Leita í fréttum mbl.is

Verslunarþjóðfélagið

Arðránið á sjávarauðlindinni er loksins farið að segja til sín. Við höfum gengið svo svakalega á matarkistuna að það er allt að verða búið í sjónum, höfum skrapað botninn of lengi og dregið allt of mikinn fisk að landi. Þvert ofan í ráðleggingar vísindamanna. Loksins hafa stjórnvöld séð að það er ekki hægt að halda svona áfram. Sem betur fer. En þegar svo mjög er dregið úr fiskveiðum hafa menn skiljanlega áhyggjur af stöðu sjávarbyggðanna. Í fréttum þessa dagana er því mikið talað um mótvægisaðgerðir til að bæta skaða einstakra staða. Af umræðunni má skilja að sumir telji aðgerðirnar tímabundnar, að ofveiðin haldi svo bara áfram eftir fáein ár. Það þurfi bara að brúa þann tíma með opinberum plástrum.

Verstöð verður að banka
Ég er vissulega ekki fiskifræðingur, hef varla mígið í saltan sjó eins og sagt er. Eigi að síður leyfi ég mér að spá því að í framtíðinni einkennist Ísland ekkert sérstaklega af sjávarútvegi. Verstöðin Ísland er liðin tíð. Verstöðinni hefur verið breytt í banka. Kannski mun koma í ljós að boðaður niðurskurður á fiskveiðum reynist sérstök blessun. Sjálfsmynd þjóðarinnar er enn ansi tengd fiskveiðum og opinberar aðgerðir miða enn flestar að því að gæta hagsmuna sjávarútvegsins. Oft á kostnað annarra atvinnugreina.

Á meðan við miðum enn allar aðgerðir við fisk hefur orðið hljóðlát bylting á atvinnuháttum landsins. Langt eftir liðinni öld stóðu fiskveiðar undir svo til öllum gjaldeyristekjum landsins. Á undanförnum árum hefur hlutfall sjávarútvegs hins vegar dregist stórlega saman og hlutur fjármálaþjónustu stigið fram úr sjávarútvegi. Alveg eins og fiskveiðisamfélagið tók við af gamla bændasamfélaginu hefur verslunarsamfélagið nú tekið við af sjávarútveginum.

Þegar sjávarútvegur var að festast í sessi á Íslandi höfðu margir efasemdir um áhrif fiskveiða á íslenskt samfélag. Opinberum aðgerðum var þá markvisst beitt til að vernda gamla bændasamfélagið. Menn gengu jafnvel svo langt að setja á sérstakt vistarband til að halda vinnufólki í sveitum og meina fólki að starfa við sjávarútveg. Nú þarf að passa að opinberar aðgerðir verði ekki til að standa í vegi fyrir eðlilegri framþróun þjóðfélagsins.

Eitt atvinnusvæði
Andstaðan gegn eðlilegum atvinnu- og þjóðfélagsbreytingum héldu á sínum tíma aftur af nútímavæðingu íslensks samfélags. Það var ekki fyrr en eftir síðari heimstyrjöld að menn fóru loks að sætta sig við þurrar búðir í þorpum, bæjum og borgum. Íhaldssemin og þráin eftir hinu löngu liðna bændasamfélagi hefur enn hamlandi áhrif í íslensku samfélagi, fjötrar fortíðar birtast ekki síst í einhverju vitlausasta landbúnaðarkerfi sem þekkist á byggðu bóli, landbúnaðarkerfi sem veldur hæsta matvælaverði sem þekkist.

Allt of lengi stóðu afturhaldssöm viðhorf í vegi fyrir þeim miklu framförum sem fylgdu sjávarútvegnum. Langt fram eftir liðinni öld hélt þorskurinn svo lífinu í þessari þjóð, alveg eins og sauðkindin hafði gert áður. En nú eru komnir nýir tímar. Íslenskt þjóðfélag byggir ekki lengur tilveru sína á fiskveiðum heldur á allra handa verslun og viðskiptum, ekki síst alþjóðlegum fjármálaviðskiptum. Með nútímavæðingu viðskiptanna verður landið allt að einu atvinnusvæði. Fyrir byggðir landsins er því orðið mikilvægara að efla menntun, fjarskipti og samgöngur heldur en að færa til einhverja byggðakvóta. Í stað hólfaskiptra smáskammtalækninga í einstaka plássum þarf nú að hugsa aðgerðir í byggðamálum með heilstæðum hætti, það skiptir nefnilega ekki öllu máli hvar fólk býr ef aðstæður og innviðir eru í lagi. Þá fyrst geta menn raunverulega valið þann lúxus að búa úti á landi.

Þessi grein birtist í Blaðinu14. júlí 2007.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband