þá þyrfti ekki að hafa áhyggjur af tekjum. Þær myndu koma svo gott sem sjálfkrafa í ofurbjartri framtíðinni. Bókfærslukennarar í framhaldsskólum fengu um leið skömm í hattinn fyrir gamaldags hallærishugsun. Helst þyrfti að senda þá alla í endurmenntun. Fyrirtæki voru ekki lengur rekin fyrir tekjur af rekstri heldur fyrir hlutafé sem sparifjáreigendur dældu gagnrýnislítið inn í fyrirtæki nýja hagkerfisins. Restin var tekin að láni. Brennsluhraði hlutafjár varð mikilvægari mælieining heldur en hefðbundin tekjuáætlun. Svo sprakk netbólan með látum upp úr aldamótum. Ástandið var svo bjart að menn fengu ofbirtu í augun og sáu ekki hætturnar sem blöstu við þegar sólin hneig til viðar.

Gamaldags hagfræðilögmál

Munið þið eftir verðbréfaguttunum sem fylltu alla sjónvarpsþætti og spáðu endalausum uppgangi verðbréfa? Að vísu voru alltaf einhverjir afdankaðir hagsögufræðingar að minna menn á að efnahagskerfi heimsins gangi yfirleitt í nokkrum sveiflum. En boðberar nýja hagkerfisins gáfu lítið fyrir svoleiðis speki. Nú væri ný tíð og gamaldas hagfræðilögmál giltu ekki lengur. Það var búið að taka þyngdarlögmálið úr sambandi. Það var komið nýtt fjármálakerfi. Peningar voru ekki lengur takmörkuð auðlind. Í nýja fjármálakerfinu þurfti bara útsjónarsama og umfram allt hugaða útrásarvíkinga til að finna uppsprettuna og virkja hana. Þá gætu menn eytt að vilt. Málið var að kaupa, ekki að borga. Á morgun er annar dagur og allt það.

Aldrei aftur Elton John

Muniði Range Roverana? Einkaþoturnar? Þyrlurnar? Og sjálfan Elton John? Muniði alla kaupleigusamningana, raðgreiðslurnar, fjármögnunarsamningana? Eins og pönkararnir í gamla daga treystu nýju fjármáladúddarnir engum yfir þrítugt. Grandvarir eldri bankamenn voru settir til hliðar. Þeir kunnu ekki á nýja glóbal fjármálakerfið. Kunnu ekki eyða eins og alvöru menn. Voru sífellt að þrasa um debit þegar hægt var einbeita sér að kredit. Aftur settu sparifjáreigendur allt sitt traust á unggíruga fjármálafursta. Svo hrundi úrvalsvísitalan í Kauphöllinni. Svo féll gengið. Verðbólgudraugurin sá að því loknu um að brenna upp restina. Og vextirnir, maður lifandi!

Leiðtogar þjóðarinnar eru nú í einkaþotunni alræmdu á leiðinni af Nató-fundi. Við bjóðum þau velkomin heim.

24 stundir. 4. apríl 2007.


Bingi duglegur

Ég sé ekki betur en að Björn Ingi taki þátt í aprílgabbi tveggja miðla í dag, um ólíka hluti þó. Á dv.is er hann sagður hafa skrifað bók um REI-málið sem hann muni árita í Kringlunni og 24 stundir ætla að gera hann að ritstjóra eigin blaðs. En það þarf auðvitað að hlaupa apríl og því er skeytt við að fréttir af Ólafi Stephensen ritstjóra verði sagðar á borgarstjórnarfundi í dag. Hvort ætli fari nú fleiri í Kringluna til að fá áritaða bók Binga eða á palla borgarstjórnar til að fá fréttir af ritstjóranum?


Sopinn dýr

Kominn heim eftir dulítinn túr um Ítalíu og svo nokkra góða daga í London. Ég var ekki fyrr lentur á flugvellinum í Forli og um það bil að næla mér í fyrstu evrurnar í hraðbankanum að íslenska krónan féll á hliðina. Þegar ég kom til London var grey krónan orðin svo máttvana að bjórinn á hverfispöppnum var orðinn dýrari en á Ölstofunni heima.

Dýrari málsverður

Ég kom hingað til Forli á Ítalíu seinni partinn í gær. Verið er að stofna samstarfnet rannsóknarstofnana í Evrópufræðum sem nær til 66 háskóla og fræðasetra í yfir þrjátíu Evrópuríkjum. Evrópufræðasetrið á Bifröst er meðal þátttakenda. Í gærkvöldi snæddi ég ljómandi málsverð á heimilislegum veitingastað í þröngri hliðargötu og sparaði hvergi við mig. Ég sé nú á fréttum heima að máltíðin reynist töluvert dýrari en ég hélt þegar ég greiddi fyrir hana í gærkvöldi.

Hvað sögðu þeir?

Í síðasta pistli mínum hér í blaðinu varaði ég við að þau hörðu átök sem orðið hafa milli innflytjenda og innfæddra víða í Evrópu gætu einnig verið að magnast upp hér á Íslandi. Ég benti á að að harkan í málflutningi Frjálslynda flokksins í málefnum innflytjenda í aðdraganda síðustu alþingiskosninga hafi verið í takt við innflytjendaandstöðu ýmissa álíka flokka erlendis. Svo virðist sem þessi litli pistill minn hafi komið sumum forystumönnum flokksins illilega úr jafnvægi. Þeir könnuðust heldur ekkert við málið. Mér er sagt að sum ummæli forystumanna flokksins á vefsíðum í minn garð varði jafnvel við meiðyrðalöggjöfina. Ég nenni nú ekki standa í svoleiðis veseni. En hver var eiginlega málflutningur flokksins?

„Fyrir Ísland og Íslendinga“

Þann 1. nóvember 2006 birtist grein hér í blaðinu undir fyrirsögninni Ísland fyrir Íslendinga? Greinarhöfundur var hinn annars geðprúði lögmaður Jón Magnússon, núverandi þingmaður flokksins í Reykjavíkurkjördæmi. Í greininni var varað við þeirri fjölgun útlendinga sem orðið hafði á Íslandi, sérstaklega þó við múslimum: „Ég vil ekki fá hingað fólk úr bræðralagi múhameðs.“ Einnig sagði Jón: „Við erum svo lítið sandkorn í þjóðahafinu að mesta ógn sem sjálfstæð íslensk þjóð og íslensk menning hefur nokkru sinni staðið frammi fyrir er núna. Það er okkar hlutverk að velja leiðina áfram. Fyrir Ísland og Íslendinga.“ Aðrir forystumenn Frjálslynda flokksins fylgdu í kjölfarið og tóku sér stöðu gegn innflytjendum. Umræðan sem gaus upp í kjölfarið var óhemju hörð. Til að mynda sagði varaformaður flokksins viku síðar í ræðu á Alþingi að það hafi verið „svartur dagur í sögu þjóðarinnar“ þegar Pólverjar og aðrir ESB-borgarar frá ríkjum Austur-Evrópu fengu atvinnuréttindi á Íslandi í maí 2006.

Vandi Frjálslynda flokksins á þessum tíma var ekki síst sá að flokkurinn hafði langtímum saman mælst vel undir því lágmarksfylgi sem þarf til að fá mann kjörinn á þing. Í kjölfar framanlýstrar andstöðu við innflytjendur rauk fylgi flokksins úr tveimur prósentum upp í heil ellefu prósent í nóvemberkönnun Gallup. Flokkurinn var kominn í feitt.

„skipulagðar nauðganir“
Næstu mánuði hélt flokkurinn umræðunni vakandi. Í setningarræðu á landsfundi Frjálslynda flokksins í janúar 2007 talaði formaður flokksins meðal annars um mikilvægi þess að skima vel þá innflytjendur sem vildu koma til landsins: „Heilbrigðisyfirvöld þurfa að vera á varðbergi varðandi smitsjúkdóma eins og berkla.“ Þá vildi formaðurinn kanna „hugsanlega sakaferla,“ og „meta menntun“ svo að eitthvað sé nefnt. Meðal almennra flokksmanna og fylgismanna Frjálslynda flokksins var orðræðan mun harðari. Núverandi formaður ungliðahreyfingar flokksins, Viðar Helgi Guðjohnsen, skipaði 5. sæti á lista Frjálslynda flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður. Í grein á bloggsíðu sinni um innflytjendamál varaði hann við auknum fjölda innflytjenda og sagðist meðal annars hafa áhyggjur af því að laun kynnu að lækka, að innflytjendum fylgdi „eiturlyfjasala“, „mansal“, „berklar“, „nauðungarvinna“ og „skipulagðar nauðganir“. Á fundi Frjálslynda flokksins 3. apríl 2007 sagði Kristinn Snæland, flokksmaður í Frjálslynda flokknum, um reynslu sína frá Svíþjóð: „Ég get sagt ykkur það. Ég fann ekki að ég væri, ef ég segi minni gömlu Málmey. Þarna voru Tyrkir og svertingjar og múslimar að selja kebab og pítsur og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta var óhuggulegt.“

Hér eru aðeins nokkur dæmi nefnd. Sem betur fer mætti þessi málflutningur harðri andstöðu í þjóðmálaumræðunni og eftir því sem nær dró kosningum lagði flokkurinn meiri áherslu á önnur mál og dró töluvert úr hörkunni í málflutningi sínum um innflytjendamál. Fylgi flokksins seig þó nokkuð í aðdraganda kosninganna 12. maí 2007 og endaði í 7,3 prósentum í kosningunum. 

24 stundir. 14. mars 2007.


Slæður

Glærurnar frá morgunverðarfundinum í gær eru hér.

Næsta síða »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband