Leita í fréttum mbl.is

Átök menningarheilda

Þegar kommúnismann í Austur-Evrópu þraut örendið eftir langa og kvalafulla dauðakippi undir lok níunda áratugarins og Sovétríkin sálugu liðuðust í sundur voru margir bjartsýnir á að tímabili ógnar og átaka væri liðið í Evrópu. Í hugum margra markaði fall Berlínarmúrsins 1989 endalok þeirra átaka sem hófust með heimstyrjöldinni miklu og kalda stríðsins sem fylgdi í kjölfarið. Ný heimsmynd var að verða til.

Það var í þessu ljósi sem Francis Fukuyama skrifaði sína frægu bók The End of History and the Last Man árið1992. Fukuyama vildi meina að átökum um þjóðfélagsskipan væri lokið, að menn hefðu loksins komið sér saman um opið lýðræðiskipulag sem byggir á markaðsbúskap og vernd mannréttinda. Hann vildi meina að stjórnmáladeilur nútímans væru allar tilbrigði við þetta sama stef. Fljótlega kom í ljós að ástandið var nú ekki svona einfallt.

Ári síðar birti Samuel Huntington fræga grein í Foreign affairs undir heitinu The Clash of Civilizations? Huntington var sammála því að tímabili átaka um hin stóru pólitísku hugmyndakerfi, kommúnisma og kapítalisma, væri lokið. Við sjónarrönd alþjóðastjórnmálanna sá hann hins vegar glitta í annars konar átakaás, - engu skárri. Átök ólíkra menningarheilda og trúarbragða. Frá því að grein Huntingons kom út sumarið 1993, og svo bók svipaðs efnis 1996, hefur þróunin í alþjóðasamskiptum því miður verið þráðbeint í átt til þess sem Huntington spáði.

Ógnir og átök í Danmörku

Ein birtingarmynd þessara menningarátaka blasir við okkur í Danmörku þessa dagana. Í vikunni voru átta múslimar handteknir í Kaupmannahöfn grunaðir um að standa að skipulagningu hryðjuverkaárása. Þeir sem fylgst hafa með samfélasgþróun í Danmörku undanfarin ár vita að sífellt hefur sigið á ógæfuhliðina í samskiptum aðfluttra múslima og kristinna Dana. Eins og svo víða í Vestur-Evrópu sóttu Danir vinnufúsar hendur út fyrir landsteinana á sjötta og sjöunda áratugnum til að starfa í láglaunastörfum í Danmörku. Margt af því fólki kom frá Mið-Austurlöndum og hefur síðan bæði eignast börn og barnabörn.

Lengst af voru samkipti innfæddra Dana og aðfluttra múslima góð. Að vísu urðu innflytjendur að sætta sig við mun verri kjör og þurftu að búa í lakari hverfum, gjarnan í blokkarfrumskóginum í vesturhluta Kaupmannahafnar. Þegar líða tók á tíunda áratuginn tóku samskitpin að versna verulega. Mörgum innfæddum Dönum stóð stuggur af afkomendum innflutta verkafólksins sem oft áttu erfitt með að komast að í dönsku samfélagi, voru jafnvel atvinnulausir og héldu gjarnan til við lestarstöðvar. Innflytjendur og afkomendur þeirra fundu fyrir aukinni tortryggni og svo fór allt í bál og brand eftir 11. september 2001. Aðeins í þessu ljósi er hægt að skilja deiluna um skopmyndirnar af Múhameð sem Jótlandspósturinn birti fyrir skemmstu.

Vegið að lýðréttindum

Atburðir vikunnar sýna að harkan er enn að aukast. Í beinu framhaldi af handtöku áttmenninganna lagði Danski þjóðarflokkurinn til enn harðari löggjöf til varnar hryðjuverkum. Samt hefur verulega verið þrengt að borgaralegum réttindum í Danmörku eftir 11. september, eins og svo víða á Vesturlöndum En Danski þjóðarflokkurinn vill semsé þrengja enn frekar að lýðréttinum manna - bæði innfæddra og innflytjenda - og boðar til að mynda stóraukna vöktun á fólki með myndavélum auk þess að heimila lögreglunni að framkvæma húsleit í heilu stigagöngunum án nokkurs dómsúrskurðar. Þá vilja þeir einnig meina fólki sem er andsnúið lýðræðisskipulagi að ferðast til landsins. Hvernig þeir ætla að skima svoleiðs fólk úr ferðamannaröðinni á Kastrup veit ég þó ekki.

Þessi grein birtist í Blaðinu í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband