25.11.2007 | 20:32
Á náttborðinu
Bunkinn á náttborðinu hefur vaxið óhóflega. Ég kom heim í gær eftir mánaðardvöl í Kaupmannahöfn með sautján bækur í bakpokanum, allar útgefnar af stjórnmálafræðideild Kaupmannahafnarháskóla. Mér leist nú ekki betur á staflann í morgun en svo að ég lét það verða mitt fyrsta verk að skreppa niður í Eymundson og ná mér í þrjár nýjar íslenskar skáldsögur, Rimla hugans eftir Einar Má, Bernharð Núll eftir Bjarna Bjarnason og Konung Norðursins eftir Val Gunnarsson. Skreið svo aftur upp í rúm með Bernharð Núll og hef skemmt mér konunglega við lesturinn. Það er alltaf sérstök stemmning í textum Bjarna.
Síðastliðnar vikur hef ég vinnunnar vegna kafað á bólakaf í tvö lykilrit sem greina íslenskt þjóðerni, annars vegar Íslenska þjóðríkið eftir Guðmund Hálfdanarson og hins vegar doktorsritgerð Birgis Hermannssonar, Understanding nationalism. Til að halda geðheilsunni hélt ég mér á floti með aðstoð tveggja norræna krimma á milli þess sem ég sökti mér ofan í rannsóknir Guðmundar og Birgis. Las Tíma nornarinnar eftir Árna Þórarinsson og Ísprinsessuna eftir Camillu Lackerg jöfnum höndum. Báðar eru fínar fyrir sinn hatt en ég gat ekki varist þeirri hugsun hvað söguhetjur í krimmum falla í ólík mót hvað kynhlutverk varðar. Iðulega eru karlkyns aðalsöguhetjur hinir verstu gallagripir en þessu er öfugt farið með konurnar, í krimmum þar sem söguhetjan er kvenkyns er hún gjarnan hrein fyrirmyndarmanneskja með sitt á hreinu. Skrítið!.
Svo langar mig einnig að nefna hér bók Daviðs Loga Sigurðssonar, Velkomin til Bagdat, sem ég las einnig um daginn. Mæli með henni við alla sem hafa áhuga á stjórnmálum í víðara samhengi en aðeins því sem snýr að okkur hér innanlands.
ES: Ég er hættur að gefa einstaka bókum stjörnur í bókaumfjöllun hér á síðunni, finnst það hreinlega ekki viðeigandi. Er því líka búinn taka út listann sem hér hefur verið að finna með stjörnugjöf yfir nýlesnar bækur.
21.11.2007 | 21:38
3 - 0
21.11.2007 | 13:36
13 - 2
19.11.2007 | 09:49
Málefni og ómálefni
Stundum falla stjórnmálamenn og aðrir sem taka þátt í opinberri umræðu í þá freistni að vega að starfsheiðri manna eða gera mönnum upp annarlegar hvatir í stað þess að takast á við þann málflutning sem menn hafa fram að færa. Enda svo miklu auðveldara. Í nýlegri færslu á bloggsíðu sinni kaus Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, að dylgja um fræðilegan heiður Guðmundar Ólafssonar, hagfræðings, í stað þess að láta duga að mæta rökum hans málefnalega. Birkir segir meðal annars:
"Ekki skyldi vera að málflutningur Guðmundar Ólafssonar helgist af því að ná fram pólitískum markmiðum frekar en að fjalla fræðilega um málaflokkinn? Skyldi kennsla hans í hagfræði við þessa háskóla vera með þessum hætti?"
Mér leiðist svona málflutningur og brá því á leik í færslu hér að neðan. Ég geri ráð fyrir að glöggir lesendur þessarar síðu hafi tekið eftir að þar er ekki á ferð mitt orðalag heldur afritaði ég einfaldlega færslu Birkis Jóns (þann hluta sem fjallaði um Guðmund) og skipti út nafni Guðmundar Ólafssonar fyrir hans eigið. Síðan staðfærði ég hans eigin málflutning og snéri upp á hann sjálfan. Ég sé að þessi litla æfing hefur vakið viðbrögð og svo virðist jafnvel sem sumir telji að stjórnmálamenn hafi rýmri rétt en annað fólk til að vera ómálefnalegir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:53 | Slóð | Facebook
18.11.2007 | 12:08
Um orðspor Alþingis og Framsóknarflokksins
Birkir Jón Jónsson, sem kynnir sig stjórnmálamann á Alþingi og í Framsóknarflokknum, fellur í þann grautfúla pytt sumra stjórnmálamanna sem þrýtur rök að ráðast að starfsheiðri manna. Ég get tekið undir með honum að menn eigi að vanda sig en er ósammála þeirri fáránlegu greiningu hans að Guðmundur Ólafsson, hagfræðingur, beri ábyrð á vanda Framsóknarflokksins. Það er áhyggjuefni fyrir orðspor Alþingis og Framsóknarflokksins að stjórnmálamaður á þeirra vegum skuli koma fram á völlinn með slíkar rangfærslur sem raun ber vitni. Ekki skyldi vera að málflutningur Birkis Jóns Jónssonar helgist af því að ná fram persónulegum markmiðum frekar en að fjalla pólitískt um málaflokkinn? Skyldi afgreiðsla hans á málefnum almennings á Alþingi vera með þessum hætti? Ég á bágt með að trúa því, en hvað á maður að halda?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:12 | Slóð | Facebook
16.11.2007 | 09:25
Jónas í húsi Jóns
Í kvöld fer fram í Jónshúsi í Kaupmannahöfn hátíðardagskrá til að minnast tvö hundruð ára afmælis Jónasar Hallgrímassonar. Jónas fæddist á Íslandi 16. nóvember 1807. Hann kom til Kaupmannahafnar 1932 og dó af slysförum hér í borg 26. maí 1845. Þessa sögu þekkja allir Íslendingar og enn þann dag í dag má sjá sorgbitna landa vora stjákla fyrir utan St. Pederstræde 140 þar sem Jónas hrasaði niður stiga á leið upp í herbegið sitt og fótbrotnaði. Sumir ráfa ráðleysislega um fyrir utan, aðrir láta duga að standa hnípnir hinum megin við götuna og íhuga örlög Jónasar og íslensku þjóðarinnar en saga skáldsins er löngu orðin sameign allra Íslendinga. Nokkrir áræða jafnvel að hringja bjöllu og fá að skoða stigann örlagaríka. Danskir vegfarendur geta kannski haldið að þetta séu útigangsmenn, geðsjúklingar eða jafnvel þjófar að leita að heppilegri inngönguleið í húsið en íbúarnir eru alvanir að finna fyrir utan húsið sitt Íslendinga í uppnámi yfir þessu hroðalega slysi sem varð fyrir 162 árum. Daginn eftir dó sjálfur ástmögur íslensku þjóðarinnar á dönsku sjúkrahúsi, aðeins 37 ára gamall.
Í dag, á tvö hundruð ára afmæli Jónasar, fer fram í Þjóðleikhúsinu heima á Íslandi vegleg minningarhátíð um ævi og örlög Jónasar en það er ekki síður við hæfi að halda á sama tíma minningarhátíð í Jónshúsi, hér í Kaupmnannhöfn. Þar mætast tveir helstu jöfrar íslenskrar sjálfstæðisbaráttu og þjóðmenningar, Jón Sigurðsson forseti og þjóððskáldið Jónas Hallgrímsson. En semsé, í kvöld verður Jónas heiðursgestur í húsi Jóns. Lengi vel áttu Íslendingar aðeins þetta eina hús í Kaupmannahöfn en nú eiga íslenskir viðskiptamenn bæði Hotel DAngleterre, Magasin og allt hitt draslið sem keypt hefur verið undanfarin ár. (Að vísu vantar enn Hviids og Tivoli í safnið en það er önnur saga).
Þeir Jón og Jónas voru að mörgu leyti ólíkir menn en báðir skynjuðu þeir kall tímans. Þeir voru réttir menn á réttum stað á réttum tíma. Í kjölfar frönsku stjórnarbyltingarinnar og Upplýsingarinnar hrundu einveldi Evrópu hvert af öðru undan kröfu um lýðræði og sjálfstjórn þjóða. Frjálslyndisstefnan hélt innreið sína og undir miðja nítjándu öld tók þjóðríkið við sem grunneining í ríkjakerfi Evrópu. Þessa hugmyndastrauma notuðu þeir Jón og Jónas í baráttu sinni fyrir sjálfstæði Íslands. Jón Sigurðsson útbjó hinn lagalega málatilbúnað sem Íslendingar byggðu kröfur sínar á og Jónas bjó til ofurrómantíska hugmynd um hina sérstöku íslensku þjóð sem mátti muna fífil sinn fegurri.
Evrópska frjálslyndisstefnan fól í sér hvoru tveggja kröfu um frelsi einstaklingsins og frelsi þjóða. Danir vildi áfram halda Íslandi innan danska ríkisins en danska stjórnin hafði þónokkurn áhuga á að auka við frelsi manna innanlands á Íslandi. Öfugt við Dani höfðu Íslendingar lítinn áhuga á einstaklingsfrelsi en þeim mun meiri áhuga á frelsi þjóðarinnar, sem enn skýrir margt í íslenskri stjórnmálaumræðu dags daglega. Andstaða við viðskiptafrelsi og atvinnufrelsi innanlads var á sínum tíma um leið einhvers konar andstaða við danska yfirstjórn.
Heima á Þingvöllum hvílir ágætur danskur slátrari sem Íslendingar hylla svo fallega hvert ár á 17. Júní. Fyrir hátíðina í kvöld ætla ég hins vegar að að rölta út í Assistens krikjugarð á Norðurbrú og heilsa upp á hann Jónas sem þar hvílir lúin bein. Eftir hátíðina er svo réttast að kíkja yfir á Hviids og skála nokkuð hressilega fyrir þjóðskáldinu. Háa skilur hnetti/ himingeimur,/ blað skilur bakka og egg;/ en anda sem unnast/ fær aldregi/ eilífð að skilið.
24 stundir, 16. nóvember 2007.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:45 | Slóð | Facebook
2.11.2007 | 10:32
Herrþjóðin og hjálendan
Áratug eftir að ég flutti frá Danmörku er ég kominn aftur til Hafnar. Hef að vísu oft komið hérna við á þeim tíma sem liðinn er en nú ætla að ég dvelja aðeins lengur en vanalega, í rúman mánuð. Fyrir tíu árum sat ég dagana langa á bókasafninu og las alþjóðastjórnmál við Kaupmannahafnarháskóla. Og nú er ég semsé kominn aftur. Þeir í stjórnmálafræðideildinni voru svo vinsamlegir að bjóða mér stöðu gestafræðimanns í gamla skólanum mínum. Þetta er allt voðalega notalegt. Hérna úr sætinu mínu, í fílabeinsturni fræðanna, steinsnar frá safninu, fæ ég nú ágætt tækifæri til að rifja upp gamla tíð.
Áratugur er svosem ekki langur tími í lífi þjóða en samt er ansi margt breytt í samskiptum Íslands og Danmerkur. Að vissu leyti var ekkert sérstaklega auðvelt að vera Íslendingur í Kaupmannahöfn hér áður fyrr. Viðhorf Dana gagnvart Íslendingum var viðhorf herraþjóðar gagnvart nýlendu sinni. Fyrir stuttum tíu árum héldu jafnvel málsmetandi Danir að Ísland nyti enn ríkulegar þróunaraðstoðar frá Dönum. Við reyndum auðvitað að leiðrétta þetta en það var engu tauti við þá komandi. Í þau fáu skipti sem danskir fjölmiðlar sáu ástæðu til að fjalla um Íslendinga var það helst þegar einhver landa okkar komst í kast við lögin eða þegar fjöldi Íslendinga á félagsmálagreiðslum fór yfir tiltekin mörk.
Nú er þetta allt breytt. Nú eru allir fjölmiðlar fullir af fréttum um óskapleg umsvif íslenskra viðskiptamanna í Danmörku. Danskir félagar mínir botna ekkert í þessari þróun og heimta að fá að vita hvaðan peningarnir koma. Ég veit svosem ekkert um það enda hef ég hvergi komið nærri þessum viðskiptum. En þegar ég nú geng um göturnar í Köben finnst mér samt einhvern vegin eins og ég eigi - þjóðernisins vegna - oggulitla hlutdeild í Magasin, Illum, Hotel DAngleterre og öllum hinum djásnum Danmerkur sem landar okkar hafa keypt út á krít að undanförnu.
Það er fleira sem hefur breyst. Fyrir áratug var Danmörk enn merkisberi evrópsks frjálslyndis. Danir voru umburðalyndir og ligeglag. Kristjanía var tákn frjálslyndis og innflytjendur höfðu það tiltölulega gott. Að vísu kraumaði ýmislegt misjanft undir niðri en á yfirborðinu töluðu menn í það minnsta fallega um annað fólk. Menn vildu vera víðsýnir. Á aðeins áratug hefur orðið algjör viðsnúningur. Búið er að reykræsta Kristjaníu og í nýlegri rannsókn kemur í ljós að í Evrópu er nú einna verst fyrir innflytjendur að búa í Danmörku. Danska innflytendalöggjöfin er sérlega fjandsamleg og innflytjendur eiga einkar erfitt með að komast inn á danska vinnumarkaðinn. Þá eru atburðir og árekstrar sem tengjast fordómum í garð innflytjenda tíðir í Danmörku. Þetta og fleira kemur nú veg fyrir að innflytjendur geti aðlagast dönsku samfélagi. Já, af er það sem áður var.
En semsé, á sama tíma og innflytjendur hafa almennt mætt aukinni andstöðu í Danmörku hafa Íslendingar hins vegar keypt sér bæði virðingu og völd í gamla herraríkinu. Allavega óttablandna virðingu og viðskiptavöld því hér er annað hvert hús nú - með einum eða öðrum hætti - í eigu Íslendinga. Að vísu vantar enn Tívoli og svo Hvids vinstue í safnið en umsvifin hafa vissulega breytt stöðu Íslands í Danmörku.
Þrátt fyrir alla þessa velgengni sækir nú nokkur beigur að Íslendingshjartanu, eftir því sem nær dregur 21. nóvember, - þegar íslenska karlalandsliðið í fótbolta sækir Dani heim á Parken. Í ár eru liðin fjörutíu ár frá 14-2 niðurlægingunni á sama velli. Nú er kominn tími til að hefna ófaranna. Ef það tekst ekki þá kaupum við bara fjandans völlinn.
24. stundir. 2. nóvember 2007.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:07 | Slóð | Facebook
28.10.2007 | 11:44
Hliðarspor
Fékk tvær nýjar bækur hjá Skruddumönnum um daginn, Hliðarspor eftir Ágúst Borgþór Sverrisson og Velkomin til Bagdat eftir Davíð Loga Sigurðsson. Las Hliðarspor í striklotu og hafði bara nokkuð gaman af þessari stuttu Reykjavíkursögu. Þetta er lágstemmd frásögn af miðaldra karlmönnum í krísu. Umfjöllunarefnið er vændi og annað framhjáhald. Að vissu leyti er þetta banal efni í nútímanum og Ágúst dansar á línunni. Einhverjir gætu haft þá skoðun að bókin falli handan viðurkennds velsæmis en mér fannst hún á endanum ganga ágætlega upp. Segi frá bók Davíðs Loga síðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:51 | Slóð | Facebook
27.10.2007 | 13:48
Fyrst á topp 500
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:18 | Slóð | Facebook
24.10.2007 | 12:02
Góð tímasetning
Danir að kjörborðinu 13. nóvember | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:13 | Slóð | Facebook
Bloggvinir
- Davíð Logi Sigurðsson
- Guðmundur Steingrímsson
- Guðfríður Lilja
- Helgi Seljan
- Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir
- Hreinn Hreinsson
- Þórarinn Eldjárn
- Aðalheiður Sigursveinsdóttir
- Dagbjört Hákonardóttir
- Trúnó
- Magnús Árni Magnússon
- Dofri Hermannsson
- Hlynur Hallsson
- Lára Stefánsdóttir
- Hrannar Björn Arnarsson
- Ingibjörg Stefánsdóttir
- Torfi Frans Ólafsson
- Karl Pétur Jónsson
- Hlynur Sigurðsson
- Forvitna blaðakonan
- Borgar Þór Einarsson
- Bjarni Harðarson
- Andrea J. Ólafsdóttir
- Friðrik Þór Guðmundsson
- Vilborg G. Hansen
- Ólaf de Fleur Jóhannesson
- Sigfús Þ. Sigmundsson
- Jóhann Ágúst Hansen
- Ingólfur Þór Guðmundsson
- Eygló Þóra Harðardóttir
- Pétur Björgvin
- Hrannar Baldursson
- Baldvin Jónsson
- Ágúst Ólafur Ágústsson
- Tómas Þóroddsson
- Tíðarandinn.is
- Stjórnmál
- Dagbjört Ásgeirsdóttir
- Gunnar Ásgeir Gunnarsson
- Þorleifur Ágústsson
- Stefán Þórsson
- Guðjón Bergmann
- Bleika Eldingin
- Ingvi Hrafn Jónsson
- Baldur Kristjánsson
- Jón Þór Bjarnason
- Róbert Björnsson
- Hlynur Jón Michelsen
- Helgi Jóhann Hauksson
- Jónína Benediktsdóttir
- Átakshópur um heilbrigða skynsemi í pólitískri umræðu
- Fanney Dóra Sigurjónsdóttir
- Salvör Kristjana Gissurardóttir
- Eiríkur Briem
- Sigurður Á. Friðþjófsson
- íd
- Steindór J. Erlingsson
- Hallur Magnússon
- Jón Þór Ólafsson
- Mafía-- Linda Róberts.
- Sigríður Karen Bárudóttir
- Sigurður Sigurðsson
- Guðfinna S. Bjarnadóttir
- Vestfirðir
- Hinrik Már Ásgeirsson
- Haukur Már Helgason
- Gylfi Þór Gíslason
- MARKAÐSSETNING Á NETINU
- Vefritid
- Hlöðver Ingi Gunnarsson
- Valgerður Halldórsdóttir
- Þekkingarsamfélagið
- Anna Sigrún Baldursdóttir
- Þórdís tinna
- Bergur Thorberg
- Valbjörg
- Ása Richardsdóttir
- Júlíus Brjánsson
- Ragnheiður Ólafsdóttir
- Evrópusamtökin, www.evropa.is
- Páll Ingi Kvaran
- Daði Einarsson
- Svandís Nína Jónsdóttir
- Alfreð Símonarson
- Birgitta Jónsdóttir
- Eygló Sara
- Gils N. Eggerz
- Gísli Tryggvason
- Gunnar Axel Axelsson
- Gunnlaugur Stefán Gíslason
- Hannibal Garcia Lorca
- Hlekkur
- Hvíti Riddarinn
- Jón Gunnar Bjarkan
- Karl Tómasson
- Loopman
- Óskar Þ. G. Eiríksson
- Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
- Sigurður Kaiser
- Stefán Örn Viðarsson
- Sæþór Helgi Jensson