Leita í fréttum mbl.is

Tvær góðar: Bernharður Núll og Konungur Norðursins

Þetta virðast ætla að vera nokkuð góð bókajól. Ég hef þegar sagt hér á síðunni nokkur orð um Hliðarspor eftir Ágúst Borgþór, Velkomin til Bagdat eftir Davíð Loga og bók Sigmundar Ernis um Guðna Ágústson. Undanfarnar vikur hef ég einnig haft á náttborðinu Bernharð Núll eftir Bjarna Bjarnason og Konung norðursins eftir Val Gunnarsson. Bjarni er þrautreyndur höfundur og hefur fyrir löngu fundið sinn stíl. Valur Gunnarsson er hins vegar nýliði á skáldsagnasviðinu. Báðar bækurnar fjalla um einkennilega og einræna menn sem finna sig illa í umhverfi sínu. Bernharður Núll er einhverskonar dulrænn atvinnumaður í mannlífsskoðun og yfir bókinn svífur ansi sérstakur andi. Þetta er að mörgu leyti áhugaverð bók hjá Bjarna enda hefur hann ansi sérstaka sín á tilveruna. Sérkennileg saga en allavega óhætt að mæla vel og rækilega með henni. Söguhetja Vals, Ilkka Hamalainen, er ólánlegur finni sem fer á heimssögulegt fyllirí. Í söguna fléttar Valur svo norræni goðafræði. Mér skilst að þessi bók hafi verið ansi lengi í smíðum en höfundurinn má vera ánægður við útkomuna. Þrátt fyrir smávægilegar brotalamir hér og þar er þetta bráðskemmtilegt verk og góð frumraun.


Mannlíf: Svona gerum við í Danmörku

Í síðasta tölublaði Mannlífs birtist eftir mig grein um dönsku þingkosningarnar. Nú þegar nýtt tölublað er komið út er orðið óhætt að vísa á greinina hér. Inngangurinn er svona:

"Andrúmsloftið var blandið spennu, hátíðleik, eftirvæntingu, óvissu, gleði og taugaviklun, jafnvel örlaði á ótta hjá sumum. Þetta gæti reynst ansi göróttur kokteill hugsaði ég með mér þegar ég gekk upp tröppurnar að Kristjánsborg, þinghúsinu í Kaupmannahöfn undir kvöld 13. nóvember síðastliðinn. Enn var rúmur klukkutími í lokun kjörstaða. Á leiðinni í þinghúsið í gegnum miðbæinn mætti ég útsendurum fimm flokka sem ólmir vildu vita hvort ég væri búinn að kjósa, allir undu þeir sér umsvifalaust að næsta manni þegar þeir áttuðu sig á að ég hef ekki kosningarétt í Danmörku. Allt á fullu. Allt gat enn gerst. ..."

Meira hér.


Bautasteinn Guðna Ágústssonar

Ljóðskáldið og fréttamaðurinn Sigmundur Ernir Rúnarsson hefur sent frá sér heilmikla bók um Guðna Ágústsson, formann Framsóknarflokksins. Þeir Sigmundur og Guðni eru nú dálítið ólíklegt par sem í sjálfu sér er kostur fyrir bók af þessu tagi. Svo notað sé orðfæri Guðna má segja að þar sem Brúnastaðabóndinn og fréttaskáldið komi saman þar sé áhugaverð bók. Og í þeirri bók má ýmislegt finna.

Fyrst er að nefna að bókin er skemmtileg aflestrar, stundum bráðskemmtileg. Sigmundur Ernir er lipur penni og hér nýtur hann sín mun betur en hægt er að gera í fréttaskrifum fyrir sjónvarp. Sigmundur nálgast verkið eins og skáldsagnahöfundur, eða jafnvel prósahöfundur, sem teiknar upp myndir af viðfangsefni sínu. Guðni er leirinn sem Sigmundur notar til að teikna upp tiltekna mynd. Þetta er í senn helsti kostur og galli bókarinnar. Það er auðvitað mikill fengur í því þegar stjórnmálamenn sem náð hafa til hæðstu metorða í íslenskum stjórnmálum segja sögu sína á bók. En um leið má spyrja sig hvers vegna Guðni leggur út í þetta verk nú, rétt á miðjum aldri og enn í miðjum eldglæringum stjórnmálanna. Líkast til lítur Guðni svo á að bókin geti hjálpað honum í stjórnmálabaráttunni. Og svo virðist sem höfundurinn hafi ákveðið að styðja viðfangsefni sitt í þeirri viðleitini.

Hér gerist tvennt í senn sem dregur úr gildi bókarinnar. Í fyrsta lagi er Guðni enn of upptekinn af næstu skrefum í stjórnmálunum og  hefur því hvorki yfirsýn yfir eigin feril né nægjanlegt þor til að gera upp erfið mál, þótt af nægu sé að taka. Í öðru lagi er skrásetjarinn með öllu gagnrýnislaus á viðfangsefni sitt og virðist hafa ákveðið strax í upphafi segja söguna aðeins út frá þröngu sjónarhorni Guðna í stað þess að skoða feril Guðna í víðara samhengi. Í sjálfu sér er ekkert athugvert við þessa nálgun og hvorki Sigmundur né Guðni reyna að villa á sér heimildir í þessum efnum. Við þurfum því bara taka bókinni eins og hún er. Í henni gætir víða ónákvæmni, svo sem þegar sagt er (bls. 258) að fyrir kosningarnar 1991 hafi helsta umræðuefnið verið hugsanleg Evrópusambandsaðild. Þá var auðvitað harðast deilt um EES. Ansi víða í bókinni er réttu máli augljóslega hallað Guðna í vil. En þar sem þessari bók er ekki ætlað annað en að lýsa sjónarhorni Guðna þá er svo sem ekki yfir neinu að kvarta í þessum efnum.

Sjálfum fannst mér tveir kaflar afgerandi bestir, sá fyrri í upphafi bókar og hinn í blálokin.  Sá fyrri fjallar raunar alls ekki um Guðna heldur um Ágúst föður hans og uppvöxt hans við vægast sagt kröpp kjör við Eyrabakka. Þar er á ferðinni mögnuð lýsing á þeirri sáru fátækt sem var á Íslandi fyrir ekki meira en mannsaldri. Ágúst átti svo eftir að koma ár sinni vel fyrir borð og varð bæði alþingismaður og héraðshöfðingi Framsóknarflokksins á Suðurlandi. Það gleymist oft að Guðni er alþingismannssonur og var á sínum tíma skilgreindur erfðaprins flokksins, en ekki sjálfsprottinn úr grasrót sveita Suðurlands eins og margir halda.

Seinni kaflinn sem mér fannst áhugaverður fjallar um samskipti Guðna og Halldórs Ásgrímssonar og það ótrúlega klúður sem varð í kringum afsögn Halldórs sem forsætisráðherra og formanns í Framsóknarflokknum. Halldór ætlaði að taka Guðna með sér út úr stjórnmálum en Guðni sá meistaralega við honum. Sú atburðarrás sýnir að Guðni kann ýmislegt fyrir sér í refskap stjórnmálanna. Hann birtist þjóðinni sem blíður, gamanasamur og eilítið gamaldags en þegar á þarf að halda getur hann verið alveg jafn slóttugur pólitíkus og allir hinir. Eftir langan feril getur Guðni því enn átt langa framtíð fyrir sér í framvarðarsveit íslenskra stjórnmála.

Kistan.is. 14. desember 2007.


Land óttans

Bandaríkin eru ekki aðeins voldugasta ríki veraldar nú um stundir heldur er þetta stóra og víðfema ríki í vesturheimi líka ansi merkilegt. Bandaríkin eru raunar stórmerkileg þjóðfélagstilraun. Þar ægir saman fólki frá öllum krummaskuðum heimsbyggðarinnar. Einmitt það er helsti styrkur Bandaríkjanna. Líkast til má heyra öll tungumál jarðar einhvers staðar í bæjum, borgum, héruðum, sýslum og ríkjum Bandaríkjanna. Þetta á sérstaklega við um New York sem hefur verið kölluð suðupottur ólíkra menninga. Allir þessir ólíku kraftar sem mætast á miðri Manhattan hafa gert þessa gömlu indjánaeyju að menningarlegum og viðskiptalegum miðpunkti Vesturlanda. En nú er þetta allt að breytast. Bandaríkin hafa nefnilega verið á stórfurðulegri óheillaför undanfarin ár sem smám saman grefur undan stöðu þeirra í samskiptum við önnur lönd.

Íslendingar hafa lengi talið sig vera bandamenn Bandaríkjanna, jafnvel haldið að sérstakur vinskapur hafi verið meðal þjóðanna tveggja. Vinir sækja hvern annan heim og taka vel á móti hver öðrum. En nú er þetta semsé allt að breytast. Þessi óheillaþróun sem átt hefur sér stað í Bandaríkjunum eftir 11. September 2001 birtist okkur Íslendingum í litlu máli nú um miðja vikuna sem segja má að hafa sett þjóðmálaumræðu á Íslandi á annan endann. Ung íslensk kona fór með vinkonum sínum í skemmtiferð til New York en í stað þess að komast í kokteilpartý með Cerry, Míröndu, Samönthu og Charlottu var hún þess í stað handjárnuð, læst í fótkefli og svo látin dúsa á stálplötu í einhverri dýflissu bandarísku alríkisstjórnarinnar í um sólarhring. Hún var svöng, hrakin, köld, hrædd og fékk ekki að hafa samband við nokkurn mann. Eftir að hafa lent í yfirheyrslum um tíðahring sinn og önnur persónuleg mál var hún svo dregin í járnum um borð í næstu vél heim til Íslands. Hún hafði gerst brotleg við bandarísk lög. Tólf árum áður hafði hún dvalið í Bandaríkjunum þremur vikum lengur en ferðamannaáritun hennar sagði til um. Semsé augsljós stórglæpamaður á ferð.

Bloggið er að verða ansi öflugt tæki í þjóðmálaumræðu og Erla Ósk Arnardóttir sagði lesendum sögu sína. Hneykslisaldan reis skiljanlega upp í íslensku samfélagi og skall á bandaríska sendiráðinu við Laufásveg af fullu afli. Meira að segja sjálft Morgunblaðið sem til skamms tíma var helsti málssvari bandarískra stjórnvalda á Íslandi náði ekki upp í nef sér af hneykslan í einkar harðorðum leiðara. Enda er það svo að jafnvel trygglyndustu vinir Bandaríkjanna hafa snúið við þeim baki. Ég lýsi því í lítilli bók sem kom út fyrr á þessu ári hvernig Bandaríkin hafa smám saman verið að  breytast í land óttans frá hryðjuverkunum hryllilegu 11. September 2001. Bókin heitir Opið land en Bandaríkin eru hægt og bítandi að verða aflokaðasta ríki Vesturlanda. Þetta er undarleg vegferð og svo virðist sem Bandríkin hafi sagt vestrænum gildum á borð við frelsi, lýðræði og mannréttindi stríð á hendur.

Prófum hér í lokin stutta hugaræfingu. Segjum sem svo að hér væri ekki um að ræða unga, aðlaðandi, ljóshærða, íslenska stúlku heldur ungan, brúneygðan, svarthærðan strák frá Mið-Asturlöndum. Segjum einnig sem svo að hann hafi ekki gerst brotlegur við ferðamannalög Bandaríkjanna heldur hafi komið í ljós að í barnaskóla heima í Arabíu hafði hann einu sinni verið í bekk með manni sem er grunaður um aðild að samtökum sem einhver af fjölmörgum leyniþjónustum Bandaríkjanna hefur bendlað við hryðjuverkastarfsemi. Ætli við getum yfir höfuð gert okkur í hugarlund hvernig tekið yrði á móti þeim manni ef hann kæmi í skemmtiferð með félögum sínum til Bandaríkjanna?

24 stundir. 14. desember 2007.


Ritrýnd grein: Hvers vegna EES en ekki ESB?

Í dag birtist eftir mig ritrýnd grein í Tímariti um félagsvísindi sem gefið er út af Háskólanum á Bifröst. Heiti greinarinnar er: Hvers vegna EES en ekki ESB? Útdráttur er svona:

"Í opinberri stjórnmálaumræðu hefur því gjarnan verið haldið fram að Ísland geti ekki gengið í Evrópusambandið vegna þess að sjávarútvegsstefna ESB sé andstæð íslenskum hagsmunum. Í þessari grein er þvert á móti spurt hvort verið geti að aðrar breytur, svo sem hugmyndir Íslendinga um fullveldið og sjálfstæði þjóðarinnar, skýri jafnvel betur hvers vegna Ísland hefur aldrei sótt um aðild að ESB? Höfundurinn ætlar sér ekki  að svara þessari stóru spurningu í eitt skipti fyrir öll í þessari stuttu grein heldur aðeins að gera tilraun til að einangra þá breytu sem mestu skiptir að rannsaka frekar í viðleitni til að að meta hvers vegna Ísland hefur kosið að standa fyrir utan stofnanir ESB."

Greinin í heild er hér


Svona gerum við í Danmörku

Ég er með svolitla grein um dönsku kosningarnar í nyjasta hefti Mannlífs. Greinin byrjar svona:

"Andrúmsloftið var blandið spennu, hátíðleik, eftirvæntingu, óvissu, gleði og taugaviklun, jafnvel örlaði á ótta hjá sumum. Þetta gæti reynst ansi göróttur kokteill hugsaði ég með mér þegar ég gekk upp tröppurnar að Kristjánsborg, þinghúsinu í Kaupmannahöfn undir kvöld 13. nóvember síðastliðinn. Enn var rúmur klukkutími í lokun kjörstaða. Á leiðinni í þinghúsið í gegnum miðbæinn mætti ég útsendurum fimm flokka sem ólmir vildu vita hvort ég væri búinn að kjósa, allir undu þeir sér umsvifalaust að næsta manni þegar þeir áttuðu sig á að ég hefði ekki kosningarétt í Danmörku. Allt á fullu. Allt gat enn gerst. ..."

Meira í Mannlífi. (Forsíðuna prýðir Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, fyrrverandi samstarfsmaður minn af Helgarpóstinum sáluga.)


Fullveldi

Á morgun eru 89 ár liðin síðan Ísland varð fullvalda ríki. Á þeim tíma sem liðinn er hefur íslensk þjóð færst frá örbirgð til bjargálna og nú í vikunni kom í ljós að lífskjör eru víst hvergi betri í heiminum samkvæmt lista Sameinuðu þjóðanna. Ekki amalegur árangur það, þótt þessi listi sé vissulega ekki gallalaus. Já, fullveldið hefur sannarlega reynst okkur vel. Sumir vilja jafnvel meina að fullveldið sé mikilvægasta auðlind Íslands, mikilvægari en fiskurinn, fossarnir og jarðvarminn til samans. Í öllu falli er fullveldið ansi mikilvægt í hugum okkar Íslendinga og flestir eru sammála um að því megi alls ekki glata í óvissu umróti nútímans.

Óljóst fyrirbæri

En hvað er fullveldi? Því er öllu erfiðara að svara. Raunar er ekkert einhlítt svar til við því hvað fullveldi er. Fullveldi er ekki eins og mold fósturjarðarinnar sem hægt er að koma við, taka á og róta í. Þótt Íslendingar séu staðráðnir í að vernda fullveldið er ekki til neinn sameiginlegur skilningur á því hvað það merkir í raun og veru. Við getum þó skoðað nokkrar skilgreiningar.

Í grunninn tekið felur hugtakið fullveldi einfaldlega í sér þá trú að einstaklingarnir ráði sér sjálfir; semsé fullveldi einstaklingsins. Skilningur Íslendinga á fullveldinu, eins og hann varð til í sjálfstæðisbaráttunni, hefur þó frekar snúið að fullveldi þjóðarinnar sem heildar. Raunar voru Íslendingar lengst af ansi torgryggnir á einstaklingsfrelsi, eins og vistabandið illræmda var til marks um. Við erum því hér að skoða fullveldi þjóða, ekki einstaklinga. Sem er raunar enn flóknara viðfangs. Í slíkum skilningi merkir fullveldi þó kannski einna helst tvennt; annars vegar að ríkið hafi einkarétt á að ráða málefnum innan eigin landamæra og hins vegar rétt til að taka þátt í starfi alþjóðastofnana.

Stjórn innanlands

Samkvæmt hefðbundnum skilningi felur fullveldið semsé í aðra röndina í sér að ríki eigi að ráða sínum innanlandsmálefnum sjálf, án utanaðkomandi íhlutunar. Á undanförnum áratugum hefur hnattvæðing viðskipta, menningar og vísinda hins vegar gert ríki heims gagnkvæmt háð hvert öðru (e. inderdepedent). Í samræmi við það hefur skilningur manna á fullveldishugtakinu breyst. Um daginn gerðist það til að mynda að vandræðagangur á húsnæðislánamarkaði í Bandaríkjunum varð til að fella gengi hlutabréfa í Kauphöll Íslands. Ekkert frekar en að íslenska ríkið ráði gengi hlutabréfa á markaði getur það ákveðið að á Íslandi skuli vera hreint loft, allavega ekki ef mengunin berst hingað frá öðrum löndum. Ríki heims geta með öðrum orðum ekki orðið fullvalda í umhverfismálum nema með því að vinna saman að mengunarvörnum. Þess vegna þurfum við Kyoto. Það er líka þess vegna sem ríki heims hafa í síauknu mæli kosið að deila fullveldi sínu í sameiginlegum stofnunum til að takast á við sameiginleg viðfangsefni.

Þátttaka í alþjóðastofnunum

Fullveldi ríkja í hnattvæddum heimi felst því núorðið fyrst og fremst í réttinum til að taka þátt í starfi alþjóðastofnana, þar sem ákvarðanir einstakra svæða og heimsbyggðarinnar allrar eru teknar. Texas og Bæheimur eru ekki fullvalda ríki og geta því ekki tekið þátt í starfi alþjóðastofnana, nema í gegnum ríkisstjórnir sínar. Ísland er hins vegar frjálst og fullvalda ríki og hefur í krafti þeirrar stöðu fulla heimild til að taka þátt í starfi alþjóðastofnana sem hafa mótandi áhrif á lífið hér heima á Íslandi. Það er því ekki síst með virkri þátttöku í alþjóðlegu samstarfi sem við tryggjum fullveldi Íslands á tuttugustu og fyrstu öldinni.

24 stundir. 30. nóvember 2007.


Matvandur?

Steinsnar frá húsinu þar sem ég bý er sjoppa, þetta er gerðaleg sjoppa sem þjónustar stórt hverfi í Vesturbæ Reykjavíkur. Samt er aldrei neitt til í henni sem mig langar í. Á kvöldin finnst mér stundum gott að fá popp, sódavatn og svolítið dökkt súkkulaði. Ég hygg að svo sé um marga. Ég vil poppa mitt popp sjálfur en í sjoppunni er bara til örbylgjupopp, reyndar í miklu úrvali. Sódavatn er einn besti drykkur sem búinn er til en í sjoppunni er bara til kolsýrt vatn með bragðefnum og sykri í flestum tilvikum líka. Ég er veikur fyrir súkkulaði og eins og allir almennilegir súkkulaðifíklar læt ég ekki annað inn fyrir mínar varir en dökkt súkkulaði, því dekkra því betra. En í sjoppunni er aðeins til metnaðarlaust mjólkursúkkulaði og svo suðusúkkulaði sem á að nota í matargerð en ekki til að gæða sér á að kveldi. Þetta er pínkulítið pirrandi því það er langt í næstu sjoppu, - og ástandið er eiginlega alveg eins þar.

Ólöglegt sjónvarp

Þetta væri ólöglegt ef fjölmiðlalög Davíðs Oddsonar hefðu náð fram að ganga. Í lögunum var lagt blátt bann við að sami aðili ræki hvoru tveggja prentmiðil og ljósvakamiðil. Það er sérstaklega áhugavert í þessu samhengi að Morgnublaðið studdi á sínum tíma fjölmiðlalög Davíðs.

Hundalógíg

Ég verð að játa að ég hreinlega skil þetta ekki. Femínistar hafa húðskammað Egil fyrir að hafa ekki nógu margar konur í þættinum sínum. En þegar hann svo býður þeim í þáttinn þá neita þær að mæta. Kannski er ég bara ekki nógu greindur til að skilja svona fágaða lógíu.
mbl.is Konur sniðganga Silfrið í mótmælaskyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband