Leita í fréttum mbl.is

Fullveldi

Á morgun eru 89 ár liðin síðan Ísland varð fullvalda ríki. Á þeim tíma sem liðinn er hefur íslensk þjóð færst frá örbirgð til bjargálna og nú í vikunni kom í ljós að lífskjör eru víst hvergi betri í heiminum samkvæmt lista Sameinuðu þjóðanna. Ekki amalegur árangur það, þótt þessi listi sé vissulega ekki gallalaus. Já, fullveldið hefur sannarlega reynst okkur vel. Sumir vilja jafnvel meina að fullveldið sé mikilvægasta auðlind Íslands, mikilvægari en fiskurinn, fossarnir og jarðvarminn til samans. Í öllu falli er fullveldið ansi mikilvægt í hugum okkar Íslendinga og flestir eru sammála um að því megi alls ekki glata í óvissu umróti nútímans.

Óljóst fyrirbæri

En hvað er fullveldi? Því er öllu erfiðara að svara. Raunar er ekkert einhlítt svar til við því hvað fullveldi er. Fullveldi er ekki eins og mold fósturjarðarinnar sem hægt er að koma við, taka á og róta í. Þótt Íslendingar séu staðráðnir í að vernda fullveldið er ekki til neinn sameiginlegur skilningur á því hvað það merkir í raun og veru. Við getum þó skoðað nokkrar skilgreiningar.

Í grunninn tekið felur hugtakið fullveldi einfaldlega í sér þá trú að einstaklingarnir ráði sér sjálfir; semsé fullveldi einstaklingsins. Skilningur Íslendinga á fullveldinu, eins og hann varð til í sjálfstæðisbaráttunni, hefur þó frekar snúið að fullveldi þjóðarinnar sem heildar. Raunar voru Íslendingar lengst af ansi torgryggnir á einstaklingsfrelsi, eins og vistabandið illræmda var til marks um. Við erum því hér að skoða fullveldi þjóða, ekki einstaklinga. Sem er raunar enn flóknara viðfangs. Í slíkum skilningi merkir fullveldi þó kannski einna helst tvennt; annars vegar að ríkið hafi einkarétt á að ráða málefnum innan eigin landamæra og hins vegar rétt til að taka þátt í starfi alþjóðastofnana.

Stjórn innanlands

Samkvæmt hefðbundnum skilningi felur fullveldið semsé í aðra röndina í sér að ríki eigi að ráða sínum innanlandsmálefnum sjálf, án utanaðkomandi íhlutunar. Á undanförnum áratugum hefur hnattvæðing viðskipta, menningar og vísinda hins vegar gert ríki heims gagnkvæmt háð hvert öðru (e. inderdepedent). Í samræmi við það hefur skilningur manna á fullveldishugtakinu breyst. Um daginn gerðist það til að mynda að vandræðagangur á húsnæðislánamarkaði í Bandaríkjunum varð til að fella gengi hlutabréfa í Kauphöll Íslands. Ekkert frekar en að íslenska ríkið ráði gengi hlutabréfa á markaði getur það ákveðið að á Íslandi skuli vera hreint loft, allavega ekki ef mengunin berst hingað frá öðrum löndum. Ríki heims geta með öðrum orðum ekki orðið fullvalda í umhverfismálum nema með því að vinna saman að mengunarvörnum. Þess vegna þurfum við Kyoto. Það er líka þess vegna sem ríki heims hafa í síauknu mæli kosið að deila fullveldi sínu í sameiginlegum stofnunum til að takast á við sameiginleg viðfangsefni.

Þátttaka í alþjóðastofnunum

Fullveldi ríkja í hnattvæddum heimi felst því núorðið fyrst og fremst í réttinum til að taka þátt í starfi alþjóðastofnana, þar sem ákvarðanir einstakra svæða og heimsbyggðarinnar allrar eru teknar. Texas og Bæheimur eru ekki fullvalda ríki og geta því ekki tekið þátt í starfi alþjóðastofnana, nema í gegnum ríkisstjórnir sínar. Ísland er hins vegar frjálst og fullvalda ríki og hefur í krafti þeirrar stöðu fulla heimild til að taka þátt í starfi alþjóðastofnana sem hafa mótandi áhrif á lífið hér heima á Íslandi. Það er því ekki síst með virkri þátttöku í alþjóðlegu samstarfi sem við tryggjum fullveldi Íslands á tuttugustu og fyrstu öldinni.

24 stundir. 30. nóvember 2007.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband