Leita í fréttum mbl.is

Hugleiðing um þjóðmálaumræðu

Stundum gerist það í opinberri þjóðmálaumræðu að menn beita brögðum sem ætlað er að afvegaleiða lesandann frekar en að upplýsa. Tvær aðferðir eru einna algengastar í þeirri viðleitni.

Sú fyrri felst í að rangtúlka ummæli viðmælandans, snúa út úr rökum hans og halla svo réttu máli sjálfum sér í vil. Með þessari aðferð komast menn hjá því að takast á við þau rök sem viðmælandinn hafði raunverulega lagt fram máli sínu til stuðnings. Síðan er hjólað í þennan rangt túlkaða málflutning. Stefán Ólafsson, félagsfræðiprófessor, varð til að mynda fyrir barðinu á þessari aðferð þegar sumir stjórnmálamenn hófu að afbaka rannsóknaniðurstöður hans sem sýndu að afmarkaður hópur fólks á Íslandi bjó við fátæktarmörk samkvæmt tilteknum alþjóðlegum skilgreiningum.

Dæma úr leik
Hin aðferðin er sama marki brennd, nefnilega því að komast hjá því að takast á við rök viðmælandans. Sú gengur út á að stimpla viðmælandann og dæma þannig úr leik í umræðunni.. Það var til að mynda leiðinlegt að sjá um daginn þegar ungur og efnilegur þingmaður Framsóknarflokksins kaus að beita þessari aðferð í umfjöllun um gagnrýni Guðmundar Ólafssonar, lektors í hagfræði, á hækkun á lánshlutfalli Íbúðalánasjóðs. Þingmaðurinn ungi féll Því miður í þann grautfúla pytt að dylgja um fræðilegan heiður Guðmundar og pólitískar hvatir í stað þess að einbeita sér að hinum efnislega málflutningi. Líkast til hef ég sjálfur einhverntíman fallið í þennan sama leðindapytt en það er ekki gott að svamla lengi í forinni.

Útúrsnúningur
Stundum er báðum þessum aðferðum beitt samtímis. Sjálfur fékk ég svoleiðis jólakveðju frá Bjarna Harðarsyni, þingmanni Framsóknarflokksins, fyrst á þessum vettvangi á laugardaginn síðastliðinn og svo aftur í Morgunblaðinu á aðfangadag (tekin af vef þingmannsins). Forsaga málsins er sú að ég hafði verið fenginn til að skýra frá nýjum sáttmála ESB í Silfri Egils helgina áður. Í stað þess að gagnrýna málflutning minn efnislega fór þingmaðurinn í þann leiðangur að snúa út úr máli mínu. Raunar er engu líkara en að hann hafi ekki einu sinni heyrt þá gagnrýni sem ég færði fram á stjórnsýslu ESB í þættinum en það get ég ekki vitað um. Þvínæst hóf þingmaðurinn stimpilinn á loft og þar með átti að dæma mig úr leik sem ómarktækan í málinu.

Raunar gekk þessi þingmaður lengra en ég hef áður séð því hér var vísvitandi farið með rangt mál. Í grein sinnni hér í blaðinu fullyrti þingmaðurinn að ég sé formaður Evrópusamtakanna. Þegar ég benti honum á að þá vegtyllu hefði ég aldrei hlotið og raunar aldrei sóst eftir breytti hann mér í talsmann þessara sömu samtaka í Morgunblaðsgreininni. Samt veit þingmaðurinn fullvel að ég hef fyrir löngu látið af pólitískum afskiptum og starfa í dag sem forstöðumaður Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst. Eigi að síður kaus þingmaðurinn að halla réttu máli í stað þess að takast á við málefnið og tókst svo á einhvern stórundarlegan hátt að blanda þeim Hitler og Stalín inn í málið. Vandi minn er sá að ég myndi gjarnan vilja rökræða við þingmanninn um ríkjasamvinnu í Evrópu og stöðu Íslands í alþjóðlegu samstarfi en grein hans var svo yfirfull af gífuryrðum, fordæmingum, rausi og rangfærslum að það er tæpast hægt. 

Það er sjálfsagt að gagnrýna málflutning manna harkalega en ég held að flestu fólki leiðist að ræða við menn sem hafa meira fyrir því að snúa út úr og halla réttu máli heldur en að takast á með rökum.

24 stundir. 28 október 2007.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband