Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Kreppa á jeppa

Ég hef verið að spóka mig í litlu þorpi í Austurríki undanfarna daga. Hér eru allir sallarólegir yfir vandræðum íslensku bankanna. Enginn talar um fjármálakreppu. Menn eru bara að eitthvað að spá í vorið. Hér eru líka afar fáir jeppar. Og þau fáu fjórhjólatól sem þræða göturnar líkast til ekki á kaupleigu. Kannski ég ætti að færa þessar fáu krónur sem ég á hingað?


Svo sýður upp úr

Svo virðist sem auðveldasta leiðin fyrir danska stjórnmálamenn til að ná athygli æsingaþystra fjölmiðla og öðlast tímabundinn stuðning háværra hópa heima fyrir sé að leggja illt orð til innflytjenda, - sér í lagi múslima. Lengst af voru það helst stjórnmálamenn í Danska þjóðarflokknum og síðar hægriflokknum Venstre sem lögðust svo lágt. En þegar hinn geðþekki leiðtogi danskra vinstri manna Villy Søvndal fer að hræra í þessum sama drullupolli er fjandinn laus. Deilan sem varð í kjölfar Múhameðsteikninganna þar sem spámaðurinn birtist sem hryðjuverkamaður og morðóður saurlífsseggur gaus upp á nýjan leik um daginn þegar svo til öll dagblöð Danmerkur ákváðu að birta eina afskræmingarmyndina vegna þess eins að lögreglan grunaði þrjá unga múslimadrengi um samsæri gegn teiknaranum. Það þótti semsé rétt að saurga trúarbrögð milljóna manna vegna þess að þrír einstaklingar höfðu lagt á ráðin um glæp.

Skotgrafir

Allir sem þekkja til í Danmörku vita að andrúmsloftið á milli innfæddra og innflytjenda er grafalvarlegt. Í fjölmiðlum hér heima er okkur sagt frá því að múslimar brenni bíla og berji gamlar konur fyrir engar sakir. En einhverra hluta vegna þykir sú staðreynd ekki jafn fréttnæm að mun fleiri innflytjendur eru barðir til óbóta og drepnir af dönskum rasistum heldur en innfæddir Danir sem verða fyrir árás af hendi innflytjenda. Í Danmörku hefur undangengin áratug orðið stórhættuleg pólaríseríng í samfélaginu þar sem sífellt er verið að ala á tortryggni í garð útlendinga. Gagnkvæm tortryggnin magnast svo upp og verður smám saman að hreinni andúð. Svo sýður uppúr. Því miður eru margir Danir komnir svo djúpt ofan í skotgrafirnar að þeir sjá málið aðeins frá sinni eigin niðurgröfnu hlið sem byrgir þeim auðvitað sín á vandann. Yfirsýnin hverfur. Sú blinda verður svo til þess að menn sjá enga aðra leið heldur en að skvetta olíu á eldinn. Bókstaflega.

Hingað til að hafa vinstri menn í Danmörku frekar reynt að róa ástandið en nú er sjálfur leiðtogi þeirra farinn að grafa sig ofan í jörðina. Í fyrradag lagði Villy Søvndal semsé til múslíma í grein á heimasíðu sinni og var umsvifalaust klappaður upp. Að vísu gerði hann örlitla tilraun til að greina á milli íslamista og annarra múslimskra innflytjenda sem gjarnan vilja aðlagast dönsku samfélagi. Vissulega stafar ákveðin ógn af uppgangi Íslamista í Evrópu og auðvitað eigum við að berjast gegn öllum þeim sem ekki virða vestræna lifnaðarhætti. Það á ekki gefa neinn afslátt á því. Vandinn er hins vegar sá að í almennri umræðu í Danmörku er þessum gjörólíku hópum yfirleit grautað saman í gruggugan grautarpott þar sem rasistarnir hræra sína göróttu eitursúpu í öruggu skjóli gagnrýnislausra fjölmiðla. Svo botna leiðtogar Dana ekkert í því að hver alþjóðarannsóknin á fætur annarri sýnir að hvergi á Vesturlöndum er verra fyrir innflytjendur að búa heldur en í Danmörku og að hvergi fjalla fjölmiðlar með neikvæðari hætti um íslam heldur en í Danmörku.

Þversögn

Þrátt fyrir þessa neikvæðu afstöðu til innflytjenda er óvíða gerð ríkari krafa um að innflytjendur aðlagist samfélaginu heldur en í Danmörku. Þeim er ætlað að fordanska sig, eins og það heitir nú í málflutningi Danska þjóðarflokksins. Þeir eiga að yfirtaka dönsk gildi; almenn gildi á borð við frelsi, lýðræði og mannréttindi en einnig það sem sérstaklega danskt þykir; fánann, smurbrauð, Kim Larsen, Rødgrød med fløde, krúnuna og Carlsberg. Þversögnin er bara sú að á sama tíma er andúðin slík að þeir eru svo gott sem útilokaðir fá samfélaginu.

Því miður stefnir allt í að nákvæmlega sama þróun verði hér á Íslandi.

24 stundir. 22. febrúar 2008.


Ekki eftir neinu að bíða

Mér þykir skemmtilegt að vita til þess að Ísland hafi verið fyrst eða í hópi fyrstu ríkja til að viðurkenna ríki á borð við Eistland, Letttland, Litháen, Slóveníu og Króatíu. Í sjálfu sér er engin ástæða til að bíða með að viðurkenna sjálfstæði Kosovo eftir að ósk um það barst með yfirlýsingu Kosovoalbana í gær. Það stendur líka alveg sérstaklega upp á litla þjóð eins og okkur að standa með öðrum smáþjóðum. Það er því ekki eftir neinu að bíða.

 http://www.guardian.co.uk/world/2008/feb/18/kosovo.serbia4


Vikulokin

Við Bjarni Benediktsson og Kolbrún Halldórsdóttir vorum gestir Hallgríms Thorsteinssonar í Vikulokunum á Rúv í dag. Upptöku af þættinum má finna hér.

Átök, hatur og sífelldar ögranir

Í blöðunum í dag eru tvær fréttir sem varpa ljósi á sama vandamálið en frá sitt hvorri hliðinni. Annars vegar er sagt frá skopmyndamálinu í Danmörku sem komið er af stað á nýjan leik eftir að þrír múslimar í Danmörku voru handteknir, grunaðir um að hafa lagt á ráðin með að bana einum teiknaranna sem birtu myndir af Múhameð spámanni í Jótlandspóstinum. Hitt málið gerðist hér heima en hópur borinna og barnfæddra Íslendinga gekk illilega í skrokk á manni frá Marokkó í miðbæ Reykavíkur og stakk hann meðal annars með hnífi svo líf hans var í bráðri hættu. Semsé hrein og klár morðtilraun. Ég er ansi hræddur um að við eigum eftir sjá fleiri fréttir af þessum toga á Íslandi á næstu misserum. Þessi átök eiga bara eftir að magnast hér á landi, allavega á meðan stjórnmálamennirnir þverneita að horfast í augu við vandann og láta duga að bora höfðinu á bólakaf í sandinn. Hagfræðingar segja að atvinnuleysi muni aukast á næstu mánuðum, þá verður stutt í að upp úr sjóði. Þannig hefur það gerst í nágrannalöndunum og þróunin er því miður nákvæmlega sú sama hér, aðeins nokkrum árum á eftir.

Jóhanna

Ég mun sjá eftir Jóhönnu úr Kastljósinu, enda bæði skemmtileg og röggsöm sjónvarpskona. Skrýtið annars að hún skuli nú gjalda fyrir borgarstjórnarfíaskóið með starfi sínu, nærtækara að aðrir og nátengdari málinu tækju pokann sinn.

Við ystu mörk

Ætli ég hafi ekki verið svona sex ára þegar ég byrjaði að æfa fótbolta með Val. Var fyrstu vikurnar í marki en svo fljótt færður út á vinstri kannt, enda örvfættur.  Á æfinagsvæði Vals varð vart þverfótandi fyrir einhverjum mestu hetjum sem ég hafði augum litið. Dýri Guðmundsson bar höfðuð og herðar yfir flesta aðra en einnig mátti sjá markahrókinn Inga Björn Albertsson og Atla Eðvaldsson valhoppa um grasbalana við Hlíðarenda með bolta á tánum. Þetta var ekki ónýtt fyrir lítinn snáða. Ingi Björn, sem virtist hafa lengri stórutá en aðrir leikmenn, kenndi okkur að pota boltanum í hornið framhjá markverðinum og Atli kenndi okkur að taka hjólhestaspyrnu og þruma boltanum í fallegan boga undir samskeytin.

Í hverri viku sýndi Bjarni Fel svo vikugamlan leik úr ensku knattspyrnunni í Ríkissjónvarpinu sem við lágum yfir. Og jafnvel þótt sjónvarpið sýndi aðeins svart og hvítt á þessum árum héldum við strákarnir nokkuð skilyrðislaust með Liverpool því liðið spilaði jú í rauðum treyjum eins og Valsmenn.

Blátt bann

Mér verður stundum hugsað til þessa þegar ég heyri íslenska hægrimenn lýsa yfir stuðningi við bandaríska Repúlíkanaflokkinn. Ef við berum saman stefnu þessara flokka kemur í ljós heilt ginnungargap. Bandarískir repúblíkanar eru upp til hópa andvígir opinberu heilbrigðistkerfi, opinberu menntakerfi og vilja helst láta trúfélögum eftir að sjá um velferðarþjónustu. Sumir gætu haldið að þessi stefna kæmi til vegna þess að þeir hefðu bara svo litla trú á opinbergum útgjöldum. Svo er þó ekki. Á sama tíma og bandarískir repúblíkanar tala fyrir stórfelldri skattalækkun þá boða þeir nefnilega um leið stóraukin útgjöld til hermála, enda eru þeir margir hverjir nokkuð almennt fylgjandi innrásum í arabíríki. Og það kostar auðvitað sitt. Það er heldur ekki svo, sem sumir virðast halda, að repúblíkanar í Bandaríkjunum vilji einfaldlega lágmarka íhlutun hins opinbera í lífi fólks, að einstaklingurinn eigi að ráða sér sjálfur og bera ábyrgð á sjálfum sér. Þvert á móti. Um leið og repúblíkanar hafna opinberri velferðarþjónustu boða þeir nefnilega blátt bann við fóstureyðingum og giftingum samkynhneigðra.

Sjálfstæðismenn til vinstri

Ég þekki fáa Sjálfstæðismenn sem eru tilbúnir að skrifa upp á svona stjórnmálastefnu. Þess vegna getur verið torvelt að skýra hvers vegna svo margir fylgjendur Sjálfstæðisflokksins á Íslandi leggja lag sitt við bandaríska repúblíkana. Ég kem allavega ekki auga á nokkra skynsamlega skýringur fyrir slíkum stuðningi.

Svo virðist raunar sem margir fylgismenn Sjálfstæðisflokksins á Íslandi halli sér að repúblíkönum í Bandarkjunum á nákvæmlega sömu forsendum og við Valsmenn fórum að halda Liverpool. Að vísu má segja að þessi samsömun við repúblíkana sé kannski ekki með öllu óskiljanleg því íslenskir fjölmiðlar segja gjarnan frá forsetakosningnunum í Bandaríkjunum eins og um hvern annan íþróttakappleik væri að ræða. Við fáum að vita hvernig frambjóðendur standa í skoðanakönnunum en lítið er fjallað um hvaða stjórnmálasefnu þeir boða. Svo er það vissulega rétt að Sjálfstæðisflokkurinn á Íslandi og Repúblíkanaflokkurinn í Bandaríkjunum flokkast báðir hægra megin við miðju í sínu landi. En þar endar líka samanburðurinn. Raunin er nefnilega sú að ef Sjálfstæðisflokkurinn, með þá stefnu sem hann boðar á Íslandi, væri þátttakandi í bandarískum stjórnmálum myndi hann ekki aðeins flokkast vel vinstra megin við Repúblíkanaflokkinn, heldur einnig langt til vinstri við Demókrata. Á ás stjórnmálanna myndi Hillary Clinton líkast til mælast nokkuð vel hægra megin við Hannes Hólmstein.

24 stundir. 8. febrúar 2008.


REI og samtryggingarkerfi stjórnmálamanna

Það er vissulega í eðli stjórnmálamanna að klóra augun úr pólitískum andstæðingum sínum og keppnautum innan eigin flokks. Um leið má ekki gleyma að samtryggingarkerfi stjórnmálamanna þvert á flokkslínur er ekki síður mikilvægur þáttur í að skýra hegðun manna í pólitík. Ég fæ ekki varist þeirri hugsun að eitthvað sé enn ósagt varðandi þessa REI-skýrslu. 

Minn maður er Mike Gravel

Sá þetta próf á vefnum hans Egils Helgasonar. Eins og Egill stend ég stend ég næst Mike Gravel, mælist með 61 stig í samanburði við hann. Næst á eftir eru Hillary Clinton og Barak Obama þar sem ég fæ 52 stig. Ég á hins vegar alls ekki neitt sameiginlegt með Mike Huckabee, 0 stig þar.

Fjölþjóðlegt samstarf

Gaman að segja frá því að Evrópufræðasetur Háskólans á Bifröst hefur ásamt 65 háskólastofnunum víðsvegar í Evrópu gengið frá samningi við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um að koma á fót samstarfsneti Evrópufræða í álfunni. Í þessu viðamikla fjölþjóðlega verkefni koma margir færustu fræðimenn á sviði Evrópufræða (frá 66 háskólum í 30 Evrópuríkjum) saman og mynda með sér formlegan samstarfsvettvang til að vinna að sameiginlegum rannsóknum.

Meðal verkefna Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst verður að hafa umsjón með fjölþjóðlegri rannsókn á ólíkum tengslum Norðurlandanna við Evrópusamrunann.

Sjá vefsvæði SENT-verkefnisins: http://www.sent-net.uniroma2.it/


Næsta síða »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband