Leita í fréttum mbl.is

Hryðjuverkaríkið

Ferð utanríkisráðherra til Mið-Austurlanda hefur blessunarlega orðið til þess að Íslendingar eru loks að átta sig á að alþjóðasamfélagið (les: við líka) getur ekki bara litið í hina áttina þegar deila Ísraela og Palestínumanna er annars vegar. Alþjóðasamfélagið verður að skerast í leikinn með einhverjum hætti. Í lítilli bók eftir mig sem kom út fyrr á árinu, Opið land, fjalla ég stuttlega um deiluna. Þar lagði ég til að í stað þeirrar aðskilanaðarstefnu sem nú er rekin milli Ísraela og Palestínumanna verði þess í stað reynt að koma á sambandsríki á svæðinu sem næði til allra deiluaðila. Ég sé ekki betur en þessi skrif eigi jafnvel við núna. Læt kaflan hér fljóta með.

Hryðjuverkaríkið

Skömmu eftir árásirnar í Bandaríkjunum 2001 kom George W. Bush, Bandaríkjaforseti, fram með þá yfrirlýsingu að annað hvort stæðu þjóðir heims með Bandaríkjunum í stríðinu gegn hryðjverkamönnum eða þær stæðu gegn þeim. Bush-kenningin svokallaða var þar með komin fram.
Stefna Bandaríkjanna um fyrirbyggjandi stríð hefur raunar verið prófuð fyrir botni Miðjarðarhafs um árabil. Ísrael er nokkurskonar skjólstæðingsríki Bandaríkjanna og ríkisstjórn Ísraels hefur um langa hríð fylgt þessari stefnu í Palestínudeilunni, að því er virðist með velþókknun Bandaríkjastjórnar.

Lýðræðislega kjörin ríkisstjórn Ísraels bregst nefnilega við hryðjuverkastarfsemi palestínskra skæruliðasamtaka með enn magnaðari aðgerðum, sem ekki er hægt að kalla annað en hryðjuverk, - það er að segja: ríkishryðjuverk. Glæpir palestínskra hryðjuverkamannanna eru ekki rannsakaðir og hinir seku eru ekki leiddir fyrir rétt, heldur sendir ríkisstjórnin drápsveitir sínar út af örkinni sem fella jafnt saklausa sem seka Palestínumenn í grimmilegum hefndaraðgerðum.    

Hersveitir Ísraelstjórnar hafa í gegnum áratugina sölsað undir sig sífellt stærra landsvæði Palestínumanna með ólögmætum hætti og um leið hrakið Palestínumenn á örvæntingarfullan flótta. Allri andspyrnu við innrásarherinn er svo mætt með takmarkalausri og grimmilegri hörku. Drengjum sem kasta steinum í hernámsliðið er svarað með vélbyssum og jafnvel amerískum Apache árásarþyrlum ef svo ber undir. Geltið í vélbyssunum og þyturinn í þyrluspöðunum eru orðin hversdagsleg umhverfishljóð sem ungu drengirnir, sem nú malla sér mólótovkokteil í sundurskotnum kjallara á Vesturbakkanum hafa alist upp við frá blautu barnsbeini.

Ljóst er að heiminum öllum stendur ógn af hryðjuverkum öfgatrúarmanna, hvaða sið sem þeir kunna að fylgja. Um það er ekki deilt. En jafnljóst má vera að enginn árangur mun nást í baráttunni gegn hryðjuverkum íslamskra voðaverkahópa fyrr en lausn finnst í deilum Ísraela og Palestínumanna. Um leið er flestum er nú orðið ljóst að forsenda farsællar lausnar er að Ísraelar láti af ólögmætu hernámi sínu á landsvæðum Palestínumanna. Eins og sakir standa bendir ekkert til að það muni gerast án utanaðkomandi þrýstings. Slíkt er aðeins á færi Bandaríkjamanna. Bandaríkjastjórn styður nefnilega leynt og ljóst við ríkishryðjuverk Ísraela gegn Palestínumönnum sem eru framin með bandarískum vígtólum og niðurgreidd með bandarískum dollurum. Án fjárhagsaðstoðar Bandaríkjamanna væri Ísrael gjaldþrota ríki. Bandaríkjamenn hafa því í hendi sér að stöðva voðalegt framferði Ísraela. Þeir geta einfaldlega skrúfað fyrir frekari fjárveitingar og látið af blindum stuðningi sínum.

Hingað til hafa menn helst litið til þess að koma á tveimur ríkjum á svæðinu, ríki Ísraela og ríki Palestínu, sem geti lifað hlið við hlið. Það hefur ekki gengið, aðallega vegna þess að menn koma sér ekki saman um landamærin. En ef við leggjum ískalt mat á málið, þá er líklega vænlegri lausn á deilunni til langframa að koma heldur á fjölþjóðlegu sambandsríki á svæðinu, sem rúmar bæði gyðinga og araba, - og raunar alla þá sem vilja búa í landinu helga. Sennilega eru margir tilbúnir til að blása slíkri hugmynd út af borðinu eins og hverri annarri fjarstæðu. Einhverjir munu halda því fram að átökin á svæðinu lýsi því einfaldlega að það sé útilokað fyrir þetta fólk að búa saman í einu ríki. En bíðum aðeins við. Það vill nefnilega svo til að slíkt hefur gerst áður víðs vegar um jarðarkringluna. Til að mynda má að hluta til rekja tilurð Bandaríkjanna til borgarstyrjaldar þar í landi, þótt aðstæður hafi svo sem verið aðrar og í Bosníu hefur verið gerð tilraun með svipaða hugmyndafræði. Evrópusambandið, sem vissulega er ekki sambandsríki heldur ríkjabandalag, varð ennfremur til við nokkuð svipaðar aðstæður

Um miðbik liðinnar aldar var Evrópa orðin rjúkandi rúst eftir tvö gjöreyðingarstríð sem háð voru af rótum skefjalausrar þjóðernishyggju ýmissa smákónga álfunnar sem skýldu sér bak við einangrun landa sinna og tortryggni í garð annarra þjóða. Á rústum þeirra hörmunga varð til sú hugmynd að aukin samvinna og samruni ríkja álfunnar væri eina leiðin til að tryggja frið og framfarir í hinni stríðshrjáðu Evrópu. Hugmyndin var að gera ríkin svo innbyrðis háð að árás eins ríkis á annað væri í raun árás gegn eigin hagsmunum. Tilraunin tókst og nú rúmri hálfri öld síðar búa íbúar Evrópusambandsins á einum friðsælasta og farsælasta bletti jarðarkringlunnar.

Hugmyndafræði Evrópusamvinnunar var í raun afar einföld. Yfirþjóðleg samvinna manna á milli; yfir mæri þjóða, trúabragða, tungumála og menningar er mun skynsamlegra þjóðfélagsskipulag heldur en hólfaskipting sem ýtir undir átök. Í stað þess að skilja þjóðirnar fyrir botni Miðjarðarhafs að í mis vænlegum hólfum, eins og nú er gert, þarf að koma á fjölþjóðlegu þjóðskipulagi með sameinuðu athafnasvæði og jöfnum réttindum. Um leið þarf að tryggja að allir hóparnir á svæðinu hafi jafna aðkomu að stjórn sambandsríkisins eða þess ríkjabandalagsins sem þar yrði myndað. Hið sameiginlega miðlæga vald þarf svo að fá ótvírætt ákvarðanatökuvald í sameiginlegum málefnum, sem varða grundvallaratriði ríkja, eins og samgöngur, veitumál, öryggismál, löggæslu, skattheimtu, peningamálastjórnun og meginatriði í ríkisfjármálum svo fáein svið séu nefnd. En jafnframt þarf að færa nærþjónustu á borð við almenna heilsugæslu, menntun, borgarskipulag og menningarmál út til aðildafylkja ríkjasambandsins.

Úr bókinni Opið land - staða Íslands í samfélagi þjóðanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband