Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

"óvéfengjanlega mikla sérstöðu"

Áfram með smjörið. Þessi ummæli Tómasar Árnasonar, þingmanns Framsóknarflokksins, endurspegla mjög svo ríkjandi hugmyndir sem fram komu í umræðunni um EFTA á sínum tíma, að Ísland væri einstakt þjóðfélag. 

Íslenzka þjóðin hefur óvéfengjanlega mikla sérstöðu meðal þjóðanna og jafnvel meðal þeirra þjóða, sem eru aðilar að EFTA. Það er eðlilegt að, tengsl Íslands við EFTA markist af þeirri sérstöðu.  

Tómas Árnason. Alþingistíðindi 1968. D. ((89.lþ.) 1. Aðild að Fríverzlunarsamtökum Evrópu.

Það var  með vísan í þessa sérstöðu sem Íslendingar fóru fram á allskonar sérlausnir í aðildarviðræðunum. Til að mynda vildi Lúðvík Jósepsson, Alþýðubandalagi, ekki veita öðrum EFTA-borgurum rétt til að starfrækja iðnfyrirtæki á Íslandi, sem ráðgert var samkvæmt 16. grein EFTA samningsins.

Ég tel fyrir mitt leyti, að það þurfi að marka þá stefnu, að það sé alveg ákveðið af okkar hálfu, að ísl. stjórnvöld verði að hafa þar fullan ákvörðunarrétt um í hverju einstöku tilfelli, hvort borgarar annarra EFTA-ríkja eigi að fá hér réttindi til atvinnurekstrar eða annarrar starfsemi til jafns við Íslendinga eða ekki

Lúðvík Jósepsson. Alþingistíðindi 1968. D. ((89.lþ.)  1. Aðild að Fríverzlunarsamtökum Evrópu.


Ljónið, refurinn og asninn

Í borgríkjum Ítalíu á fimmtándu og sextándu öld var mikil ringulreið í allri stjórnsýslu og óvenju mikið valdabrölt á ráðamannastéttinni. Við stjórnun borganna mynduðust allskonar bandalög, sum svo veik að þau riðluðust á fáeinum vikum eða mánuðum, þá urðu til ný valdabandalög og svo koll af kolli út í það endalausa. Þetta var ekki gott ástand, hvorki fyrir íbúana né fyrir heiðvirða fursta sem áttu margir hverjir erfitt með að fóta sig í fúamýri og hnífalagi borgarstjórnmálanna. Samt voru til þeir stjórnmálamenn sem elskuðu leikinn og nutu sín aldrei betur en í blóðugu atinu þegar einhverju borgríkinu var bylt eina ferðina enn.

Furstinn í Flórens

Flórens var meðal þeirra borga þar sem væringar voru miklar. Lengst af stjórnaði Medici fjölskyldan öllu sem komandi var við með harðri hendi. Helstu andstæðingar þeirra voru Albizzi fjölskyldan og Strozzi fjölskyldan. Þessar fjölskyldur háðu sína hildi öldum saman. Um tíma voru völd Medici fjölskyldunnar svo mikil að þeim tókst að skipa þrjá páfa úr eigin röðum. Fjölskyldan varð þó helst til valdagírug og brátt myndaðist nýtt bandalag gegn henni sem bylti borginni og hrifsaði völdin í sínar hendur. Svona gekk það fram og til baka. Enn í dag má greina afleiðingar af þessari stjórnmálahefð, en bara nú í vikunni hljóp eitthvert flokksbrotið úr skapti ríkisstjórnarinnar í Róm svo ríkisstjórn Romano Prodi riðar svo gott sem til falls þegar þetta er skrifað.

Einhverju sinni þegar Medici fjölskyldan var komin á kaldan klaka og búin að glutra valdataumunum úr höndunum, meðal annars vegna innbirðist misklíðar kom ungur diplómat fjölskyldunni til aðstoðar. Sagt er að diplómatinn hafi viljað koma sér í mjúkinn hjá þessari miklu valdafjölskyldu sem var í vanda stödd og skrifaði handa henni leiðbeiningarit um hvernig valdamenn eigi að haga sér í viðleitini til að öðlast völd og ekki síður til að halda þeim í þessu mjög svo ótrygga ástandi. Diplómatinn hét Niccolò di Bernardo dei Machiavelli og leiðbeiningaritið, sem meðal annars hefur verið gefið út á bók hér á Íslandi, hefur verið þýdd sem Furstinn upp á íslensku.

Klækir spunameistarans

Segja má að Machiavelli hafi verð fyrsti spunameistarinn í pólitík. Ráðlegging hans til sinna manna var einföld. Hann taldi einfaldlega að meginmarkmið furstans væri að ná völdum og halda þeim, minna skipti hvernig furstinn færi svo með yfirráð sín yfir gagnvart almenningi. Machiavelli ráðlagði því furstanum að beita einfaldlega þeim klækjum sem duga í hvert sinn og snúa á andstæðinginn með öllum tiltækum ráðum. Þegar völdunum væri náð gæti furstinn svo farið í að herða tökin, útvíkka yfirráð sín og auka umsvifin. Deilt og drottnað. Í raun er bók Machiavelli lítið annað en réttlæting á því að furstinn stjórni með valdi frekar en lögum.

Furstinn í Reykjavík

En hvernig? Hvernig taldi Machiavelli að furstinn ætti að bera sig að til að ná völdum og halda þeim? Til að skýra það út fyrir Medici fjölskyldunni tók hann dæmi úr dýraríkinu. Maciavelli vildi meina að furstinn þyrfti að tileinka sér tvo eiginleika. Hann yrði að vera hugdjarfur eins og ljón og slóttugur eins og refur. Um leið lagði Machiavelli ríka áherslu á að furstinn myndi ávallt leita ráða vísra manna áður en hann færi í þann leiðangur að bylta stjórn borgarinnar. Annars myndi illa fara. Víkur þá sögunni til borgarstjórnar í Reykjavík. Hvergi nokkur staðar í sinni ítarlegu bók ráðlagi Machiavelli sínum fursta að haga sér eins og asni.

24 stundir. 25. janúar 2008.


"jafnréttisákvæði eru hættuleg"

Ég hef semsé verið að garfa i gömlum þingræðum. Í aðdraganda EFTA-aðildarinnar sem varð árið 1970 höfðu margir þingmenn efasemdir við 16. grein EFTA saminginsins sem heimilaði EFTA-borgurum að starfrækja iðnfyrirtæki í aðildarríkjunum. Í umræðunum dró Ólafur Jóhannesson, formaður Framsóknarflokksins samanburð við sambandslögin við Danmörku sem var á sínum tíma æði mikið átakamál í sjálfstæðisbaráttunni. Í þingræðu í  nóvember 1968 sagði hann:

 

En í þeirri grein felst, að útlendingar, þ.e.a.s. ríkisborgarar í þessum aðildarlöndum Fríverzlunarbandalagsins, hafi jafna aðstöðu á við Íslendinga til þess að stofnsetja fyrirtæki og reka atvinnufyrirtæki hér á landi á vissum sviðum [...] Slík jafnréttisákvæði eru hættuleg. Jafnréttisákvæðin í sambandslagasamningnum við Danmörku þóttu hættuleg á sínum tíma, þegar Dönum einaum var fengið hér jafnrétti, svo hættuleg, að sumir alþm. létu það ráða sínu atkv. og greiddu atkv. á móti smanbandslögunum af þeim ástæðum, að þeir töldu það jafnrétti, sem þar var um að tefla, svo hættulegt. En augljóst er, að þau jafnréttisákvæði, sem hér er um að ræða eru miklu varhugaverðari, og auðvitað er hér í raun og veru ekki um nein jafnréttisákvæði að tefla, vegna þess, hve Íslendingar eru fámennir borið samana við þann fjölda, sem á að njóta þessara réttinda.

 

Ólafur Jóhannesson. Alþingistíðindi 1968. D. (89.lþ.) 1. Aðild að Fríverzlunarsamtökum Evrópu.


Valdabröltið í borginni

Ég skynja fyrst og fremst reiði og hneykslan meðal þeirra borgarbúa sem ég hitti yfir því ótrúlega valdabrölti sem nú er í Ráðhúsinu, þar liggur nú hver um annan þveran drullugur upp fyrir haus í þessu furðumakkaríi. Ringulreiðin og hnífalagið í Framsóknarflokknum bætir heldur ekki úr ástandinu. Stjórnmálin hafa sett verulega niður við alla þessa afferru, fyrst í haust og svo aftur núna. Borgarstjórnin á ekki að vera góss sem pólitískir mafíósar geta deilt út og drotnað yfir eftir eigin hagsmunum og hentisemi. Það er engu líkara en sumir þessara kjörnu fulltrúa almennings hafi hreinlega gleymt kjósendum sínum, þetta snýst bara um þá sjálfa og þeirra eigin stöðu. Jafnvel sjálfur Machiavelli hefði ekki ráðlagt nokkrum fursta að haga sér með viðlíka hætti. Hann vissi sem var að fyrr eða síðar kæmi að skuldadögum. Svo er einnig nú, það líður nefnilega ógnarfjótt að kosningum.


"mundum við að sjálfsögðu strax glata tungu okkar, menningu og sjálfstæði"

Í tengslum við rannsókn sem ég er að vinna hef ég verið að skoða umræður um utanríkismál á Alþingi, til að mynda í aðdraganga að aðild Íslands að EFTA og EES. Inn á milli arfans er að finna hrein gullkorn. Í aðdraganda aðildarinnar að EES sem varð 1994 voru margir uggandi um afdrif Íslands á hinu ógnarstóra evrópska efnahagssvæði. Þegar málið kom fyrst til umræðu á Alþingi árið 1989 sagði Páll Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins, þetta:

Okkar þjóðfélag er öðruvísi en annarra EFTA-ríkja og við þolum ekki og stöndumst ekki það frelsi --- það er nú búið að misþyrma orðinu frelsi svo mikið að ég held ég ætti heldur að nota orðið hömluleysi --- við þolum ekki það hömluleysi sem stærri ríki þola á flutningum fjármagns, hömlulaust streymi vinnuafls, vöru og þjónustu. Ef við undirgengjumst það [ákvæði EES - innskot höf] mundum við að sjálfsögðu strax glata tungu okkar, menningu og sjálfstæði á mjög skömmum tíma.

Páll Pétursson. Alþingistíðindi 1989, 111. löggjafarþing B. Umræður í máli 70, þann 9. mars 1989.


Áfram West Ham

Ég er á leiðinni til London. Þegar þú lesandi góður lest þessar línur er ég líkast til kominn út á flugbrautina á Keflavíkurflugvelli og um það bil að spenna sætisólarnar. Hundruð - ef ekki hreinlega þúsund - Íslendinga leggja leið sína til heimsborgarinnar á hverjum degi svo þetta er auðvitað ekkert merkilegt. Tekur því varla að nefna það. En samt. Ég hef á þessum vettvangi áður borið saman að vera Íslendingur í Kaupmannahöfn nú og þegar ég bjó þar fyrir áratug. Þá voru Íslendingar undirmálsfólk á félagsmálabótum en nú eiga þeir líkast til bygginguna sem hýsir dönsk félagsmálayfirvöld. Og öll hin húsin líka. Það má líka draga svona samanburð við London, því íslenskir viðskiptamenn hafa einnig keypt allt sem hönd á festir í stórborginni og nú gengur Íslendingurinn rogginn um borgina og þykist eiga heiminn, - jafnvel þótt loftbólan í Kauphöllinni heima á Íslandi sé sprungin og gengi helstu hlutafélaga sigið niður undir frostmark. En þetta var ekki alltaf svona.

Ólöglegur áður ...

Þetta var í einhverju framhaldsskólaverkfallinu fyrir um tuttugu árum. Þá voru alltaf verkföll í skólum. Árstíðarnar voru fjórar eins og nú, en þá voru þær; vetur-sumar-verkfall-haust. Við gáfumst upp á hangsinu heima í Breiðholti og skelltum okkur til London í leit að lífinu. Þá vissi enginn hvað Ísland var, nema nokkrir unglingar í Soho sem höfðu hlustað á Sykurmolana og fáeinir menningarvitar í Hammersmith sem fíluðu Messoforte. Að öðru leyti var Ísland ekki til. Og við eiginlega ekki heldur. Fengum þó á endanum vinnu sem þjónar á Pizza hut við Oxford stræti. Tókum himinn höndum og hoppuðum af fögnuði yfir framgangi okkar í lífinu.

Að vísu vorum við kolólöglegir á þessum vinnustað því þá var ekkert EES. Við fundum þó leið framhjá þeim vanda. Í atvinnuviðtalinu þóttumst við vera Danir en danskir máttu vinna í Englandi á grundvelli Evrópusambandsins. Við vorum hins vegar alveg jafnólöglegt vinnuafl og rúmennskir munnhörpuleikarar á Akureyri og tælendingarnir sem skúra reykvísk heimili fyrir skít og ekki neitt í kaup á Íslandi í dag. En þar sem við voru auðvitað alveg jafn fölbleikir í framan og meðal Dani gekk þetta ágætlega. Á hverjum degi gleymdum við svo samviskusamlega danska vegabréfinu okkar heima, eða allt þar til vinnuveitandinn hætti að spyrja um það. Okkur tókst meira að segja að blekkja útlendingaeftirlitið eitt sinn þegar eftirlitsmaður kom óvænt í heimsókn.

Einu sinni lentum við þó í slæmum bobba, það var þegar hópur danskra stúlkna kom á staðinn. Yfirþjónninn kallaði umsvifalaust á okkur og tilkynnti hópnum að hér væru danskir þjónar og þær gætu því notað móðurmál sitt. Þar sem við kunnum ekki frekar en aðrir íslenskir menntskælingar að raða saman tveimur orðum á dönsku stóðum við á eins og mállausir asnar á öndinni og komum ekki upp dönsku orði. Líkast til var líka verkfall þegar við áttum að læra talmálsdönsku heima í Hólabrekkuskóla.

... fínn maður í dag

En nú er þetta allt breytt. Nú má maður má vinna hvar sem er og þarf ekki að vera danskur til þess. Íslendingar eiga aðra hverja búð við Oxford stræti og glás af veitingastöðum. Meira að segja fótboltalið í efstu deild. Það er þess vegna að við félagarnir ætlum að kíkja á leik West Ham og Fulham á morgun. Ekki sem pizzaþjónar heldur eins og fínir menn. Sem sannir Íslendingar munum við svo kalla einum rómi: Áfram West Ham!

24 stundir. 11. janúar 2008.


Rokkað í Vittula

Undanfarna viku hef ég skemmt mér konunglega við lestur bókarinnar Rokkað í Vittula eftir finnsk/sænska höfundinn Mikael Niemi. Ég hafði þá ánægju að hitta höfundinn í Kaupmannahöfn í haust og þótti hann svo rífandi skemmtilegur að ég ákvað að verða mér úti um þessa rómuðu bók. Sagan er að einhverju leyti sjálfsæfisöguleg, segir frá uppvexti höfundar í smábænum Pajaa í norður Svíþjóð, rétt við landamæri Finnlands. Raunar er þetta á finnsku menningarsvæði, ekki sænsku, með tilheyrandi vodkadrykkju og sánaböðum. Í bókinni má finna hreint magnaðar lýsingar af uppvexti drengja á þessum norðurlsóðum, langt úr alfaraleið heimsmenningarinnar. Í bókinn má meðal annars finna lýsingar á fjöldamorði á rottum, svaðilegum loftbyssubardögum, óborganlegri drykkjukeppni, brúðkaupi dauðans og fleiri álíka uppákomum. Í sumu minnir bókin mig á uppvöxt drengja í Breiðholti á áttunda áratugnum. Þetta er greinlega ekki svo ólíkt. Bókin vakti gríðarmikla athygli þegar hún kom út, séstaklega á Norðurlöndum, en því miður fór útgáfa hennar ekki hátt hér á landi. Hún er þó til í látlausri kilju í afbragðsgóðri þýðingu Páls Valssonar.


Hugleiðing um þjóðmálaumræðu

Stundum gerist það í opinberri þjóðmálaumræðu að menn beita brögðum sem ætlað er að afvegaleiða lesandann frekar en að upplýsa. Tvær aðferðir eru einna algengastar í þeirri viðleitni.

Sú fyrri felst í að rangtúlka ummæli viðmælandans, snúa út úr rökum hans og halla svo réttu máli sjálfum sér í vil. Með þessari aðferð komast menn hjá því að takast á við þau rök sem viðmælandinn hafði raunverulega lagt fram máli sínu til stuðnings. Síðan er hjólað í þennan rangt túlkaða málflutning. Stefán Ólafsson, félagsfræðiprófessor, varð til að mynda fyrir barðinu á þessari aðferð þegar sumir stjórnmálamenn hófu að afbaka rannsóknaniðurstöður hans sem sýndu að afmarkaður hópur fólks á Íslandi bjó við fátæktarmörk samkvæmt tilteknum alþjóðlegum skilgreiningum.

Dæma úr leik
Hin aðferðin er sama marki brennd, nefnilega því að komast hjá því að takast á við rök viðmælandans. Sú gengur út á að stimpla viðmælandann og dæma þannig úr leik í umræðunni.. Það var til að mynda leiðinlegt að sjá um daginn þegar ungur og efnilegur þingmaður Framsóknarflokksins kaus að beita þessari aðferð í umfjöllun um gagnrýni Guðmundar Ólafssonar, lektors í hagfræði, á hækkun á lánshlutfalli Íbúðalánasjóðs. Þingmaðurinn ungi féll Því miður í þann grautfúla pytt að dylgja um fræðilegan heiður Guðmundar og pólitískar hvatir í stað þess að einbeita sér að hinum efnislega málflutningi. Líkast til hef ég sjálfur einhverntíman fallið í þennan sama leðindapytt en það er ekki gott að svamla lengi í forinni.

Útúrsnúningur
Stundum er báðum þessum aðferðum beitt samtímis. Sjálfur fékk ég svoleiðis jólakveðju frá Bjarna Harðarsyni, þingmanni Framsóknarflokksins, fyrst á þessum vettvangi á laugardaginn síðastliðinn og svo aftur í Morgunblaðinu á aðfangadag (tekin af vef þingmannsins). Forsaga málsins er sú að ég hafði verið fenginn til að skýra frá nýjum sáttmála ESB í Silfri Egils helgina áður. Í stað þess að gagnrýna málflutning minn efnislega fór þingmaðurinn í þann leiðangur að snúa út úr máli mínu. Raunar er engu líkara en að hann hafi ekki einu sinni heyrt þá gagnrýni sem ég færði fram á stjórnsýslu ESB í þættinum en það get ég ekki vitað um. Þvínæst hóf þingmaðurinn stimpilinn á loft og þar með átti að dæma mig úr leik sem ómarktækan í málinu.

Raunar gekk þessi þingmaður lengra en ég hef áður séð því hér var vísvitandi farið með rangt mál. Í grein sinnni hér í blaðinu fullyrti þingmaðurinn að ég sé formaður Evrópusamtakanna. Þegar ég benti honum á að þá vegtyllu hefði ég aldrei hlotið og raunar aldrei sóst eftir breytti hann mér í talsmann þessara sömu samtaka í Morgunblaðsgreininni. Samt veit þingmaðurinn fullvel að ég hef fyrir löngu látið af pólitískum afskiptum og starfa í dag sem forstöðumaður Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst. Eigi að síður kaus þingmaðurinn að halla réttu máli í stað þess að takast á við málefnið og tókst svo á einhvern stórundarlegan hátt að blanda þeim Hitler og Stalín inn í málið. Vandi minn er sá að ég myndi gjarnan vilja rökræða við þingmanninn um ríkjasamvinnu í Evrópu og stöðu Íslands í alþjóðlegu samstarfi en grein hans var svo yfirfull af gífuryrðum, fordæmingum, rausi og rangfærslum að það er tæpast hægt. 

Það er sjálfsagt að gagnrýna málflutning manna harkalega en ég held að flestu fólki leiðist að ræða við menn sem hafa meira fyrir því að snúa út úr og halla réttu máli heldur en að takast á með rökum.

24 stundir. 28 október 2007.


Gleðileg jól

Að þessu sinni vannst ekki tími til að koma út hefðbundnum jólakortum. Ég vil því nota tækifærið hér og óska öllum lesendum þessarar síðu gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.


Leiðrétting

Í dagblaði í dag heldur þingmaður því fram að ég sé formaður Evrópusamtakanna. Það er ekki rétt. Ég er ekki formaður Evrópusamtakanna og hef aldrei verið. Sá mæti maður heitir Andrés Pétursson. Ég er hins vegar forsöðumaður Evrópufræðaseturs á Bifröst.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband