Leita í fréttum mbl.is

Alþjóðasamfélagið í Arnarfirði

Rútan klifraði upp heiðina og brátt blasti Arnarfjörðurinn við í allri sinni dýrð. Bílstjórinn hikaði hvergi og steypti bílnum beinustu leið fram af fjallinu og rendi honum famannlega niður eftir hlykkjóttum veginum. Ég fékk fiðring í magann. Fegurðin var mögnuð og vegaspennan hafði líka sitt að segja. Þrátt fyrir þverhnípi eru engin vegrið á örmjóum fjallveginum, bara möl og svo ekkert. Erlendu gestirnir reyndu að láta á engu bera. Þetta var vissulega spennandi en þeim stóð heldur ekki á sama.

Þjóð og hnattvæðing á Hrafnseyri
Við vorum á leið á alþjóðlega ráðstefnu um þjóð og hnattvæðngu. Ráðstefnan var haldin á Hrafnseyri við Arnarfjörð í tilefni af þjóðhátíðardegi Íslendinga. Með í för voru nokkrir af fremstu fræðimönnum vesturlanda á sviði alþjóðastjórnmála. Það þótti vel við hæfi að fjalla um þjóð og hnattvæðingu svona langt í burtu frá skarkala veraldarinnar. Á Hrafnseyri eru þrjú hús, staðurinn er afskekktur og erfitt að komast þangað. Hrafnseyri við Arnarfjörð er eiginlega handan hins byggilega heims eins og einn skipuleggjanda ráðstefnunnar orðaði það. Maður finnur ekki mikið fyrir hnattvæðingunni á svoleiðis stað. Samt var lítið mál að fá þessa eftirsóttu fræðimenn til að mæta. Það er alltaf verið að bjóða þessu fólki á ráðstefnur, í London, New York og í Tokyo. Eða bara í Kaupmannahöfn. En fólk fær sjaldan boð til Vestfjarða.

Þegar þessi pistill birtist lesendum er ég staddur í Berlín á ráðstefnu. Berlín er í alfaraleið og þangað er auðvelt komast úr öllum áttum. Menn eru alltaf að fara til Berlínar. En það er samt ekkert auðvelda að fá áhugaverða fyrirlesara til Berlínar en til Vestfjarða. Það er nefnilega miklu meira spennadi að fara á ráðstefnu á Hrafnseyri heldur en í Berlín. Svona virkar hnattvæðingin líka.

Þekkingarsköpun til Vestfjarða
Í vikunni hefur verið mikil umræða um yfirvofandi niðurskurð aflaheimilda. Menn óttast áhrifin á sjávarbyggðirnar á Vestfjörðum. Kallað er á stjórnvöld að standa fyrir mótvægisaðgerðum, færa opinber störf út á land, koma með byggðakvóta eða eitthvað álíka. Ég veit það svo sem ekki, en það læðist óneitanlega að manni sá grunur að það sé kannski einmitt þessi ofuráhersla á sjávarútveginn og opinbera stjórnun sem haldi þessum byggðum í heljargreipum. Getur verið að fiskurinn sé orðinn dragbítur á framþróun þessara byggða?

Ráðstefnan sem Háskólasetur Vestfjarða og Safn Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri héldu um Þjóð og hnattvæðingu sannfærði mig í það minnsta um að það er einmitt slík starfsemi sem þarf að fá að blómstra. Það er ekkert erfiðara að stunda þekkingarstörf á Vestfjörðum heldur en í Berlín. Þetta er hin raunverulega auðlind Vestfjarða. Vandinn er hins vegar sá að ofuráherslan á sjávarútveg hefur orðið til þess að nauðsynlegir innviðir fyrir þekkingastarfsemi hafa ekki verið lagðir á Vestjörðum. Þetta þarf að laga. Vissulega skiptir sjávarútvegurinn enn máli en vægi hans fer sífellt minnkandi.

Alveg eins og þegar sjávarútvegur tók við af landbúnaði sem grunnstoð efnahagslífs á Ísland um miðja síðustu öld er nú svo komið að hlutur þekkinarfyrirtækja eins og fjármálastofnanna er orðinn meiri í landsframleiðslunni heldur en sjávarútvegs. Það blasir við að hvorki landbúnaður, sjávarútvegur né önnur frumframleiðsla getur dugað sem grundvöllur efnahagslífs á nýrri öld. Nú er kominn tími til að framleiða þekkingu. Líka á Vestfjörðum.

Þessi grein birtist í Blaðinu í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Um Eirík

Eiríkur Bergmann Einarsson
Eiríkur Bergmann Einarsson

Stjórnmála- fræðingur


Nánari upplýsingar
www.eirikur.bifrost.is
Ritaskrá

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband