Leita í fréttum mbl.is

Svo sýður upp úr

Svo virðist sem auðveldasta leiðin fyrir danska stjórnmálamenn til að ná athygli æsingaþystra fjölmiðla og öðlast tímabundinn stuðning háværra hópa heima fyrir sé að leggja illt orð til innflytjenda, - sér í lagi múslima. Lengst af voru það helst stjórnmálamenn í Danska þjóðarflokknum og síðar hægriflokknum Venstre sem lögðust svo lágt. En þegar hinn geðþekki leiðtogi danskra vinstri manna Villy Søvndal fer að hræra í þessum sama drullupolli er fjandinn laus. Deilan sem varð í kjölfar Múhameðsteikninganna þar sem spámaðurinn birtist sem hryðjuverkamaður og morðóður saurlífsseggur gaus upp á nýjan leik um daginn þegar svo til öll dagblöð Danmerkur ákváðu að birta eina afskræmingarmyndina vegna þess eins að lögreglan grunaði þrjá unga múslimadrengi um samsæri gegn teiknaranum. Það þótti semsé rétt að saurga trúarbrögð milljóna manna vegna þess að þrír einstaklingar höfðu lagt á ráðin um glæp.

Skotgrafir

Allir sem þekkja til í Danmörku vita að andrúmsloftið á milli innfæddra og innflytjenda er grafalvarlegt. Í fjölmiðlum hér heima er okkur sagt frá því að múslimar brenni bíla og berji gamlar konur fyrir engar sakir. En einhverra hluta vegna þykir sú staðreynd ekki jafn fréttnæm að mun fleiri innflytjendur eru barðir til óbóta og drepnir af dönskum rasistum heldur en innfæddir Danir sem verða fyrir árás af hendi innflytjenda. Í Danmörku hefur undangengin áratug orðið stórhættuleg pólaríseríng í samfélaginu þar sem sífellt er verið að ala á tortryggni í garð útlendinga. Gagnkvæm tortryggnin magnast svo upp og verður smám saman að hreinni andúð. Svo sýður uppúr. Því miður eru margir Danir komnir svo djúpt ofan í skotgrafirnar að þeir sjá málið aðeins frá sinni eigin niðurgröfnu hlið sem byrgir þeim auðvitað sín á vandann. Yfirsýnin hverfur. Sú blinda verður svo til þess að menn sjá enga aðra leið heldur en að skvetta olíu á eldinn. Bókstaflega.

Hingað til að hafa vinstri menn í Danmörku frekar reynt að róa ástandið en nú er sjálfur leiðtogi þeirra farinn að grafa sig ofan í jörðina. Í fyrradag lagði Villy Søvndal semsé til múslíma í grein á heimasíðu sinni og var umsvifalaust klappaður upp. Að vísu gerði hann örlitla tilraun til að greina á milli íslamista og annarra múslimskra innflytjenda sem gjarnan vilja aðlagast dönsku samfélagi. Vissulega stafar ákveðin ógn af uppgangi Íslamista í Evrópu og auðvitað eigum við að berjast gegn öllum þeim sem ekki virða vestræna lifnaðarhætti. Það á ekki gefa neinn afslátt á því. Vandinn er hins vegar sá að í almennri umræðu í Danmörku er þessum gjörólíku hópum yfirleit grautað saman í gruggugan grautarpott þar sem rasistarnir hræra sína göróttu eitursúpu í öruggu skjóli gagnrýnislausra fjölmiðla. Svo botna leiðtogar Dana ekkert í því að hver alþjóðarannsóknin á fætur annarri sýnir að hvergi á Vesturlöndum er verra fyrir innflytjendur að búa heldur en í Danmörku og að hvergi fjalla fjölmiðlar með neikvæðari hætti um íslam heldur en í Danmörku.

Þversögn

Þrátt fyrir þessa neikvæðu afstöðu til innflytjenda er óvíða gerð ríkari krafa um að innflytjendur aðlagist samfélaginu heldur en í Danmörku. Þeim er ætlað að fordanska sig, eins og það heitir nú í málflutningi Danska þjóðarflokksins. Þeir eiga að yfirtaka dönsk gildi; almenn gildi á borð við frelsi, lýðræði og mannréttindi en einnig það sem sérstaklega danskt þykir; fánann, smurbrauð, Kim Larsen, Rødgrød med fløde, krúnuna og Carlsberg. Þversögnin er bara sú að á sama tíma er andúðin slík að þeir eru svo gott sem útilokaðir fá samfélaginu.

Því miður stefnir allt í að nákvæmlega sama þróun verði hér á Íslandi.

24 stundir. 22. febrúar 2008.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband