Leita í fréttum mbl.is

Áfram West Ham

Ég er á leiðinni til London. Þegar þú lesandi góður lest þessar línur er ég líkast til kominn út á flugbrautina á Keflavíkurflugvelli og um það bil að spenna sætisólarnar. Hundruð - ef ekki hreinlega þúsund - Íslendinga leggja leið sína til heimsborgarinnar á hverjum degi svo þetta er auðvitað ekkert merkilegt. Tekur því varla að nefna það. En samt. Ég hef á þessum vettvangi áður borið saman að vera Íslendingur í Kaupmannahöfn nú og þegar ég bjó þar fyrir áratug. Þá voru Íslendingar undirmálsfólk á félagsmálabótum en nú eiga þeir líkast til bygginguna sem hýsir dönsk félagsmálayfirvöld. Og öll hin húsin líka. Það má líka draga svona samanburð við London, því íslenskir viðskiptamenn hafa einnig keypt allt sem hönd á festir í stórborginni og nú gengur Íslendingurinn rogginn um borgina og þykist eiga heiminn, - jafnvel þótt loftbólan í Kauphöllinni heima á Íslandi sé sprungin og gengi helstu hlutafélaga sigið niður undir frostmark. En þetta var ekki alltaf svona.

Ólöglegur áður ...

Þetta var í einhverju framhaldsskólaverkfallinu fyrir um tuttugu árum. Þá voru alltaf verkföll í skólum. Árstíðarnar voru fjórar eins og nú, en þá voru þær; vetur-sumar-verkfall-haust. Við gáfumst upp á hangsinu heima í Breiðholti og skelltum okkur til London í leit að lífinu. Þá vissi enginn hvað Ísland var, nema nokkrir unglingar í Soho sem höfðu hlustað á Sykurmolana og fáeinir menningarvitar í Hammersmith sem fíluðu Messoforte. Að öðru leyti var Ísland ekki til. Og við eiginlega ekki heldur. Fengum þó á endanum vinnu sem þjónar á Pizza hut við Oxford stræti. Tókum himinn höndum og hoppuðum af fögnuði yfir framgangi okkar í lífinu.

Að vísu vorum við kolólöglegir á þessum vinnustað því þá var ekkert EES. Við fundum þó leið framhjá þeim vanda. Í atvinnuviðtalinu þóttumst við vera Danir en danskir máttu vinna í Englandi á grundvelli Evrópusambandsins. Við vorum hins vegar alveg jafnólöglegt vinnuafl og rúmennskir munnhörpuleikarar á Akureyri og tælendingarnir sem skúra reykvísk heimili fyrir skít og ekki neitt í kaup á Íslandi í dag. En þar sem við voru auðvitað alveg jafn fölbleikir í framan og meðal Dani gekk þetta ágætlega. Á hverjum degi gleymdum við svo samviskusamlega danska vegabréfinu okkar heima, eða allt þar til vinnuveitandinn hætti að spyrja um það. Okkur tókst meira að segja að blekkja útlendingaeftirlitið eitt sinn þegar eftirlitsmaður kom óvænt í heimsókn.

Einu sinni lentum við þó í slæmum bobba, það var þegar hópur danskra stúlkna kom á staðinn. Yfirþjónninn kallaði umsvifalaust á okkur og tilkynnti hópnum að hér væru danskir þjónar og þær gætu því notað móðurmál sitt. Þar sem við kunnum ekki frekar en aðrir íslenskir menntskælingar að raða saman tveimur orðum á dönsku stóðum við á eins og mállausir asnar á öndinni og komum ekki upp dönsku orði. Líkast til var líka verkfall þegar við áttum að læra talmálsdönsku heima í Hólabrekkuskóla.

... fínn maður í dag

En nú er þetta allt breytt. Nú má maður má vinna hvar sem er og þarf ekki að vera danskur til þess. Íslendingar eiga aðra hverja búð við Oxford stræti og glás af veitingastöðum. Meira að segja fótboltalið í efstu deild. Það er þess vegna að við félagarnir ætlum að kíkja á leik West Ham og Fulham á morgun. Ekki sem pizzaþjónar heldur eins og fínir menn. Sem sannir Íslendingar munum við svo kalla einum rómi: Áfram West Ham!

24 stundir. 11. janúar 2008.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband