Leita í fréttum mbl.is

Hvað sögðu þeir?

Í síðasta pistli mínum hér í blaðinu varaði ég við að þau hörðu átök sem orðið hafa milli innflytjenda og innfæddra víða í Evrópu gætu einnig verið að magnast upp hér á Íslandi. Ég benti á að að harkan í málflutningi Frjálslynda flokksins í málefnum innflytjenda í aðdraganda síðustu alþingiskosninga hafi verið í takt við innflytjendaandstöðu ýmissa álíka flokka erlendis. Svo virðist sem þessi litli pistill minn hafi komið sumum forystumönnum flokksins illilega úr jafnvægi. Þeir könnuðust heldur ekkert við málið. Mér er sagt að sum ummæli forystumanna flokksins á vefsíðum í minn garð varði jafnvel við meiðyrðalöggjöfina. Ég nenni nú ekki standa í svoleiðis veseni. En hver var eiginlega málflutningur flokksins?

„Fyrir Ísland og Íslendinga“

Þann 1. nóvember 2006 birtist grein hér í blaðinu undir fyrirsögninni Ísland fyrir Íslendinga? Greinarhöfundur var hinn annars geðprúði lögmaður Jón Magnússon, núverandi þingmaður flokksins í Reykjavíkurkjördæmi. Í greininni var varað við þeirri fjölgun útlendinga sem orðið hafði á Íslandi, sérstaklega þó við múslimum: „Ég vil ekki fá hingað fólk úr bræðralagi múhameðs.“ Einnig sagði Jón: „Við erum svo lítið sandkorn í þjóðahafinu að mesta ógn sem sjálfstæð íslensk þjóð og íslensk menning hefur nokkru sinni staðið frammi fyrir er núna. Það er okkar hlutverk að velja leiðina áfram. Fyrir Ísland og Íslendinga.“ Aðrir forystumenn Frjálslynda flokksins fylgdu í kjölfarið og tóku sér stöðu gegn innflytjendum. Umræðan sem gaus upp í kjölfarið var óhemju hörð. Til að mynda sagði varaformaður flokksins viku síðar í ræðu á Alþingi að það hafi verið „svartur dagur í sögu þjóðarinnar“ þegar Pólverjar og aðrir ESB-borgarar frá ríkjum Austur-Evrópu fengu atvinnuréttindi á Íslandi í maí 2006.

Vandi Frjálslynda flokksins á þessum tíma var ekki síst sá að flokkurinn hafði langtímum saman mælst vel undir því lágmarksfylgi sem þarf til að fá mann kjörinn á þing. Í kjölfar framanlýstrar andstöðu við innflytjendur rauk fylgi flokksins úr tveimur prósentum upp í heil ellefu prósent í nóvemberkönnun Gallup. Flokkurinn var kominn í feitt.

„skipulagðar nauðganir“
Næstu mánuði hélt flokkurinn umræðunni vakandi. Í setningarræðu á landsfundi Frjálslynda flokksins í janúar 2007 talaði formaður flokksins meðal annars um mikilvægi þess að skima vel þá innflytjendur sem vildu koma til landsins: „Heilbrigðisyfirvöld þurfa að vera á varðbergi varðandi smitsjúkdóma eins og berkla.“ Þá vildi formaðurinn kanna „hugsanlega sakaferla,“ og „meta menntun“ svo að eitthvað sé nefnt. Meðal almennra flokksmanna og fylgismanna Frjálslynda flokksins var orðræðan mun harðari. Núverandi formaður ungliðahreyfingar flokksins, Viðar Helgi Guðjohnsen, skipaði 5. sæti á lista Frjálslynda flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður. Í grein á bloggsíðu sinni um innflytjendamál varaði hann við auknum fjölda innflytjenda og sagðist meðal annars hafa áhyggjur af því að laun kynnu að lækka, að innflytjendum fylgdi „eiturlyfjasala“, „mansal“, „berklar“, „nauðungarvinna“ og „skipulagðar nauðganir“. Á fundi Frjálslynda flokksins 3. apríl 2007 sagði Kristinn Snæland, flokksmaður í Frjálslynda flokknum, um reynslu sína frá Svíþjóð: „Ég get sagt ykkur það. Ég fann ekki að ég væri, ef ég segi minni gömlu Málmey. Þarna voru Tyrkir og svertingjar og múslimar að selja kebab og pítsur og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta var óhuggulegt.“

Hér eru aðeins nokkur dæmi nefnd. Sem betur fer mætti þessi málflutningur harðri andstöðu í þjóðmálaumræðunni og eftir því sem nær dró kosningum lagði flokkurinn meiri áherslu á önnur mál og dró töluvert úr hörkunni í málflutningi sínum um innflytjendamál. Fylgi flokksins seig þó nokkuð í aðdraganda kosninganna 12. maí 2007 og endaði í 7,3 prósentum í kosningunum. 

24 stundir. 14. mars 2007.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband