Leita í fréttum mbl.is

Landráðalög

28. febrúar 1933, eftir að kveikt hafði verið í þinghúsinu í Berlín samþykktu lýðræðislega kjörnir þingmenn í Þýskalandi sérstök lög sem ætlað var að bregðast við hryðuverkastarfsemi, líka þeirri og þýska þingið hafði orðið fyrir barðinu á. Þinghúsbrunalögunum þýsku (þ. Reichstagsbrandverordnung) var ætlað að auðvelda stjórnvöldum að vernda borgarana og ríkið fyrir hryðjuverkamönnum og öðrum óvinum ríkisins. Lögin heimiluðu ýmiskonar eftirlitsstarfsemi, auðvelduðu handtökur á grunuðum einstaklingum og fólu í sér almenna  skerðingu á ýmsum borgaralegum lýðréttindum sem áður höfðu verið í gildi í þýsku lagasafni. Þessi lög notaði Adolf Hitler svo til að hrifsa til sín öll völd í Þýskalandi. Eftirleikinn þekkja allir.

45 dögum eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september 2001 samþykktu lýðræðislega kjörnir þingmenn í Bandaríkjunum sérstök lög, svokölluð föðurlandslög (e. Patriot act) sem hafa að markmiði að auðvelda bandarískum stjórnvöldum að berjast gegn viðlíka hryðjuverkum og Bandaríkin höfðu orðið fyrir. Lögin heimiluðu ýmiskonar eftirlitsstarfsemi, auðvelduðu handtökur á grunuðum einstaklingum og fólu í sér almenna  skerðingu á ýmsum borgaralegum lýðréttindum sem áður höfðu verið í gildi í bandarísku  lagasafni.

Eftirlit og njósnir

Það kann að vera að einhverjum þyki ósanngjarnt að bera þessa tvo lagabálka saman en líkindin eru  eigi að síður slík að það væri fáránlegra að gera það ekki. Vissulega gengu þýsku lögin lengra en þau bandarísku og vissulega hefur sú þróun sem síðar varð í þýskalandi ekki átt sér stað í Bandaríkjunum. Sem betur fer. Hinu er ekki að leyna að það er ansi margt í þeim lagabálki sem Bush-stjónin vill kenna við föðurlandið sem vekur ugg, ekki síst í ljósi samanburðarins við Þýskaland á sínum tíma.

Eins og þýsku þinghúsbrunalögin heimila bandarísku föðurlandslögin stjórnvöldum að hafa eftirlit með grunuðum einstaklingum án þess að þeir fái að vita af eftirlitinu. Bandarísk yfirvöld fengu til að mynda heimild til að vakta tölvupóstsendingar, opna póstlögð bréf, hlera síma og svo framvegis. Allt án þess að þurfa að sækja nokkra heimild frá nokkru einasta dómsvaldi. Yfirvöld fengu víðtæka heimild til að safna ólíklegustu upplýsingum um fólk, svo sem heilsufarsupplýsingum, fjárhagsupplýsingum og jafnvel bara hvað fólk kýs að lesa heima hjá sér á kvöldin. Til að mynda var bókasöfnum gert skilt að greina frá útlánum til grunaðra einstaklinga ef þar til bær yfirvöld fara fram á það. Læknar, bóksalar og fjármálastofnanir verða að gera slíkt hið sama. Háskólum var meira að segja gert að veita álíka upplýsingar um grunaða nemendur. Sömu lög banna þessum aðilum að greina nokkrum manni frá því að upplýsingarnar hafi verið sóttar. Samband félaga um borgaraleg lýðréttindi í Bandaríkjunum (American Civil Liberties Union) hafa þó fundið út að bandarísk stjórnvöld sækja eftir slíkum upplýsingum um að minnsta kosti 30 þúsund bandaríkjamenn á hverju einasta ári.

Hér hefur aðeins verið fjallað um fáeina þætti sem lúta að bandarískum borgurum. Þar fyrir utan heimila lögin allskonar eftirlitsstarfsemi erlendis auk þess sem bandarísk stjórnvöld hafa heimild til að halda grunuðum erlendum ríkisborgurum föngnum án dóms og laga eins lengi og þeim sjálfum hentar.

Frelsi, lýðræði, mannréttindi

Lýðræðisríki Vesturlanda voru lengi að festa í sessi þau megingildi sem þjóðfélög í okkar heimshluta hafa síðan hvílt á; virku lýðræði, frelsi einstaklingsins og vernd mannréttinda. Í eina tíð voru Bandaríkin í farabroddi þeirrar baráttu. Föðurlandslögin (sem Bandaríkjaþing staðfesti að mestu á ný í mars 2006) hafa vegið svo illilega að þessum grunnstoðum vestrænna samfélaga að réttnefnd eru þetta ekkert annað en landráðalög.

Þessi grein birtist í Blaðinu 10. ágúst 2007.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband