Leita í fréttum mbl.is

Fuss og svei

Vandi dálkahöfunda sem skrifa fasta pistla í blöð er ekki síst sá að finna viðeigandi umfjöllunarefni hverju sinni. Þetta er í sjálfu sér ekki flókin iðja, maður þarf bara að fylgjast sæmilega með þjóðfélagsumræðunni og velja svo eitthvað áhugavert efni úr til að fjalla um. Flestir pistlahöfundar lenda þó einhverntíman í því að verða uppskroppa með efni, þegar lítið er um að vera í þjóðfélaginu. Núna er ástandið hins vegar þveröfugt. Frá því að síðasti pistill minn birtist lesendum á þessum stað fyrir tveimur vikum hefur allt farið á annan endann í þjóðfélaginu. Meira að segja sjálft Blaðið er horfið og 24 stundir komnar í staðin. Stundum er sagt að vika sé langur tími í pólitík, hvað þá tvær vikur. Hálf eilífð? Vandinn nú er miklu heldur að vinsa úr öllu því sem hægt væri að fjalla um á þessum vettvangi akkúrat núna.

Fyrir tveimur vikum andskotaðist ég á þessum stað út í þáverandi meirihluta í Reykjavíkurborg fyrir dugleysi í dagvistunar- og samgöngumálum. Tveimur vikum síðar er meirihlutinn gufaður upp og Dagur B. Eggertsson orðinn borgarstjóri. Atburðarásin hefur verið með slíkum ólíkindum að leita þarf alla leið til Ítalíu og þar aftur á áttunda áratuginn til að finna hliðstæðu að öðru eins ráðleysi. Með einhverju ævintýralegasta klúðri sem þekkst hefur í íslenskri stjórnmálasögu - fyrr og síðar - glopraði Sjálfstæðisflokkurinn borginni í hendur endurnýjaðs Reykjavíkurlista. Einhvern vegin svona:

Fyrst gómaði Svandís Svavarsdóttir fulltrúa meirihlutaflokkanna í stjórn REI og Orkuveitunni með lúkuna á kafi ofan í sælgætiskrúsinni. Þvínæst tók borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins til við að grafa undan eigin leiðtoga, sjálfum borgarstjóranum. Gröftur sexmenninganna leiddi í ljós að Vilhjálmur stóð nú ekki á föstu undirlagi, virtist gjörsamlega úti á þekju í öllu málinu. Að því loknu stilltu sexmenningarnir samstarfsmanni sínum, Birni Inga Hrafnssyni, frammi fyrir svo ómögulegum afarkostum að ætla mætti að Sjálfstæðisflokkurinn samanstæði af eintómum viðvaningum. Þannig færði Gísli Marteinn Baldursson erkifjanda sínum, Degi Eggertssyni, sjálfan borgarstjórastólinn á vel fægðu silfurfati.

En silfurföt duga skammt í pólitík. Dagur og félagar sitja ekki aðeins uppi með sprungið vegakerfi og manneklurembihnút í leikskólunum heldur sitja þau einnig uppi með Björn Inga og vinnubrögð hans í REI málinu. Meginásökun Svandísar Svavarsdóttur og gamla minnihlutans í REI málinu var í upphafi sú að þar væru stjórnmálamenn að drullumalla með vafasama kaupréttasamninga sem að sögn áttu að færa fjárhagsleg gæði í hendur trúnaðarmanna þeirra. Svoleiðis hegðun er sjálftaka á opinberu fé og heitir á íslensku spilling, - eiginlega bullandi spilling. Í því dæmi þótti Svandísi þáttur Björns Inga svakalegastur, enda var það hann og félagar hans í stórn REI sem voru að makka með þennan subbulega kaupréttarlista. Vilhjálmur var ekki í stjórn REI. Þau ásökuðu Björn Inga um margt fleira, til að mynda fyrir að hafa þrefaldað borgarfulltrúalaunin sín með því að smyrja sjálfan sig inn í þær nefndir og ráð sem best borga í borginni. Sögðu fuss og svei þegar hann ætlaði til viðbótar að þrefalda eigin stjórnarlaun í REI. Ég veit auðvitað ekki hvort þessar ásakanir eru réttar en fyrir rétt tæpum tveimur vikum var Svandís Svarsdóttir ekki í minnsta vafa um það.

En skjótt skipast veður í lofti í íslenskum stjórnmálum. Nú situr Björn Ingi Hrafnsson í glænýjum meirihluta í hlýju skjóli Svandísar og Dags og Sjálfstæðisflokkurinn gagnrýnir allt sem hann sjálfur gerði fyrir aðeins tveimur örstuttum vikum. 

24. stundir. 19. október 2007.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband