Leita í fréttum mbl.is

Grásleppukarlar fyrr og nú

Eftir því sem sólin hækkar á lofti minnkar áhugi minn á stjórnmálum. Ég er viss um að það eigi við fleiri. Ég ætla því ekki þreyta lesendur með enn einu rausinu um stjórnmálaástandið, nóg var víst um slíkt í aðdraganda kosninga. Ætli það séu ekki ansi margir farnir að þrá stjórnmálafrítt sumar, nokkra góða daga án pólitíkusa. Að vísu hjó ég eftir því að ríkisstjórnin ætlar víst að fresta frjálsri för launafólks frá Rúmeníu og Búlgaríu fram til 2009. Það er auðvitað eins vitlaust og nokkur hlutur. Fjöldi erlends starfsfólks á Íslandi ræðst nefnilega af eftirspurn í atvinnulífinu, ekki af boðum og bönnum. En látum það samt vera.

Sumarið er semsé um það bil að koma, þrátt fyrir einstaka haglélsskot í aðdragandanum. En fyrst maður kýs á annað borð að búa á Íslandi verður nú maður bara að sætta sig við svoleiðis. Kuldakastið um daginn hafði því engin áhrif á sumarið sem hefur verið að vaxa innan í mér undanfarnar vikur. Meðal fastra vorverka er að koma hjólaflota fjölskyldunnar í lag, það þarf að pumpa, stilla, smyrja og strjúka ryk vetrarins af með rökum klút. Ég er nú ekki handlaginn maður, eiginlga óttalegur aulabárður í höndunum, en samt tókst okkur að koma hjólunum í stand. Um daginn lögðum við svo af stað eftir Ægisíðunni í fyrsta hjólatúr sumarsins. Fólkið var komið út úr húsunum, sumir á línuskautum aðrir á skokki, virðulegir eldri borgarar á gangi. Við á hjóli. Á svona dögum er vesturbærinn eiginlega eins og lítið þorp við sjávarsíðuna, nokkurn vegin eins og þegar hverfið var að byggjast fyrir um hálfri öld. Að vísu eru grásleppukarlarnir farnir en kofarnir sem enn standa við göngustíginn minna á þá tíð þegar róið var út frá Ægisíðunni. Nú eru hins vegar komnir nýir grásleppukarlar. Þessir nýju eiga ekki annað sameiginlegt með gömlu grásleppukörlunum en að jakkafötin þeirra eru svolítið eins og grásleppa á litin.

Við búum þannig að á leiðinni í bæinn förum við jafnan eftir endilangri Ægisíðunni. Vorverkin voru greinilega hafin hjá nýju grásleppukörlunum. Þetta gerist alltaf eins. Fyrst birtast stórir hálfopnir gámar fyrir framan húsið. Síðan koma stórvirkar vinnuvélar sem tæta upp garðinn og fjarlægja allan gróður áður en skipt er um jarðveg. Svo er húsið brotið og bramlað að innan, skipt um gólf, glugga og leiðslur rifnar úr veggjum. Að því loknu eru gömlu rósetturnar teknar úr loftinu og allskonar skynjarar settir í staðin. Að lokum er gengið í að fræsa burt öllu sem minnir á upprunalegt útlit hússins. Þegar aðeins skélin af húsinu stendur eftir er það endurbyggt frá grunni í nýríkum útrásarstíl. Og nýtískulegur landslagsarkitekt látinn útbúa glænýjan garð með útigrilli á stærð við meðal skólaeldhús. Um það bil þegar verið er að planta síðustu sumarblómunum renna nýju eigendurnir í hlað, faðirinn á svörtum Range Rover, konan á gráum Benz. Alltaf svona, alltaf eins. Við létum þessar framkvæmdir ekkert á okkur fá þegar við hjóluðum framhjá um daginn. Þetta er víst nútíminn. Hann er bara svona. Ég er ekki viss, en hugsanlega eru tvö til þrjú hús eftir við Ægisíðuna sem enn bíða örlaga sinna. Það eru því enn tækifæri fyrir metnaðarfulla bísnessmenn sem vilja vera eins og hinir, eins og þeir allir.

Ég les í Guardian, í grein eftir þá glöggskyggnu konu Kathryn Hughes, að það er víst mikill skortur á góðum butlerum í Bretlandi. Ég velti fyrir mér hvort lagt sé í að sú stétt manna fari að sjást á Ægissíðunni? Það væru sko almennilegir grásleppukarlar.

Þessi grein birtist í Blaðinu í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband