Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Sopinn dýr

Kominn heim eftir dulítinn túr um Ítalíu og svo nokkra góða daga í London. Ég var ekki fyrr lentur á flugvellinum í Forli og um það bil að næla mér í fyrstu evrurnar í hraðbankanum að íslenska krónan féll á hliðina. Þegar ég kom til London var grey krónan orðin svo máttvana að bjórinn á hverfispöppnum var orðinn dýrari en á Ölstofunni heima.

Dýrari málsverður

Ég kom hingað til Forli á Ítalíu seinni partinn í gær. Verið er að stofna samstarfnet rannsóknarstofnana í Evrópufræðum sem nær til 66 háskóla og fræðasetra í yfir þrjátíu Evrópuríkjum. Evrópufræðasetrið á Bifröst er meðal þátttakenda. Í gærkvöldi snæddi ég ljómandi málsverð á heimilislegum veitingastað í þröngri hliðargötu og sparaði hvergi við mig. Ég sé nú á fréttum heima að máltíðin reynist töluvert dýrari en ég hélt þegar ég greiddi fyrir hana í gærkvöldi.

Hvað sögðu þeir?

Í síðasta pistli mínum hér í blaðinu varaði ég við að þau hörðu átök sem orðið hafa milli innflytjenda og innfæddra víða í Evrópu gætu einnig verið að magnast upp hér á Íslandi. Ég benti á að að harkan í málflutningi Frjálslynda flokksins í málefnum innflytjenda í aðdraganda síðustu alþingiskosninga hafi verið í takt við innflytjendaandstöðu ýmissa álíka flokka erlendis. Svo virðist sem þessi litli pistill minn hafi komið sumum forystumönnum flokksins illilega úr jafnvægi. Þeir könnuðust heldur ekkert við málið. Mér er sagt að sum ummæli forystumanna flokksins á vefsíðum í minn garð varði jafnvel við meiðyrðalöggjöfina. Ég nenni nú ekki standa í svoleiðis veseni. En hver var eiginlega málflutningur flokksins?

„Fyrir Ísland og Íslendinga“

Þann 1. nóvember 2006 birtist grein hér í blaðinu undir fyrirsögninni Ísland fyrir Íslendinga? Greinarhöfundur var hinn annars geðprúði lögmaður Jón Magnússon, núverandi þingmaður flokksins í Reykjavíkurkjördæmi. Í greininni var varað við þeirri fjölgun útlendinga sem orðið hafði á Íslandi, sérstaklega þó við múslimum: „Ég vil ekki fá hingað fólk úr bræðralagi múhameðs.“ Einnig sagði Jón: „Við erum svo lítið sandkorn í þjóðahafinu að mesta ógn sem sjálfstæð íslensk þjóð og íslensk menning hefur nokkru sinni staðið frammi fyrir er núna. Það er okkar hlutverk að velja leiðina áfram. Fyrir Ísland og Íslendinga.“ Aðrir forystumenn Frjálslynda flokksins fylgdu í kjölfarið og tóku sér stöðu gegn innflytjendum. Umræðan sem gaus upp í kjölfarið var óhemju hörð. Til að mynda sagði varaformaður flokksins viku síðar í ræðu á Alþingi að það hafi verið „svartur dagur í sögu þjóðarinnar“ þegar Pólverjar og aðrir ESB-borgarar frá ríkjum Austur-Evrópu fengu atvinnuréttindi á Íslandi í maí 2006.

Vandi Frjálslynda flokksins á þessum tíma var ekki síst sá að flokkurinn hafði langtímum saman mælst vel undir því lágmarksfylgi sem þarf til að fá mann kjörinn á þing. Í kjölfar framanlýstrar andstöðu við innflytjendur rauk fylgi flokksins úr tveimur prósentum upp í heil ellefu prósent í nóvemberkönnun Gallup. Flokkurinn var kominn í feitt.

„skipulagðar nauðganir“
Næstu mánuði hélt flokkurinn umræðunni vakandi. Í setningarræðu á landsfundi Frjálslynda flokksins í janúar 2007 talaði formaður flokksins meðal annars um mikilvægi þess að skima vel þá innflytjendur sem vildu koma til landsins: „Heilbrigðisyfirvöld þurfa að vera á varðbergi varðandi smitsjúkdóma eins og berkla.“ Þá vildi formaðurinn kanna „hugsanlega sakaferla,“ og „meta menntun“ svo að eitthvað sé nefnt. Meðal almennra flokksmanna og fylgismanna Frjálslynda flokksins var orðræðan mun harðari. Núverandi formaður ungliðahreyfingar flokksins, Viðar Helgi Guðjohnsen, skipaði 5. sæti á lista Frjálslynda flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður. Í grein á bloggsíðu sinni um innflytjendamál varaði hann við auknum fjölda innflytjenda og sagðist meðal annars hafa áhyggjur af því að laun kynnu að lækka, að innflytjendum fylgdi „eiturlyfjasala“, „mansal“, „berklar“, „nauðungarvinna“ og „skipulagðar nauðganir“. Á fundi Frjálslynda flokksins 3. apríl 2007 sagði Kristinn Snæland, flokksmaður í Frjálslynda flokknum, um reynslu sína frá Svíþjóð: „Ég get sagt ykkur það. Ég fann ekki að ég væri, ef ég segi minni gömlu Málmey. Þarna voru Tyrkir og svertingjar og múslimar að selja kebab og pítsur og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta var óhuggulegt.“

Hér eru aðeins nokkur dæmi nefnd. Sem betur fer mætti þessi málflutningur harðri andstöðu í þjóðmálaumræðunni og eftir því sem nær dró kosningum lagði flokkurinn meiri áherslu á önnur mál og dró töluvert úr hörkunni í málflutningi sínum um innflytjendamál. Fylgi flokksins seig þó nokkuð í aðdraganda kosninganna 12. maí 2007 og endaði í 7,3 prósentum í kosningunum. 

24 stundir. 14. mars 2007.


Slæður

Glærurnar frá morgunverðarfundinum í gær eru hér.

Morgunverðarfundur í beinni

Morgunverðarfundur um bókina okkar Jóns Þórs, Hvað með evruna?, verður haldinn í fyrramálið á Grand Hotel og stendur frá 08:15 -10:00. 

Við Jón Þór verðum með sitt hvort erindið og í pallborði verða Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ, Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og Kristín Pétursdóttir, forstjóri og annar stofnenda Auðar Capital. Fundarstjóri er Ágúst Einarsson, rektor Háskólans á Bifröst.

Aðgangur er ókeypis og öllum heimill og ekki er nauðsynlegt að skrá þátttöku. Hægt verður að hlusta á dagskrá fundarins á vef Bifrastar.


Tímaspursmál

Um nokkurt skeið hefur mátt sjá fyrir að þau hörðu átök sem orðið hafa milli innflytjenda og innfæddra í mörgum Evrópuríkjum væru á leiðinni til Íslands. Við sjáum nú skýr merki um þessa þróun í fjölmiðlum. Nýlega var sagt frá því hér í blaðinu að hópur Íslendinga hafi gengið svo illilega í skrokk á manni frá Marokkó í miðbæ Reykavíkur að líf hans var í bráðri hættu. Í vikunni sagði DV svo frá því að pólsk stúlka hafi orðið fyrir hrottafenginni árás af hendi þriggja íslenskra kvenna, sem var svona ógurlega illa við þjóðerni hennar. Ég er ansi hræddur um að við eigum eftir sjá fleiri fréttir af þessum toga á næstu misserum, - sér í lagi ef atvinnuleysi eykst. Þannig hefur það orðið í nágrannalöndunum og þróunin er því miður nákvæmlega sú sama hér, aðeins nokkrum árum á eftir.

Það var í þessum drullupolli sem Frjálslyndi flokkurinn fór að hræra í haustið 2006, þegar flokkurinn kaus að efna til ófriðar við innflytjendur í aðdraganda þingkosninga. Upp úr seinni heimstyrjöld áttu hægriöfgaflokkar erfitt uppdráttar í Evrópu, enda voru slíkir flokkar beintengdir við hörmungar þjóðernisstefnunnar í Þýskalandi og á Ítalíu. Slíkum flokkum fór hins vegar að fjölga á áttunda áratugnum en þá náðu sex slíkir flokkar mönnum kjörnum á þing í jafnmörgum Evrópuríkjum. Um miðjan níunda áratuginn voru hægriöfgaflokkar með fulltrúa á þingi orðnir fimmtán talsins í Evrópu. Þeirra á meðal má nefna Front National í Frakklandi og Frelsisflokkinn í Austurríki. Danir voru til skamms tíma í fararbroddi evrópsks frjálslyndis en hafa nú horfið af þeirri braut. Fyrir fáeinum árum þótti málflutningur Danska þjóðarflokksins í málefnum innflytjenda með öllu óásættanlegur og flokkurinn fékk tæpast inni í alvarlegri umræðu. Nú er Danski þjóðarflokkurinn hins vegar virkur þátttakandi í dönsku stjórnkerfi.

Þrátt fyrir hörmungar fasismans á þriðja og fjórða áratugnum hurfu þjóðernishugmyndir Evrópubúa ekki við endalok síðari heimstyrjaldar. Eftir stríð sárvantaði erlent vinnuafl til að byggja álfuna úr rústum eigin gereyðingarstyrjaldar en svo virðist sem stjórnvöld í mörgum Evrópuríkjum hafi ekki áttað sig á að með því að flytja inn vinnuafl fengu þau fólk. Og það með öllum þeim vandamálum sem slíkum fyrirbærum fylgir. Vinnuafl er nefnilega ekki eins og hver önnur vara sem hægt er að nota og fleygja svo á haugana þegar ekki er lengur brúk fyrir hana. Í opinberri umræðu var talað um erlent vinnuafl sem farandverkamenn en margir þeirra voru alls ekkert á förum. Því miður virtust stjórnvöld í Evrópu ekki átta sig á þessu og áreksturinn á milli innflytjenda og innfæddra varð miklu harðari en ella hefði þurft að verða þegar hjaðna tók á atvinnumarkaði. Þá sat eftir fjöldi aðkomumanna sem keppti við innfædda um vinnuna. Ennfremur hafði lítið verið gert til að laga innflytjendur að nýjum siðum í nýjum heimkynnum. Og þar sem litið var á innflytjendur sem vinnuafl, en ekki fólk af holdi og blóði, var fátt gert til að undirbúa þá sem fyrir voru undir þá staðreynd að fjölmenningarlegt samfélag hafði þá þegar tekið við af hinu gamla evrópska einmenningarþjóðfélagi.
Víða urðu til svo gott sem hreinræktuð innflytjendagettó. Innflytjendur fluttu í ódýrustu hverfin og þegar hlutfall þeirra hafði náð vissu marki flúðu innfæddir úr hverfinu, það er að segja sá hluti sem hafði á því ráð. Þegar hefðbundin borgarhverfi breyttust með þessum hætti í nær hreinræktuð innflytjendahverfi virtust borgaryfirvöld víða missa áhugann á að halda þeim við. Þar með urðu til gettó. Samgangur innflytjenda og innfæddra var af þessum sökum víða lítill. Skortur á aðlögun sem birtist í hálfgildings aðskilnaðarstefnu milli menningarhópa leiddi svo af sér gagnkvæma tortryggni, sem aftur leiddi til aukinna árekstra og átaka. Smám saman fóru fasískar hugmyndir, sem kraumað hafa í huga margra Evrópubúa, að fljóta aftur upp á yfirborð stjórnmálanna. Kannast menn við lýsinguna?

24 stundir. 7. mars 2008.


Önnur prentun á leiðinni

Bókin Hvað með evruna?, eftir okkur Jón Þór Sturluson er uppseld hjá útgefanda. 750 eintök eru farin út á aðeins þremur dögum. Meira segja búið að hafa af mér öll höfundareintökin sem ég ætlaði að gefa vinum og vandamönnum. Einhver eintök eru þó enn fáanleg í bókabúðum en önnur prentun er væntanleg eftir helgi, - þá koma 500 eintök til viðbótar.

Ný bók: Hvað með evruna?

Á morgun kemur út ný bók eftir sjálfan mig og dr. Jón Þór Sturluson, hagfræðing. hvad med evrunaBókin heitir Hvað með evruna?, og er afrakstur tveggja ára rannsóknar sem Evrópufræðasetrið á Bifröst gerði að ósk Alþýðusambands Íslands og Samtaka iðnaðarins. Í bókinni eru helstu álitamál varðandi hugsanlega innleiðingu evru á Íslandi greind á einfaldan og aðgengilegan hátt. Fjallað er um myntsamruna í Evrópu og skoðað hvaða áhrif innganga í Evrópusambandið og upptaka evru hefðu á íslenskt efnahagslíf og samfélag. Helstu niðurstöður eru þessar:

Ísland hefur aðeins tvo raunhæfa kosti í peningamálum. Annað hvort að viðhalda núverandi stefnu með sjálfstæðri krónu á floti eða að ganga í Efnahags- og myntbandalag Evrópu og taka upp evru. Ef ríki hefur á annað borð kost á fullri aðild að myntbandalagi Evrópu er vandséð hvaða hag það hefur af því að taka evruna upp einhliða. Líkast til mun taka alls fjögur ár að semja um aðild að ESB og innleiða evru á Íslandi að því loknu. Evran er því langtímamál og mun ekki duga sem lausn á skammtímavanda í íslensku efnahagslífi. Í bókinni er fjallað um hvaða áhrif innleiðing evru myndi hafa fyrir íslenskt efnahagslíf og samfélag. Stutta svarið er nokkuð skýrt. Í fyrsta lagi verður hagkerfið stöðugra, vextir lægri og viðskiptakostnaður minni. Þá má gera ráð fyrir að viðskipti aukist þegar gengisáhætta minnkar. Verðlag ætti að lækka og kaupmáttur að aukast. Helsti ókosturinn er á móti sá að Seðlabanki Íslands missir úr eigin hendi ákvörðun um innlenda stýrivexti. Við upptöku evru verður heldur ekki hægt að lækka raunlaun með því að fella gengið sem getur valdið ákveðnum erfiðleikum á vinnumarkaði. Þótt meginlínurnar séu nokkuð ljósar eru eigi að síður fjöldamörg álitaefni sem ítarlega eru rædd í bókinni.


Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband