Leita í fréttum mbl.is

Um bólur og bólustóttir

Munið þið eftir nýja hagkerfinu? Þegar netbólan fór að blása út undir nýliðin aldamót fóru einhverjir úrtölumenn að fjasa um að það væri nú kannski heldur lítil innistæða fyrir verðmati sumra fyrirtækja, sér í lagi ýmissa tölvu- og tæknifyrirtækja, sem höfðu sprottið fram úr dimmum tölvuleikjasölum og vaxið í veldisvís á alnæmum heimsmarkaði alnetsins svokallaða. Virði fyrirtækjanna var komið í hæstu hæðir og umsvifin svo ofboðsleg að jafnvel rykföllnustu félagsfræðikennarar voru orðnir staffírugir ráðgjafar í örtækni og hvers konar míkróflögum.

Hagkerfið var í blóma, svo miklum blóma að nánast hvaða sprota sem stungið var ofan í sólblómamaríneraðan jarðveginum fór fyrirhafnarlítið að vaxa af sjálfu sér. Það þurfti lítið að vökva. Þó var einn vandi sem lá eins og grá steinvala ofan á rjómabolluástandinu. Tekjurnar létu á sér standa. Gjöldin voru þó á sínum stað og uxu bara og uxu eins og baunagrasið hans Jóa.

Nýja hagkerfið

En þetta þótti ekki mikill vandi. Spekingar netbólunnar smíðuðu sér einfaldlegta nýja kenningu. Nú var komið nýtt hagkerfi. Nýja hagkerfið var að þeirra sögn ekki lengur bundið af takmörkunum gamla hagkerfisins. Nú var ekkert lögmál að fyrirtæki þyrftu að hafa tekjur umfram gjöld. Það gilti aðeins í gamla hagkerfinu, í gömulum iðn- og framleiðslufyrirtækjum. Svoleiðis rekstur var álitinn gamaldags. Mestu máli skipti að konseptið, eins og það var kallað, væri gott. Ef konseptið var gott þá þyrfti ekki að hafa áhyggjur af tekjum. Þær myndu koma svo gott sem sjálfkrafa í ofurbjartri framtíðinni. Bókfærslukennarar í framhaldsskólum fengu um leið skömm í hattinn fyrir gamaldags hallærishugsun. Helst þyrfti að senda þá alla í endurmenntun. Fyrirtæki voru ekki lengur rekin fyrir tekjur af rekstri heldur fyrir hlutafé sem sparifjáreigendur dældu gagnrýnislítið inn í fyrirtæki nýja hagkerfisins. Restin var tekin að láni. Brennsluhraði hlutafjár varð mikilvægari mælieining heldur en hefðbundin tekjuáætlun. Svo sprakk netbólan með látum upp úr aldamótum. Ástandið var svo bjart að menn fengu ofbirtu í augun og sáu ekki hætturnar sem blöstu við þegar sólin hneig til viðar.

Gamaldags hagfræðilögmál

Munið þið eftir verðbréfaguttunum sem fylltu alla sjónvarpsþætti og spáðu endalausum uppgangi verðbréfa? Að vísu voru alltaf einhverjir afdankaðir hagsögufræðingar að minna menn á að efnahagskerfi heimsins gangi yfirleitt í nokkrum sveiflum. En boðberar nýja hagkerfisins gáfu lítið fyrir svoleiðis speki. Nú væri ný tíð og gamaldas hagfræðilögmál giltu ekki lengur. Það var búið að taka þyngdarlögmálið úr sambandi. Það var komið nýtt fjármálakerfi. Peningar voru ekki lengur takmörkuð auðlind. Í nýja fjármálakerfinu þurfti bara útsjónarsama og umfram allt hugaða útrásarvíkinga til að finna uppsprettuna og virkja hana. Þá gætu menn eytt að vilt. Málið var að kaupa, ekki að borga. Á morgun er annar dagur og allt það.

Aldrei aftur Elton John

Muniði Range Roverana? Einkaþoturnar? Þyrlurnar? Og sjálfan Elton John? Muniði alla kaupleigusamningana, raðgreiðslurnar, fjármögnunarsamningana? Eins og pönkararnir í gamla daga treystu nýju fjármáladúddarnir engum yfir þrítugt. Grandvarir eldri bankamenn voru settir til hliðar. Þeir kunnu ekki á nýja glóbal fjármálakerfið. Kunnu ekki eyða eins og alvöru menn. Voru sífellt að þrasa um debit þegar hægt var einbeita sér að kredit. Aftur settu sparifjáreigendur allt sitt traust á unggíruga fjármálafursta. Svo hrundi úrvalsvísitalan í Kauphöllinni. Svo féll gengið. Verðbólgudraugurin sá að því loknu um að brenna upp restina. Og vextirnir, maður lifandi!

Leiðtogar þjóðarinnar eru nú í einkaþotunni alræmdu á leiðinni af Nató-fundi. Við bjóðum þau velkomin heim.

24 stundir. 4. apríl 2007.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband