Leita í fréttum mbl.is

Það eina sem er víst, er að ekkert er víst

Í dag eru 92 dagar til þingiskosninga. Í seinni tíð hefur stjórnmálaástandið sjaldan verið jafnóljóst svo skömmu fyrir kosningar. Það eina sem er víst, er að ekkert er víst.

Þó má greina nokkra þræði. Óvenju margir hópar utan þings eru að bisa við að koma saman framboðslista. Marga vantar pláss. Félagar í Framtíðarlandinu höfnuðu framboðsáformum í atkvæðagreiðslu í fyrrakvöld. Líklga var það skynsamleg ákvörðun. Framtíðarlandið hefur þá áru yfir sér að vera fyrst og fremst vettvangur menningarvita á mölinni. Mér er til efs að hipp og kúl framboð úr 101 Reykjavík geti náð árangri í þingkosningum. Sumir forsprakka félagsins boða eigi að síður framboð undir öðrum merkjum. Þar fara fremst í flokki Ómar Ragnarsson og María Ellingsen. Þá hefur fyrrvendandi krataforinginn Jón Baldvin Hannibalsson gert sig líklegan til hreyfings. Margrét Sverrisdóttir, fyrrverandi frjálslynd, boðar einnig sinn framboðslista. Tveir hópar aldraðra og öryrkja hafa einnig boðað framboð en þar virðist þó allt í upplausn.

Flestir hóparnir segjast vilja breyta ríkjandi ástandi og koma ríkisstjórninni frá völdum. Vandinn er hins vegar sá að sérframboð taka vanalega fylgi frá stjórnarandstöðuflokkunum sem fyrir eru. Á meðan fitna stjórnarflokkarnir eins og púkinn á fjósbitanum. Til viðbótar við þann vanda er íslenska kosningakerfið þannig úr garði gert að stærstu flokkarnir fá hlutfallslega fleiri þingsæti heldur en atkvæðamagn gefur tilefni til. Geir H. Haarde getur því hlegið alla leið í bankann.

Frjálslyndi flokkurinn sá í haust fram á að þurrkast út af þingi og brá á það ógeðfelda ráð að efna til ófriðar við innflytjendur til að framlengja lífdaga flokksins. Eftir að forysta flokksins losaði sig við Margréti Sverrisdóttur er nú ekkert því til fyrirstöðu að flokkurinn taki upp sömu stefnu og þjóðernisflokkarnir í Danmörku og Noregi. Enn er þó óvíst hve mikils fylgis þeir geta vænst.

Framsóknarflokkurinn hefur staðið í stöðugri varnarbaráttu mörg undanfarin ár. Flokkurinn er öróttur af langri stjórnarsetu og hefur yfir sér áru gömlu fyrirgreiðslustjórnmálanna. Svo virðist þó sem flokkurinn geti náð rótfestu sem íhaldssamur hófsemdarflokkur sem skýrskotar til landsbyggðar og þjóðlegra gilda. Hugsanlega getur flokkurinn með því móti togað upp fylgið í kosningabaráttunni.

Vinstri grænir eru á mikilli siglingu nú í aðdraganda kosninga. Einhverra hluta vegna hefur flokkurinn fengið að vera nokkurn veginn í friði með sín mál og fáir beint spjótum sínum að honum. Umhverfismálin hafa einnig lyft flokknum í könnunum en reynslan úr fyrri kosningum sýnir að alls óvíst er að Steingrímur og félagar nái að landa þessu mikla fylgi alla leið ofan í kjörkassana.

Í upptakti kosningabaráttunnar hefur Samfylkingin átt erfiða daga en skoðanakannanir hafa mælt flokkinn langt undir ásættanlegu fylgi. Spjótin hafa staðið á formanninum úr öllum áttum, það virðist orðinn einhvers konar samkvæmisleikur að tala Ingibjörgu Sólrúnu niður. Kannanir sýna að jafnvel þær konur sem leggja mesta áherslu á kvennabaráttu í stjórnmálum ætla að kjósa annað. Það er ekki síst merkilegt í ljósi þess að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem lengi hefur staðið í fararbroddi kvennabaráttunnar á Íslandi, er eina konan sem á möguleika á að verða forsætisráðherra eftir kosningar, sú fyrsta í sögunni. Er nema von að spurt sé hvað kona þurfi að gera til að hljóta atkvæði kvenna?

Þessi grein birtist í Blaðinu í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband